Þegar ég var sjö ára vann móðir mín á ferðaskrifstofu á sumrin. Einhverju sinni kom hún heim með VHS-spólu merkta Úrvali Útsýn. Þar sem þetta var í gamla daga og ekki til nein YouTube-myndbönd af fullorðnu fólki í Spider-Man búningum eða upptökur af sænskum nasistum að spila Minecraft varð maður bara að horfa á það sem að höndum bar hverju sinni. Þessi spóla var sirka 7 mínútna langt kynningarmynd fyrir einhver íbúðahótel á Mallorca; skot af fjölskyldum að busla í sundlaugum, renna sér í vatnsrennibrautargörðum, háma í sig heilsteikta kjúklinga í grísaveislum og skoppandi um á sæbönunum sem spíttbátur dró meðfram glitrandi ströndinni. Undir þessu ómaði instrúmental útgáfa af La Isla Bonita með Madonnu á lúppu, aftur og aftur.
Þessa spólu horfði ég á kannski 500 sinnum. Spóla til baka, La Isla Bonita. Stop. Spóla til baka. Play. Þarna þráði ég að vera, þar sem samba var spilað og sólin hátt á lofti. La Isla Bonita.
Nú tæpum þremur áratugum síðar, eftir rúma tvo mánuði samkomubanni, líður mér nákvæmlega svona.
Aldrei hef ég þráð eins heitt að afhenda kreditkortið mitt bara til einhverrar sölumanneskju hjá Úrvali Útsýn og biðja hana bara að finna út úr þessu fyrir mig; ranka svo við mér við sundlaugarbakkann á einhverju ódýru íbúðahóteli á Magaluf með vondan lókal all you can drink bjór í höndinni, sveittur leikjanámskeiðskennari að elta barnið mitt í hringi og fararstjóri með hvíta derhúfu og mittistösku að sækja okkur í lítilli loftkældri sendiskutlu til þess að fara með okkur í grísaveislu þar sem við getum drukkið þunnt blandaða kokteila með öðrum Íslendingum sem þú mundir aldrei annars yrða á og einhver spænskur starfsmaður eltir börnin í hringi. Engin menning, engar skoðunarferðir. Bara horfa á dauðadrukkna Breta kjaga niður strandgötuna, öskursyngjandi Sweet Caroline. Paradís. Hljómar eins og paradísin sem ég vissi aldrei að ég þráði svona heitt.
En hér erum við bara. Enginn heitur vindur, enginn ódýr bjór. Maður kemst ekki einu sinni í sund. Magaluf er jafnfjarlægt og lífvænlegar plánetur í allt öðru sólkerfi; bara fölnað póstkort á ísskápnum.
En það er samt eitthvað í loftinu. Það er verið að hleypa okkur út í vorið. Og ekki bara eitthvað vor, heldur vor allra vora. Að komast út í sólina hefur verið eins að drekka heila tveggja lítra Pepsi eftir að hafa verið á ströngu lágkolvetnafæði í 2 mánuði; litir eru skærari, lykt sterkari, fólk snoppufríðara, sólin hlýrri.
Það er líka önnur tilfinning í loftinu; að þetta eigi að vera nýtt upphaf fyrir okkur sem þjóð, jafnvel fyrir okkur sem dýrategund. Eftir að göturnar og himnarnir þögnuðu, skemmtiferðaskipin slökktu á svartolíuljósavélunum og verksmiðjurnar lokuðu hefur loftið ekki verið tærara í manna minnum. Minni neysla, minni framleiðsla, meiri sjálfbærni. Racer-reiðhjólin sem voru keypt í einhverri tískumaníu árið 2016 eru dregin aftur fram í dagsljósið, hver einasta íbúð með garð er komin með matjurtarbeð og það er svo mikil orka í súrdeigsgrúppunni að fólk er byrjað að sækja um kennitölu og alþjóðlega vernd fyrir súrinn sinn.
