Sumarið 1986 var ég sex ára. Mamma og pabbi voru að byggja hús og ég var í pössun hjá ömmu stóran part sumars. Hún var dagmamma þannig að húsið var alltaf fullt af krökkum, að vísu töluvert yngri krökkum, en þarna var alltaf líf og fjör. Ég lék mér ekki mikið við smábörnin. Var meira í því að glamra á píanóið hennar ömmu, leika mér einn í garðinum og sprella í hundinum. Hún Trýna var hress blendingur sem mikill félagsskapur var af. Ég fór með hana út að ganga og gaf henni að éta. Ég var nokkuð þroskaður miðað við aldur, eða svo er mér sagt, líklega í síðasta sinn á ævinni sem hægt var að lýsa mér þannig. En ég átti mér leyndarmál. Ljótt og sóðalegt leyndarmál sem hefur fylgt mér alla ævi og ég hef engum sagt nema nánustu vinum mínum.
Ég borðaði hundamat.
Já, það er eiginlega ekki hægt að orða þetta öðruvísi. Það var ekki þannig að ég hefði prófað að smakka smá af puttanum í eitt skipti og skyrpt því síðan út úr mér og síðan aldrei meir. Nei, ég borðaði hundamat. Á hverjum degi. Mikið af honum. Af hverju í ósköpunum, spyrð þú eflaust. Aftur get ég voða lítið fegrað þetta. Mér fannst hann einfaldlega góður.
Þetta var minn helsti veikleiki, þessi hlaupkenndi, girnilegi kjötsívalningnur sem rann svona fallega hægt úr niðursuðudósinni. Hvers konar kjöt þetta innihélt er ég ekki viss um, líklega einhvers konar blöndu af þriðja flokks afskurði sem telst óhæfur til manneldis. Einhverjir halda því fram að í niðursoðnum hundamat séu nagdýr. Ég útiloka það ekki, en finnst það hæpið. Það hlýtur að vera innihaldslýsing á hundamat rétt eins og öðrum mat og ég er viss um að það væri á allra vitorði ef hundarnir okkar ætu rottur og mýs. En hvert svo sem kjötið var, þá fannst mér það ákaflega gott. Ef ég ætti að líkja því við eitthvað þá væri það helst við sviðasultu, sem mér þykir einmitt afskaplega góður matur. Reyndar er það eini þorramaturinn sem ég kann að meta og það er ekki ósennilegt að mér finnist hún einungis góð vegna þess að hún minnir mig á hundamat.
Trýna var magur hundur, enda fékk hún yfirleitt ekki nema um helming þess matar sem henni var ætlaður. Restinni sporðrenndi ég.Ömmu grunaði aldrei neitt þegar ég bauðst til að gefa Trýnu að éta. Hún átti fullt í fangi með litlu börnin og var eflaust fegin því að þurfa ekki að hugsa um hundinn ofan á allt annað. Trýna var magur hundur, enda fékk hún yfirleitt ekki nema um helming þess matar sem henni var ætlaður. Restinni sporðrenndi ég. Í laumi inni í eldhúsi á meðan amma snýtti og skeindi. Stundum var líka til hundasúkkulaði. Það þótti mér ekki gott, en lét mig þó hafa það endrum og sinnum.
Skömmu eftir þetta fór ég að verða var við ofnæmi. Á þessum tíma hafði ég þegar greinst með katta– og hestaofnæmi, en hundaofnæmi hafði ég aldrei glímt við. Það versnaði hratt og að lokum gat ég ekki lengur leikið við Trýnu. Neyslu minni á hundamat var því sjálfhætt. Sífellt bættist í ofnæmissarpinn. Kanínur, hamstrar, kindur og naut. Ef það var með feld þá var ég með ofnæmi fyrir því — og er enn í dag. Það er engu líkara en almættið hafi gripið í taumana og gefið mér ofnæmið í von um að bjarga mannorði mínu:
„Þessi drengur verður aldrei forsætisráðherra ef hann heldur áfram að borða hundamat. Gefið honum allt ofnæmi sem við eigum.“
„Allt? Er það ekki svolítið langt gengið?“
„Nei, honum er ekki treystandi nálægt nokkru einasta dýri.“
Í dag er ég 37 ára fjölskyldumaður í fastri vinnu. Ekki forsætisráðherra, en það hefur engu að síður ræst ágætlega úr mér. Ég á samt í nokkuð óheilbrigðu sambandi við mat. „Takk fyrir mig,“ segja allir og ég hefst handa við að ganga frá eftir matinn á meðan mamman undirbýr háttatíma barnanna. Ég set diska og glös í uppþvottavélina, þurrka af borðum og þvíumlíkt. Sjálfu matarfatinu leyfi ég hins vegar að standa óhreyfðu á eldhúsbekknum. Svo þegar enginn sér til þá grandskoða ég fatið og athuga hvort þar leynist viðbrennd og vegleg klessa sem ég get stungið upp í mig án þess að maki minn missi á mér allan áhuga. Um leið og ég geri þetta þá leitar hugurinn aftur til hins sólríka sumars árið 1986, þegar ég var ungur og efnilegur, átti framtíðina fyrir mér — og borðaði hundamat.
Á hverjum degi.
Mikið af honum.