Rúmfatalagerinn hefur tekið af skarið mitt í hringiðu samviskufrelsis til að ganga í magabol og stillt upp jólaservíettum og almennu jóladóti. Baggalútar og Borgardætur eru löngu búin að selja upp á jólatónleika og Sigga Beinteins brosir blítt á stóru auglýsingaskilti við Hörpu til að plögga.
Fólk hváir. MEGA JÓLIN EKKI BARA VERA Í DESEMBER? Jú, og þau eru í desember. En það er allt í gógó að byrja að pæla aðeins í því fyrr bæði fyrir okkur sem elskum jólin og líka fyrir þá sem kvíða jólunum ógurlega. Þjóðhátíð í Eyjum byrjar miðasöluna í febrúar minnir mig, og upp úr áramótum auglýsa ferðaskrifstofur sumar- og sólarferðir. Enda er ekki ráð nema í tíma sé tekið.
Margir þeirra sem hneykslast á jólatónleikaauglýsingunum er fólk sem einfaldlega hefur aldrei staðið að viðburði sem er stærri en meðal-fertugsafmæli. Miðasalan og auglýsingarnar þurfa að hefjast núna til að tékka á markaðnum, til að geta bókað hús og tónlistarfólk til aukatónleika ef þarf og minnka álag á fólkið sem að þessu stendur. Mér finnst líka geggjað að Sigga Beinteins sé að nýta sumartanið í þessa jólamyndatöku, og mun líklega taka jólakortamyndina mína í lok ágúst á næsta ári.
Námsráðgjafinn í menntaskólanum mínum stóð iðulega fyrir prófkvíðanámskeiði þegar jóla- og vorpróf nálguðust. Fyrsta glæran var oft: Maður lærir fyrir prófin alla önnina. Ekki bara í aðdraganda prófanna. Ok, þetta hjálpaði ekki neitt en mér finnst vel hægt að heimfæra þetta upp á jólin – þar sem fólk upplifir gjarna mikla pressu, stress og kvíða því það sér fyrir sér að eðlilegt sé að baka allar sortirnar, kaupa allar gjafirnar og matinn, plana öll jólaboðin og fara í þau á fimm vikna tímabili auk þess að sinna almennri vinnu. Albert Eiríksson matgæðingur bendir á að nú sé tilvalið að undirbúa vanilluextrakt fyrir jólin. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Nú er búið að segja okkur að jólin komi í ár, og það er meira að segja búið að negla dagsetninguna: 24. desember svona upp úr klukkan 18:00. Djöfull væri næs að fá fleiri fasta punkta svona niðurneglda: Vorið kemur 25. apríl. Sumarið kemur 11. júní.
Við spreðum í mat og gjafir og jólaföt og alls konar dæmi. Með því að dreifa útgjöldunum yfir þrjá mánuði er þetta ekki alveg eins óyfirstíganlegt fyrir okkur millistéttaplebbana. Fyrir utan að það þarf einfaldlega ekki að kaupa svona ógeðslega fokkans mikið, og þar kemur skipulagið og tíminn að góðum notum.
Ég get alveg kveikt á kertum og skellt í sörur sem ég borða af jólaservíettu í október ef mér fokking sýnist.
Mamma mín vann einmitt í búð á Laugavegi þegar ég var barn. Til þess að fá eitthvað jólakósí og einhverja aðventu með fjölskyldunni var byrjað að skreyta í byrjun nóvember. Ekkert agalega jóló strax, fyrst bara svona ísbirnir og snjókornaþema. Þetta auðveldaði okkur öllum að eiga skammdegisnæs saman, og að díla við myrkrið. Ég dýrka jólin og vil teygja þennan tíma eins langt og mögulegt er. Mér finnst þetta sambærilegt við það að ég gæti mögulega hækkað hitann í sólinni í apríl: Ég get alveg kveikt á kertum og skellt í sörur sem ég borða af jólaservíettu í október ef mér fokking sýnist.
Svo er til fólk sem hatar jólin sama hvort undirbúningurinn hefst kl. hálf sex þann 24. des eða 1. september - hatar þau eins heitt og ég hata fótbolta. Ég get slökkt á íþróttafréttum og sleppt því að hanga á sportbörum í frítíma mínum, en það er erfitt að flýja jólabrjálæðið og ég sýni ykkur samúð. Ég á vini sem hata jólin að hluta til vegna þess að það má ekki hata jólin. Oft gleymist að það má búa til sínar eigin hefðir og gera jólin að sínum - eða gera bara eins og vottarnir og flýja upp í sumó yfir þennan tíma, flestir fá hvort eð er frí í vinnu. Mér finnst líka að þegar boð berst í jólaboð að þá megi segja „Nei, ég kem ekki, mér finnst jólin ekki skemmtileg og myndi eyðileggja fyrir hinum, ég ætla bara að vera heima og gera eitthvað ójólalegt,“ nákvæmlega eins og það er félagslega tækt að segja „Nei, ég kem ekki í júróvisjónpartýið, ég hef aldrei verið aðdáandi þessarar keppni.“
Ég get slökkt á íþróttafréttum og sleppt því að hanga á sportbörum í frítíma mínum, en það er erfitt að flýja jólabrjálæðið og ég sýni ykkur samúð.
Hins vegar má alveg benda á að jólin stækka kolefnisfótsporið okkar verulega. Jólapappír er óumhverfisvænn og mikið af jólagjöfum kalla fram frosin bros í stað þakklætis, og eru aldrei notaðar. Ég er sammála öllum þeim sem benda á að það þarf ekki að jóla yfir sig. Því ætla ég að jóla jafn mikið og ég geri venulega – en dreifa því yfir lengri tíma.
Ég er stuðningskona „dimma ljósin og kveikja á kertum“ í stað þess að gera allt gjörsamlega spikk og span. Síðustu jól setti kærastinn minn upp jólatréð 4. janúar. Ég íhugaði sambandsslit, en svo mundi ég að það þurfa ekki allir að jóla alveg eins.