Þetta er eins og þegar maður tekur þriggja daga safaföstu og verður fyrir andlegri uppvakningu og heitir sjálfum sér því að fara aldrei aftur á KFC í hádeginu á þriðjudegi, eða drekka heila tveggja lítra Pepsi. En eins og við þekkjum öll dofnar þessi slagkraftur og áður en maður veit af rennur maður eins og draugur inn á bílaplanið í Skeifunni og horfir á KFC nálgast eins og loftstein. Neyslan er okkur nefnilega svo nærri, svo djúpstæð; svo stór partur af henni er beintengd við okkar dýpstu þrá að lifa góðu, skemmtilegu lífi. Þannig að það er eðlilegt að við komum ekki undan þessu eins og einhverjir kalvinískir ofsatrúarklerkar; en við lærðum kannski eitthvað sem gæti gert heiminn örlítið betri, svona eins og maður lærir að maður getur til dæmis sleppt frönskunum á KFC, því þær eru ógeðslegar.
En það eru ekki allir sem þrá þetta nýja líf.
Lagt fram erindi Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 20. apríl 2020 sem varðar bann við því að stöðva og leggja næst sjúkrahóteli og barna- og kvennadeild ásamt merkingu stæðis fyrir sjúkrabifreiðar … Tillagan er unnin að ósk Landspítalans og í samvinnu við Lögreglu Höfuðborgarsvæðisins. Henni er ætlað að greiða fyrir aðkomu sjúkrabíla.
Um þessa vakandi martröð hafði fulltrúi Sjálfstæðisflokks meðal annars þetta að segja:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma frekari hömlur á aðkomu að Landspítalans við Hringbraut. Aðkoman að aðalinngangi, kvennadeildar og fæðingardeildar hafa verðið þrengdar verulega, m.a. með byggingu sjúkrahótels þar sem aðalbílastæði norðan spítalans voru áður. Nú er verið að banna að stöðva og leggja ökutækjum á þessu svæði, sem gerir mjög erfitt fyrir fólk sem á erfitt með gang að koma inn í spítalann á þessu svæði. Algjör skortur er á skammtímastæðum til að koma fólki að og frá aðalinngangi spítalans á sama hátt og áður var.
Landsspítalinn sjálfur og lögreglan biðluðu sem sagt til borgarinnar að það aðgengi sjúkrabíla að spítalanum yrði tryggt. Djöfulsins fasistar.
„Við verðum að koma þessum sjúkrabíl hérna í gegn, við megum engan tíma missa!“
„EN HVAR Á ÉG ÞÁ AÐ LEGGJA BÍLNUM MÍNUM?“
„Við erum með sjúkling sem er í hjartastoppi, hann er byrjaður að blána og fyrir öllu að við komum honum i…“
„EN ÞAÐ ER SVO LAAAANGT AÐ LAAAABBA!“
Svo var þessi mannfjandsamlega tillaga lögð fram:
Lagt fram erindi Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 24. apríl 2020 þar sem óskað er heimildar til verkhönnunar og gerðar útboðsgagna fyrir gatnamót Snorrabrautar og Borgartúns í samræmi við deiliskipulag Hlemmur og nágrenni … Verkefni þetta er hluti af metnaðarfullu deiliskipulagi fyrir Hlemmsvæðið þar sem götur og innviðir borgarinnar eru endurhannaðir til að setja gangandi og hjólandi vegfarendur í forgang. Um er að ræða fyrsta áfanga fyrirhugaðra breytinga.
Þarna voru fulltrúar minnihlutans gjörsamlega búnir að fá upp kok af þessari fullkomlega hömlulausu reiðhjólafýsn borgarstjóra og hans blæti fyrir því að eyðileggja sunnudagsbílferðir fólksins í landinu.
