Ég vinn hjá fyrirtæki sem komst nýverið á þann ógnvekjandi stað í þroskaferli sínu að það ákvað að velja sér gildi. Fram að því hafði ég litið á fyrirtækjagildi sem hálfgerðan dauðakoss – merki um að stjórnendur væru búnir að sætta sig við orðinn hlut, fyrirtækið væri ekki lengur hipp og kúl og skemmtilegt heldur orðið einslags einkarekin stofnun sem lyti lögmálum og nýaldarbullsforskriftum upp úr Dale Carnegie-vasahandbókum um mannauðsmál. Ég var með peppmyndbandið sem Jón Jónsson gerði fyrir Landsbankann þrykkprentað á heilabörkinn á mér og mundi vel eftir gildunum á mínum síðasta vinnustað sem voru tekin álíka alvarlega og reglulegar yfirlýsingar forseta Íslands um fyrirhuguð starfslok. Eða reyndar mundi ég alls ekki vel eftir þeim – eina gildið af fjórum sem maraði í hálfu kafi í minningunni var gildið „Arðsemi“. Ég held að hin hafi verið svipað frískleg.
Það var þess vegna óvænt ánægja að fá allt í einu kynningu á gildum sem hljómuðu ekki bara rökrétt, heldur voru líka augljóslega afrakstur sameiginlegrar hugmyndavinnu allra starfsmanna, fönguðu hugarfarið á vinnustaðnum og lýstu því ágætlega hvernig var þegar unnið, frekar en útópískri sýn á það hvað starfsfólk ætti að hafa að leiðarljósi í vinnunni ef stjórnendur fengju nægu um það ráðið.
Ég var með peppmyndbandið sem Jón Jónsson gerði fyrir Landsbankann þrykkprentað á heilabörkinn á mér og mundi vel eftir gildunum á mínum síðasta vinnustað sem voru tekin álíka alvarlega og reglulegar yfirlýsingar forseta Íslands um fyrirhuguð starfslok.
Það er svo sem óþarfi að þreyta fólk meira með tali um þessi gildi, að öðru leyti en að nefna að í sérstöku uppáhaldi hjá mér er gildið „Wait for nothing“ (þetta er jú alþjóðlegt fyrirtæki, sjáið til), sem gæti beinþýðst sem „Bíðum einskis“. Þetta er ekki ákall um að ana að ákvörðunum, heldur hitt: yfirlýsing um að þegar eitthvað þarf að leysa þá er það einfaldlega gert, hratt og örugglega og án vífilengja – þegar upp kemur snjöll hugmynd þá er henni annað hvort hrint í framkvæmd eða umsvifalaust kannað hvort hún sé fýsileg. Og eftir þessu er reynt að vinna og það er til fyrirmyndar.
Afsakanir í stað aðgerða
Þessa hugarfars saknaði ég í síðustu viku þegar stór hluti þjóðarinnar grátbað ráðamenn um að fá að sýna samhug í verki og taka hér á móti skammlausum fjölda flóttamanna sem eru á vergangi í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess og eru að reyna að halda sér og sínum á floti, bókstaflega, í Miðjarðarhafinu. Íslendingar hafa meira að segja vakið heimsathygli fyrir viðbrögð sín sem enn eru hins vegar bara í orði, enda hefur okkur ekki verið boðið upp á tækifærið til að sýna þau á borði.
Íslendingar hafa meira að segja vakið heimsathygli fyrir viðbrögð sín sem enn eru hins vegar bara í orði, enda hefur okkur ekki verið boðið upp á tækifærið til að sýna þau á borði.
Í stað þess að bíða einskis þá var segin saga að forsætisráðherra færi að þusa um að við stæðum okkur nú ekkert svo illa í að taka við flóttamönnum ... svona miðað við höfðatölu að minnsta kosti, og að ef við hjálpuðum einum þá væri annar hjálparþurfi sem yrði kannski útundan, eins og allir gætu ekki sagt sér það sjálfir og það skipti ekki bara máli að hjálpa sem flestum og sem fyrst. Hann fór að ýja að því að við vildum nú kannski ekki ýta undir þá áhættuhegðun flóttafólks sem fælist í því að leita til misvafasamra manna um far yfir hafið, burt frá ógninni heima fyrir, eins og það sé á einhvern hátt ódyggð að rétta þeim örvæntingarfyllstu fyrstu hjálparhöndina – eins og að með því að sýna fólki að það sé von um betra líf annars staðar gætum verið að skapa enn meira ófremdarástand. Eins og það sé yfirleitt hægt.
Að sjá hlutina í eigin persónu
Eflaust gekk honum gott eitt til með þessum orðum, en á sama hátt og sigurvímaður formaður KSÍ hefði átt að bera vit til þess að dagdreyma ekki upphátt um nýjan „þjóðarleikvang“ vegna þess að við þyrftum „meiri stuðning við þessa frábæru drengi sem við eigum“ þá þarf forsætisráðherra að átta sig á að það er til staður og stund og heppilegt orðalag fyrir allar vangaveltur. Og þetta var staður til að segja: Auðvitað tökum við á móti þúsund flóttamönnum. Þó það nú væri, hér er allt til alls. Bíðum einskis. Finnum út úr þessu áður en og þegar þeir koma.
Og þetta var staður til að segja: Auðvitað tökum við á móti þúsund flóttamönnum.
Í staðinn skipaði hann nefnd. Ekki þverpólítíska nefnd, ekki nefnd með fagaðilum – nei, ráðherranefnd. Nefnd með fimm ráðherrum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Ekkert segir „Bíðum aðeins með þetta“ eins og að skipa ráðherranefnd. Ef Hannes Hólmsteinn og skoðanasystkin hans fá einhverju ráðið mun gildið „Arðsemi“ eflaust verða dregið á flot í þessari vinnu eins og drukknað sýrlenskt barn í flæðarmálinu á tyrkneskri strönd.
„Áhrifaríkar fréttamyndir vekja sterk viðbrögð hjá okkur en við megum ekki gleyma þeim sem ekki sjást á myndunum,“ sagði forsætisráðherra um myndirnar af þessum drukknuðu börnum. Sami forsætisráðherra hafði nokkrum dögum áður rofið þéttriðna dagskrá sína til að ferðast norður á Siglufjörð þar sem vatn hafði flætt inn í kjallara og frárennslismál farið úr skorðum. Ástandið var býsna slæmt og ráðherrann boðaði að brugðist yrði skjótt við. „Það er alltaf öðruvísi að sjá hlutina í eigin persónu eða heyra lýsingar eða sjá myndir,“ sagði forsætisráðherra og það er engin ástæða til að draga það í efa. Næst ætti hann að heimsækja sýrlenskar flóttamannabúðir.