Fyrir rúmri viku birtu flestir miðlar litla frétt sem að ósekju hefði mátt vekja meiri athygli og umræðu. Fréttin var um sýknudóm í meiðyrðamáli sem Róbert Wessman, forstjóri Actavis, hafði höfðað á hendur Bjarna Ólafssyni, ritstjóra Viðskiptablaðsins – meiðyrðamáli sem fer rakleitt inn á topp 10-listann yfir heimskulegustu meiðyrðamálsóknir Íslandssögunnar og þótt víðar væri leitað og eiga þær þó margar erindi á slíka lista.
Málsóknin var raunar svo idjótísk að Róbert ætti helst að ganga í það strax að losa sig við alla sína nánustu ráðgjafa og ráða aðra sem hafa það eina hlutverk að koma í veg fyrir að hann hlaupi svona á sig aftur. Það er eiginlega mesta furða að yfirleitt hafi fundist lögfræðingur sem var tilbúinn að reka þetta mál fyrir hann.
Í grófum dráttum voru málavextir þessir: Viðskiptablaðið birti frétt um það að Björgólfur Thor Björgólfsson sakaði Róbert um fjárdrátt úr sjóðum Actavis, bæði í stefnu í skaðabótamáli sem hann hefði höfðað og í kæru til sérstaks saksóknara. Blaðið veitti Róberti færi á að svara ásökununum og gaf mótbárum hans sérstakt pláss á forsíðu.
Einkamál? Í alvöru?
Þetta taldi Róbert ótæk vinnubrögð, af ýmsum ástæðum sem hann tíundaði fyrir dómi og halda allar nokkurn veginn jafnlitlu vatni. Sigríður Hjaltested héraðsdómari skýtur þær enda bókstaflega allar niður, hverja á fætur annarri, í einhverri afdráttarlausustu dómsniðurstöðu sem undirritaður hefur séð í meiðyrðamáli. Niðurstöðukaflann í dómnum mætti umorða í: „Róbert, hvað er að þér? Þú ert að eyða tíma mínum og annarra í tómt djöfulsins rugl. Borgaðu þessum heiðvirða ritstjóra eina og hálfa milljón.“
Niðurstöðukaflann í dómnum mætti umorða í: „Róbert, hvað er að þér? Þú ert að eyða tíma mínum og annarra í tómt djöfulsins rugl. Borgaðu þessum heiðvirða ritstjóra eina og hálfa milljón.“
Fréttin var líka að öllu leyti sönn og rétt og illskiljanlegt hvað Róbert vildi fá út úr málsókninni. Datt honum í hug eitt andartak að niðurstaðan yrði ... hver? Að það ætti ekki erindi við almenning þegar einn umsvifamesti fjármálajöfur Íslandssögunnar kærir forstjóra eins stærsta fyrirtækis landsins til lögreglu fyrir glæp? Að þessi langvinna pissukeppni á milli þeirra sé bara einkamál (jafnvel þótt þeim hafi tekist að sletta úr skaufunum á sér yfir allt og alla í leiðinni)? Hann getur varla verið svo vitlaus að trúa því – og jafnvel þótt hann væri það ætti lögfræðingurinn að geta haft vit fyrir honum. Vildi hann bara að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk svo að hann gæti lagst í rúmið um kvöldið og látið eins og þetta hefði ekki gerst?
Orðstír vex aldreigi
Og af hverju finnst mér þetta verðskulda meiri umræðu? Jú, vegna þess að þetta kjarnar ágætlega hversu mikil steypa meiðyrðamálsóknir eru og hafa verið á Íslandi. Það þarf nefnilega, merkilegt nokk, ekki að leita langt aftur að öðrum bjánalegum meiðyrðamálsóknum. Þvert á móti hefur loðað við slík mál að vera galin. Rifjum upp nokkur:
- Bakkavararbræður settu Íslandsmet í vondum meiðyrðamálsóknum þegar þeir reyndu að fá Inga Frey Vilhjálmsson, fréttastjóra DV, dæmdan fyrir hatursáróður vegna sannrar og réttrar umfjöllunar hans um viðskipti þeirra. Þeir töpuðu að sjálfsögðu málinu.
- Gunnlaugur Sigmundsson fór í mál við Teit Atlason út af bloggfærslu sem sárafáir lásu þar sem fyrst og fremst voru rifjuð upp gömul og umdeild viðskipti sem svo til allir voru löngu hættir að velta fyrir sér. Gunnlaugur tapaði málinu og margfalt meiru af æru sinni en skrif Teits höfðu kostað hann.
- Gunnar Þorsteinsson í Krossinum höfðaði mál á hendur konum sem sökuðu hann um kynferðisofbeldi og ritstjóra miðilsins sem birti ásakanirnar. Úr varð opinbert dómsmál sem fór hátt í fjölmiðlum, líka þeim sem áður höfðu veigrað sér við að fjalla opinskátt um málið. Á meðal fyrirsagna sem birtust þegar málið var fyrir dómi var þessi hér: "Hann er siðblindur raðpedófíll sem er búinn að misnota fullt af fólki í skjóli trúarinnar". Með málshöfðuninni jók Gunnar athyglina á málinu um sirka 1000%, gegn því einu að upphaflegu ummælin voru dæmd dauð og ómerk (sem, augljóslega, hefur ekki nokkra þýðingu fyrir nokkurn hlut – ummælin eru enn til, allir geta fundið þau, og þeir sem þau létu falla halda meira að segja fast við sinn keip).
Og þetta eru bara örfá dæmi frá umliðnum árum. Urmul annarra mætti tína til en til þess er ekki pláss hér. Man yfirleitt einhver eftir máli þar sem æra hefur vaxið og mannorð vænkast með höfðun meiðyrðamáls – jafnvel þótt það hafi unnist? Sá má þá senda mér línu.
Valdakarlar hnykla vöðva
Meiðyrðamál ættu með réttu að vera neyðarúrræði fyrir lítilmagnann sem getur ekki varið hendur sínar með öðru móti, hefur ekki rödd til að svara fyrir sig með og er kominn í öngstræti. Í staðinn eru þau mestanpart orðin að tæki fyrir miðaldra, sterkefnaða karla í valdastöðum til að hnykla vöðvana framan í þá sem leyfa þeim ekki að stjórna umræðunni frá A til Ö og fæla fólk og fjölmiðla frá umfjöllun um sig. Þessi hópur er meira að segja með lögfræðinga í nánast fullri vinnu við að hóta málsóknum í allar áttir geðjist þeim ekki að því sem er sagt og skrifað, þegar þeim er nær undantekningalaust í lófa lagið að svara fyrir sig hátt og snjallt opinberlega, eyða misskilningi sé hann til staðar og bera sig mannalega.
Það er bæði alvarlegt og ekki síður, eins og áður hefur verið rakið, heimskulegt. Af meiðyrðamálum hlýst nefnilega ekkert gott.
Þegar ég verð orðinn miðaldra, hálfseníll og veruleikafirrtur áhrifamaður og góðborgari – sem er auðvitað óumflýjanlegt – og byrja að leggja drög að fyrstu meiðyrðamálsóknunum mínum gegn guðmávitahverjum, nennir þá einhver vinsamlegast að láta svipta mig sjálfræði? Ég veiti leyfi fyrir því að það verði vísað í þennan pistil.