Þó að meirihlutinn hafi ekki á neinu stigi tekið tillit til athugasemda almennings eða hagsmunaaðila t.d. á Laugaveginum í ákvörðunum sínum, þá er það skylda þeirra að hlusta á athugasemdir lögreglunnar hvað varðar öryggissjónarmið í breytingu deiliskipulags. Í umsögn frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglustarfsemin geti ekki nýtt borgarlínu – þarna er um mikla kaldhæðni að ræða – tillagan skapar í núverandi mynd vandkvæði fyrir þjónustu lögreglu og fyrir neyðarakstur til og frá lögreglustöð. Nú er verið að fara í fyrsta áfanga í þrengingunum og eru gangandi og hjólandi settir í forgang umfram akandi umferð. Það er markvisst verið að eyðileggja miðbæinn þvert á vilja flestra landsmanna og sýnir þráhyggju borgarstjóra og meirihlutans í þrengingar- og eyðileggjandi stefnu sinni. Hver á að nota miðbæinn þegar enginn kemst þangað lengur?
Áhugavert hvernig minnihlutinn fær skyndilega áhyggjur af neyðarakstri nú þegar hann snýst um að leggja einhvern hjóla- og göngustíg á bókstaflega dauðustu gatnamótum miðborgarinnar. Þessi þrengingar-þráhyggja borgarstjóra mun að lokum kæfa okkur öll, verst að sjúkrabíllinn sem flytur okkur getur hvergi komist að spítalanum.
Eftir að hafa mótmælt bókstaflega öllum nýjum hjólastígum borgarinnar kom að lokum versta tillagan af þeim öllum, sú allra mannfjandsamlegasta og siðlaustasta:
Lagt fram erindi Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 24. apríl 2020 þar sem borin er fram tillaga að göngugötum Laugaveg frá Klapparstíg að Ingólfsstræti, Vegamótastíg frá Laugavegi að Grettisgötu, Skólavörðustíg frá Bergstaðastræti að Laugavegi.
Um þessa sódómsku syndagötu hafði áheyrnarfulltrúi Miðflokksins (Vigdís Hauksdóttir) þetta að segja:
Það er öllum nóg boðið í lokunaráráttu borgarstjóra og meirihlutans. Allar tillögur um að hafa miðbæinn opinn fyrir bílaumferð er hafnað. Til að bíta hausinn af skömminni var akstursstefnu breytt á Laugarveginum. Mikið ákall er frá rekstraraðilum og íbúa að falla frá þeirri ákvörðun. Ekkert er hlustað. Meira að segja er ákall vegna COVID-19 að aðgengið sé gott fyrir fjölskyldubílinn að þessu svæði. Borgarstjóri varð sér algjörlega til skammar þegar hann tók upp á því að fara að blanda sér í ákvarðanir sóttvarnalæknis og landlæknis sem sýnir firringuna sem sá maður er að kljást við. Glerhúsið sem borgarstjóri og meirihlutinn býr í er orðið mjög stórt og bergmálið þar inni algjört.
Sjálfstæðisflokkurinn felldi einnig nokkur tár:
Sú einstrengingslega ákvörðun að loka Laugaveginum fyrir allri bílaumferð allan ársins hring og sú hringavitleysa að breyta akstursstefnu hluta Laugavegarins hafa kallað á enn meiri flótta rekstraraðila. Í stað þess að styðja rekstraraðila í miðbænum við erfiðar aðstæður sem nú eru í samfélaginu vegna Covid-19 hefur borgarstjóri nýtt sér þessa skæðu farsótt með að koma í gegn fyrirætlunum sínum um að fara í enn víðtækari lokanir í miðbænum.
