Þau ykkar sem þekkja mig vita að öllum líkindum að ég á það til að vera besservisser og bein lína. Ef ég ætti lógó þá væri það líklegast reglustika. Persónulega finnst mér ég nú hafa slakað aðeins á taumnum síðustu ár en fornleifar þessarar þráhyggju sitja enn með mér. Sem barn kom það reglulega fyrir að ég orgaði hástöfum ef einhver dirfðist til að labba yfir gangbrautina áður en græni kallinn gaf leyfi. Sénsinn að litla ég hefði getað strokið að heiman, ég mátti ekki fara ein yfir götuna án þess að vera leidd. Það er voðalega sorglegt að labba út afleggjarann að götunni þinni og svo aftur til baka með sundpoka á bakinu sem í eru hreint par af sokkum og kexpakki.
Ég hef nú samt áttað mig á því hægt og rólega að stundum er í lagi að brjóta reglurnar. Það tók samt alveg ákveðna æfingu. Í fyrsta skipti sem ég viljandi skrópaði var ég í menntaskóla og beilaði á tíma til að spila tölvuleiki með vin mínum. Svo sat ég á rúmbríkinni hans, uppspennt eins og teygður gormur, umlandi fyrir munni mér: „Við ættum að vera í frönsku akkúrat núna.“ Ég spilaði svo eiginlega ekki neina tölvuleiki, ég reyndi að gera það, en þegar mótleikari þinn vinnur þig á innan við mínútu með lokuð augun þá er varla hægt að halda því fram að þú sért raunverulega að spila. Tæknilega séð var þetta líka í annað skiptið sem ég skrópaði í tíma. Fyrsta skiptið átti sér einnig stað í menntaskóla þegar ég sleppti því að fara í verklegan tíma í listfræði því ég þurfti að undirbúa mig betur fyrir próf daginn eftir. Djössins rebel sem ég var, á bókasafninu að fara yfir stærðfræði í staðinn fyrir að... læra?
Ég hef bara alltaf kunnað svo vel við reglur. Þær segja manni hvað er gott og hvað er slæmt. Það er allt svo svart og hvítt og fyrir kvíðasjúkling er rosalega þægilegt að eitthvað skipulag haldi bara utan um allt fyrir þig. Skipulag og reglur, það er ég. Með hverjum deginum líkist ég meira og meira Monicu. Bara um daginn þreif ég allt baðherbergið mitt frá toppi til táar í bleikum gúmmíhönskum. Og svo þegar ég var búin – þá þreif ég gúmmíhanskana.
Hvað sem því líður þá er grunnurinn að reglufestu minni einfaldlega sá að ég er sammála þeim. Maður á ekki að skrópa í skóla, því það hefur slæm áhrif á námsárangur, maður á ekki að labba yfir götuna áður en græni kallinn gefur leyfi því þá geturðu orðið fyrir bíl. Sumsé, reglum fylgja rök. Hinsvegar, þegar reglum fylgja ekki rök, verð ég í fyrsta lagi afskaplega ringluð og í öðru lagi, bara hreinlega reið! Hvernig dirfist fólk að nýta sér hina heilögu aðferð hegðunarstjórnunar til ills? Hvernig getur fólk viljandi gert eitthvað sem það veit að er siðferðislega rangt? Í dag fékk ég útborgað fyrir vinnu sem ég hætti í fyrir meira en mánuði síðan og ég bara varð að senda þeim tölvupóst. En kannski er þessi vani minn kominn of langt. Stundum held ég nefnilega að of mikil reglufesta og of mikið skipulag geti verið svona eins og fólk sem er alltaf í góðu skapi. Það er í svo góðu skapi að það verður eiginlega bara pirrandi. Og kannski er ég eins.
Mér finnst bara erfitt að brjóta reglur. Eða, tja... mér finnst erfitt að brjóta reglur sem ég er sammála. Mér finnst bara erfitt að brjóta reglur sem ég er ekki sammála ef það felur í sér mikla áhættu eða að ég þurfi að ljúga að fólki. Ég segi að það sé vegna þess að ég sé ekki góð í að ljúga, en miðað við eigið track-record þá er ég bara búin að plata alla því ég er algjör snillingur í því. Ég fæ bara svo helvíti mikið samviskubit eftir á. Ef ég væri ekki með svona óþægilega mikið magn af réttlætiskennd væri ég örugglega óstöðvandi leigumorðingi. Ég ætti fullt af pening og gerði nákvæmlega það sem mig langaði. En í staðinn er ég týpan sem minnir kennarann á heimanámið og safnar ilmkertum. Pro-tip, bestu ilmkertin eru sprittkertin sem hægt er að fá í IKEA. Jólailmurinn sérstaklega er dásamlegur, rauð epli og kanill.
Ilmkertasafnandi kennarasleikjan getur samt orðið frekar leiðinleg á tímum. Mér finnst ekki sanngjarnt hvað ég fæ samviskubit auðveldlega á meðan aðrir gera það ekki. Ég held að eitthvað hafi farið úrskeiðis þegar verið var að púsla saman persónuleikanum mínum. Þegar komið var að einkennum eins og siðferði, réttlæti og samvisku hafi englarnir örugglega ætlað bara rétt að dusta yfir mig en svo kom flóðbylgja, eins og saltstautur með illa á skrúfuðu loki.
En hvenær hef ég þá brotið reglur? Ég varð mér aldrei út um skilríki til að fara á djammið, sem er bæði vegna þess að mér fannst það siðferðislega rangt en líka vegna þess að ég vissi bara ekki hvernig ég ætti að fara að því og þorði ekki að spurja því þá myndi ég ekki looka kúl lengur. Spoiler alert, yngri útgáfa af mér – þú varst ekkert sérstaklega kúl fyrir. Ég held það hafi bara aldrei verið í tísku að girða röndóttar rúllukragapeysur ofan í gallabuxur en ég reyndi þó allavega. Ég hef heldur aldrei stolið úr búð. Eða jú kannski. En það entist ekki lengi því þegar ég fann fyrir hlutnum í úlpuvasanum sem ég hafði gleymt að borga fyrir hljóp ég aftur inn í búð móð og másandi og lagfærði mistökin samstundis.
En ekki halda samt að ég sé einhver goodie-goodie smástelpa sem geri aldrei neitt rangt. Ó nei. Ég er sko hella bad girl. Aha. Ég á leðurjakka. Úr pleðri. Ég á hælaskó með göddum. Ég keypti þá á netinu þegar ég var full og ég get ekki gengið í þeim án þess að detta um koll. Og síðast en ekki síst – bara um síðustu helgi fór ég með fjölskyldunni minni í IKEA.. og ég braut skorsteininn af piparkökuhúsi og át hann.
Kemur í ljós að IKEA notar ekki síróp til að bræða saman piparkökuveggina á sýningareintökunum sínum, heldur lím. Að auki sá litli bróðir minn til mín og sagði mömmu minni frá því. Svo, hvað höfum við lært hingað til krakkar? Nördaskapur og reglusemi borgar sig alltaf, því með þeim kemurðu fólki til að hlæja, og án þeirra endarðu á því að borða lím.