Það er þetta með þjóðmenninguna. Ríkisstjórnin boðaði í fyrra að nú skyldi hlúa að henni og hafa hana í hávegum, þjóðmenninguna. Framsóknarflokkurinn hafði á landsfundi tveimur árum áður – og svo sem löngu fyrr og síðar – fært okkur heim sanninnum það hver þjóðmenningin væri: Þjóðmenning er glímusýning uppi á sviði fyrir fullum bíósal af gömlu fólki, þjóðmenning er Egill Ólafsson að belja ættjarðarljóð, þjóðmenning er allt sem Jóni Sigurðssyni gæti hafa fundist um nútímann og þjóðmenning er Guðni Ágústsson að borða lengsta hrossabjúga í heimi og tala um gult fólk í sömu andrá og hann sver af sér xenófóbíu.
Hafi einhver haldið að þjóðmenning væri líka húsið sem til stóð að reisa utan um öll handritin okkar, tungumálið, sagnaarfinn og stúdíuna sem tengist honum, þá er það misskilningur. Því verkefni var hrundið af stokkunum af landráðastjórninni sem vildi selja Íslendinga í ánauð á meginlandinu og þess vegna er miklu betra að hafa við Suðurgötuna stóra, þjóðmenningarlega holu botnfulla af alíslensku vatni sem bíður þess eins að gufa upp, falla aftur til jarðar yfir hálendinu og knýja þar nýrómantískar lýðræðisvirkjanir.
Nei, Konungsbók Eddukvæða er ekki þjóðmenningin sem þarf að hlúa að – öllum þeim íslensku handritum og verðmætum sem þarfnast varðveislu hefur forsætisráðherra sjálfur komið fyrir haganlega og áráttukennt í fúkkanum í gólfum og veggjum útvarpshússins við Efstaleiti. Þar eru gersemar á borð við ríkisreikning ársins 1998, Gallup-kannanir frá 1994 sem sýna fram á að þá hlakkaði fólk til jólanna, skýrslur um reynslu bænda af verkun heys í rúllubagga og upplýsinga- og tæknimenntun í grunnskólum árið 1997, snýtibréf og tékklistar fyrir sminkur, allt meira og minna sundurnagað og útatað í músaskít.
Þetta er þjóðmenningin sem Sigmundur Davíð forðaði frá glötun „eins og Árni [Magnússon] forðum“, svo vitnað sé í hann sjálfan. Það er ekki galin samlíking. Þarna vantaði bara eintak af Stuttum Frakka á VHS og þá hefði þetta verið svo til fullkomið þjóðmenningarlegt yfirlit yfir Ísland tíunda áratugarins.
Árni, Hrói og hinn hárprúði
Þjóðmenning er reyndar að byggja helst engin ný hús – einu húsin sem máli skipta eru saggablautt útvarpshúsið, svo framarlega sem einhverjir aðrir en kommúnískir loftskeytamenn ráða þar ríkjum, og Laugavegur 4-6. Fleiri hús þarf ekki, ekki undir íslensk fræði, ekki listaháskóla, ekki Landsbankann, ekki frekjudósirnar sem vilja búa í Vatnsmýri, og alls ekki mosku. Þjóðmenning er holur og víðátta og berangur. Mínarettur eru ekki þjóðmenning. Þjóðmenning er að bera ótta í brjósti – málefnalegan, vel að merkja – um að lenda í nauðungarhjónabandi. Það er kannski ekki þjóðmenning að hóta því að drepa Salmann Tamimi, en það er að minnsta kosti þörf umræða og gott hjá Framsóknarflokknum að opna á hana. Það útheimti djörfung sem fæst bara með íslensku samsölumjólkinni.
Síðan höfum við tekið upp á því, að séríslenskum og þjóðmenningarlegum sið, að gera bræður saksóttra manna að dómurum af því að okkur er farið að leiðast svo að senda bankamenn í fangelsi. Núna er Siggi hakkari okkar ofsóttasta þjóðhetja. Ef Sigmundur Davíð er Árni Magnússon okkar tíma, sem er rökrétt að álykta, þá er Siggi hakkari hinn nýi Hrói Höttur (nei, ekki pítsustaðurinn). Alveg eins og Hrói hélt þurfalingunum uppi með því að ræna vondu lénsherrana hefur Siggi stolið fyrir tugmilljónir af sálar- og siðlausum skyndibita-, bílaleigu- og úlpukeðjum og leyft svöngum sautján ára unglingsstrákum að njóta afrakstursins á milli þess sem hann bregður sér á leynileg stefnumót með FBI í Bandaríkjunum og býður sjálfum sér á þingnefndarfundi í fylgd lífvarða. Og ef Sigmundur er Árni og Siggi er Hrói þá er Jón Ásgeir Jóhannesson hinn fagurhærði píslarvottur sem umburðarlausir valdsmenn hafa einelt í á annan áratug og leitt fram fyrir lýðinn til krossfestingar. Barrabas hét hann – sá sem slapp. Munaði litlu að það yrði hinn, þessi með þyrnikórónuna.
Framsókn er ekki nútíma-neitt
En Framsóknarflokkurinn, nútíma-hvað er hann? Stutta svarið er að hann er ekki nútíma-neitt, þótt hann hafi lagst í sama leiðangur og útgerðarmennirnir og reynt að telja okkur trú um að hann sé hinn nýi gyðingur og allir aðrir hinar nýju SS-sveitir; Sláturfélag Samfylkingarinnar. Um þessa helför vorra daga eru meira að segja haldin seminör í útlöndum þar sem Eygló Harðardóttir, sem einhvern veginn hafði tekist að skapa sér ímynd skynsama framsóknarmannsins – aðallega með því að segja sem minnst – tók að sér það óeigingjarna hlutskipti að messa yfir hausamótunum á kvenréttindafrömuðum Norðurlandanna um það hvílíku misrétti og hatri forystuflokkur íslensku ríkisstjórnarinnar þyrfti að sæta heima við.
Fulltrúar hans fá ekki einu sinni vel launuð sæti í stjórn Faxaflóahafna lengur eins og hefðarrétturinn gerir ráð fyrir. Þar eru þeir jaðarsettir og útskúfaðir eins og annars staðar. Gott ef ráðstefnugestir í Malmö sendu ekki frá sér ályktun í lok fundar um að baráttan fyrir jöfnum rétti kynjanna í þessum heimi yrði sett á ís til að hægt væri að verja kröftunum í að tryggja óskoraðan rétt stjórnmálaflokka til að hafa heimskulegar skoðanir án þess að þurfa að bera ábyrgð á þeim eða sæta gagnrýni.
Samt situr Sigmundur Davíð núna, ekur sér í hásætinu með úrklippubókina eftir borgarstjórnarkosningarnar í fanginu og veltir fyrir sér hvar í Stjórnarráðshúsinu sé best að fela söguna. Eða hvort Morgunblaðið verði enn til þegar stjórnmálaferlinum lýkur svo að hann geti að minnsta kosti endurskrifað hana.
Áður en Ingvar Gíslason hendir í baneitraða sleggjugrein um hatursorðræðu og ófrægingu er rétt að taka fram að ég hata ekki Framsóknarflokkinn. Ég vildi bara að hann væri ekki eins og hann er.
(Þessi pistill var skrifaður áður er forsætisráðherra flutti þjóðhátíðarávarp sitt á Austurvelli – annars hefði höfundur líklega fengið heilablóðfall.)