Eftir að hafa lesið mig í gegnum þetta er ég almennt skilinn eftir með einfalda spurningu: hvers konar borg vill þetta fólk eiginlega? Hvers konar lífi vill það lifa? Er tilgangurinn að vernda þau mannréttindi fólks að þurfa helst aldrei að fara undir bert loft? Sefur Eyþór Arnalds í kappakstursbílarúmi með Michael Schumacher sængurföt og dreymir allar nætur um að stinga priki inn í gjarðirnar á öllum reiðhjólunum sem eru stöðugt að svína fyrir Tesluna hans? Er markhópurinn oflaunaðir millistjórnendur sem vilja helst geta rúllað fram úr rúminu beint inn í bílinn sinn og keyrt svo bókstaflega inn á skrifstofuna sína og beint ofan í 400.000 króna ergónómíska skrifborðsstólinn svo þau gæti byrjað strax að bóka fundi sem enginn þarf á að halda.
Eftir sinn eina pólitíska sigur sem var hið vandræðalega klúðurslega braggamál virðist minnihlutinn hafa gjörsamlega fest sig í þessari ósympatísku krossferð gegn því að Reykjavík geti orðið sæmilega nútímaleg, umhverfisvæn og nett höfuðborg.
Þetta eru skrítnir tímar. Við vorum neydd til að stöðva allt hefðbundið líf okkar um stund og það er fórn. Það er sárt. En upp úr því virðist að einhverju leyti fæðast nýtt gildismat. Hvort sem það er bara um stund eða ekki verður tíminn að fá að leiða í ljós, en hitt verður augljóst að á slíkum tímum verður gjáin á milli þess sem við viljum og þess sem ráðamenn vilja enn dýpri. Við erum beðin um að hafa samúð með risavöxnum stórfyrirtækjum sem hafa greitt út tugi milljarða í arð síðustu ár á meðan samningar við hjúkrunarfræðinga eru enn lausir og verkafólk í fjölda sveitarfélaga er á leið í verkfall. Orðræðan er sú að verkalýðshreyfingin sé óvinurinn á svona tímum þegar það stefnir allt í eina dýpstu fjármálalægð okkar tíma, en á sama tíma hækka laun þingmanna og það virðist vera hægt að prenta peninga fyrir Icelandair. Hugmyndin virðist vera sú að fyrirtæki séu fólk og ef við björgum þeim rúlli það niður til fólksins eins og litlir brauðmolar. Sjálfstæðisflokkurinn er samt í svo mikilli hugmyndakrísu í svona aðstæðum. Hann getur ekki hugsað sér að ríkið eigi að eiga neitt eða reka neitt. Raunar ekki gera neitt annað en að greiða þingmönnum laun virðist vera. Það má moka tugum milljarða í Icelandair og ábyrgjast risavaxin lán þeirra algjörlega án þess að ríkið eignist neitt á móti. Ha? Ríkið eiga í flugfélagi? Er þetta Venesúela eða? Þau eru svo á móti því að fjölga opinberum störfum að Bjarni vill frekar láta fólk hanga í vinnu hjá fullkomlega dauðum vinnustöðum í engum rekstri, en samt á launum hjá ríkinu, frekar en að skapa störf og byggja eitthvað nýtt og spennandi upp. Opinber störf geta nefnilega ekki skapað nein verðmæti; draugur Milton Friedman sagði mér það.
Ef við ætlum að reyna eitthvað nýtt. Einhvers konar nýrri hugsun verða ráðamenn að fylgja. Annars er þetta bara sama gamla kjaftæðið. Allir aftur á KFC á meðan við sökkvum öll í 95 oktana blýlausa eldhafið. Og í þeirri framtíð þar sem að eina lífríkið eru tóbaksplöntur og kókalauf verður Eyþór Arnalds enn lifandi sem einhvers konar ódauðlegt höfuð í krukku, sendandi hverri þeirri sjálfsmeðvituðu gervigreind sem hefur hneppt það sem eftir lifir mannkyns í þrældóm minnisblöð og bókanir um hversu erfitt sé að fá stæði nálægt höfuðkúpukastalanum ef maður er að reyna að heimsækja gíginn þar sem þjónustumiðstöð Tesla stóð eitt sinn.