INT. EINBÝLISHÚS Í GARÐABÆNUM - NÓTT
Augu opnast í myrkrinu. Vindur gnauðar fyrir utan. Í rúminu liggur BJARNI BEN (45), sterklegur, stórt höfuð, stórar hendur. Mundi teljast myndarlegur á sígildan hátt ef ekki væri fyrir fölva húðarinnar og yfirgefið augnaráðið. Hann lítur á klukkuna: 03:15.
Bjarni ben
(voice over)
Ég segi sjálfum mér að það sé dragsúgurinn sem heldur mér vakandi. Lægð eftir lægð sem ber á þessu landi. Sannleikurinn er samt sá að það eru margir mánuðir síðan ég hef sofið heila nótt.
Á náttborðinu blikkar grænt tilkynningarljós á farsímanum sem í myrkrinu gæti allt eins verið vitaljós í þokufylltu svartnætti. BJARNI tekur upp símann: Ólesinn Póstur(6134). Bréf eftir bréf frá Bryndísi Kristjánsdóttur, "Össur Skarphéðinsson has tagged you in a post", "Margrét Friðriksdóttir would like to add you to her LinkedIn network". BJARNI leggur símann frá sér og andvarpar hátt.
INT. ELDHÚS Í GARÐABÆNUM - NÓTT
Ísskápshurð opnast. BJARNI, íklæddur dimmbláum flauelsslopp, pírir augun í birtunni og veltir fyrir sér úrvalinu. Hann grípur opna mjólkurfernu og þefar upp úr henni.
BJARNI BEN
(V.O)
Ég man ekki einu sinni hvað mjólkurpottur kostar. Er þetta tilfinningin að vera aftengdur frá raunveruleikanum?
BJARNI skilar fernunni og grípur í stað hennar stóra krukku af Hellmann's majonesi og lokar hurðinni.
INT. GANGUR Í EINBÝLISHÚSI - NÓTT
BJARNI reikar stefnulítið um myrkvað húsið - hálfétin fransbrauðssamloka með majonesi í annari höndinni og mylsnaður sloppurinn hálfopinn.
BJARNI BEN
(V.O)
Hlutirnir sem ég hef þurft að gera. Þurft að segja. Flesta daga líður mér eins og ég þurfi að bursta tennurnar eftir það eitt að opna munninn.
Hann vaggar luralega fram hjá stórum, upplýstum olíumálverkum sem prýða veggina: Jón Þorláksson, Ólafur Thors, Jóhann Hafstein.
BJARNI BEN
(V.O)
Ég er Anastasia Steele í rauða herbergi þessa sadó-masókíska ríkisstjórnarsambands. Keflaður við andpólitískan hentistefnubedda með grænan minnihluta-munnkúlumúl uppi í mér. Finnst mér kannski gott að vera undirlægja?
BJARNI staðnæmist fyrir framan síðasta málverkið. Það er af Bjarna Benediktssyni Sr.
BJARNI BEN
(V.O)
Hvenær leið mér síðast eins og Christian Grey í eigin lífi?
Augun vökna lítið eitt og hann teygir aðra höndina fram til að snerta það.
BJARNI BEN
(hvíslandi)
Frændi...
INT. BAÐHERBERGI Í GARÐABÆNUM - NÓTT
Það suðar lágt í halogen peru. BJARNI stendur fyrir framan spegilinn. Hann virðir sjálfan sig fyrir sér: strýkur hönd yfir föla húðina, togar í dökkleita baugana, rennir fingrunum í gegn um gránandi vangana.
Sem hann starir á sjálfan sig breytist ásjóna spegilmyndarinnar fyrir augum hans. Föl húðin verður brún, baugarnir tæmast, gráu hárin víkja fyrir svörtum og meira að segja fílapenslarnir skreppa aftur inn í nefið. Í speglinum mættur 15 ÁRUM YNGRI BJARNI. Hann glottir til GAMLA BJARNA.
Yngri Bjarni
(flissandi)
Þú hefðir getað orðið Þorsteinn Pálsson.
BJARNI tryllist. Öskrar á eigin spegilmynd og slær með krepptum hnefa eins föstu höggi og 100kg í bekkpressu leyfa. Spegillinn SPLUNDRAST og brot fljúga þvert yfir herbergið. Tíminn stöðvast nærri. Majonessamlokan fellur til jarðar líkt og fjöður í fylgd með þúsund glerbrotum þar til hún SKELLUR á ítölsku marmaraflísunum. Blóðdropar falla þar á eftir - svo dökkir að í daufri birtunni virðast þær nánast bláir. Dropi SKELLUR á glerbroti. Í einu blóðmynstruðu spegilbrotinu sjáum við andlit BJARNA - eitt tár rennur niður dofinn vanga hans.
Á gólfinu er óreiða af gleri, blóði, tárum og majonesi. Suðið í halogenperunni er ærandi.
SVART