Undanfarinn mánuð hef ég lifað hinum svonefnda bíllausa lífstíl. Bíllausi lífstíllinn er hugtak sem ríkt fólk fann upp, um þann gjörning að leggja bílnum sínum og hjóla/nota almenningssamgöngur í staðinn og gaspra svo um það á samfélagsmiðlum. Fólk af lægri stéttum þekkir þetta sem illa nauðsyn.
Tíu ára gamli ameríski jeppinn minn fékk hjartaáfall fyrir utan hjá dagmömmunni og það þurfti að senda eftir nýjum alternator alla leið í Ford verksmiðjurnar. Því hef ég verið eins og cross-over af Bjössa Bollu og Gísla Marteini á reiðhjólinu mínu og í strætó til skiptis.
„Þegar þú býrð í þjóðfélagi sem er að díla við svo rosalegan skort á leiðtogum, að bæjarstjóri sem hefur álíka mikinn persónuleika og sjarma og gína sem búið er að teipa útvarp við fær orðið daglega í fjölmiðlum"
Og þetta var alveg gaman. Vakna fyrr, aka með vagninn þvert yfir miðbæinn til dagmömmu, fá sér kaffibolla á leiðinni og hlusta á tónlist sem ég hef ekki gert síðan fyrir hrun. Þeysast um á reiðhjólinu og finna lærin þrútna af áreynslu. Strætisvagnakerfið hefur svo komið mér skemmtilega á óvart. Það svínvirkar. Hvort sem verið er að taka alla fjölskylduna í Ikea í kjötbollur og myndaramma, eða heimsækja ættinga í Hafnarfirði eða Mosfellsbæ, ekki málið.
Meira að segja þegar ég er að skemmta einhverstaðar í rassgati, þá hef ég tekið strætó frá Hlemmi upp í MK, skemmt og verið kominn aftur á skrifstofuna á innan við klukkutíma. Þetta var nokkuð ánægjuleg upplifun - þar til það fór að rigna og hvessa. Þá varð þetta helvíti.Það er nefnilega svo létt að tala um bíllausa lífstílinn þegar þú ert með einn bónaðan í bílskúrnum - svona ef það kynni að rigna. Í allri þessari umræðu um mengun, gatnakerfi og grænan lífstíl, gleymist hversu ótrúlega geggjað er að koma sér fyrir inn í bíl í ömurlegu veðri og sneiða í gegnum borgina eins og kasthnífur, með tónlist í botni og miðstöðina í blasti - og þurr og kát börn. Þetta er ósvikin upplifun, sem er fokking pjúrítanskt að neita manni um og það að láta eins og bílar sé ekki ein besta uppfinning ever er fílistínismi.
Að því sögðu er það alveg ljóst að þétta þarf byggð, auka valkosti í almenningssamgöngum, bæta við léttlestarkerfi eða sporvögnum, fjölga hjólastígum, bæta við stoppistöðvum, upphita fleiri strætóskýli, fækka bílastæðum og þrengja brautir. Því hugmyndin um að keyra bíl er töluvert fallegri en praktíkin.
Nú stend ég frammi fyrir þeirri staðreynd að gera við gamla bílinn minn - eða kaupa mér nýjan. Ég á eftir að heyra í bifvélavirkjanum - ef hann segir mér að allt sé ónýtt í þeim gamla þá er þetta ekki spurning.Ef of margir hlutir eru í hassi þá borgar sig ekki að gera við bílinn. Þetta má heimfæra á annað og nú spyr ég þig kæri lesandi:Þegar þú býrð í þjóðfélagi þar sem það þykir algjörlega sjálfsagt að gefa fólki sem er ekki fátækt eftir neinum mælikvarða 80 milljarða á meðan það finnst ekki króna fyrir nýjum landspítala. Þegar þú býrð í þjóðfélagi þar sem innanríkisráðherra er staðin að meiriháttar misnotkun á valdi sínu og verður bara vond og reið og önug þegar hún er beðin um að axla ábyrgð. Þegar þú býrð í þjóðfélagi þar sem ráðherra ákveður að flytja ríkisstofnun út á land afþví bara. Þegar þú býrð í þjóðfélagi þar sem skuldar meiri pening en það getur aflað á 100 árum, þegar þú býrð í þjóðfélagi sem stefnir í að verða krabbameinslæknalaust. Þegar þú býrð í þjóðfélagi sem er að díla við svo rosalegan skort á leiðtogum, að bæjarstjóri sem hefur álíka mikinn persónuleika og sjarma og gína sem búið er að teipa útvarp við fær orðið daglega í fjölmiðlum. Þegar þú býrð í þjóðfélagi sem vill ekki taka þátt í hjálparstarfi á alþjóðavísu. Þegar þú býrð í þjóðfélagi þar sem stjórnvöld eru fullkomlega ólæs á menningu og listir, þrátt fyrir að það sé um það bil það eina sem við getum stolt kallað okkar eigin sem þjóð. Þegar þú býrð í þjóðfélagi sem á ekki fyrir lífeyrisgreiðslum í framtíðinni. Og så videre.
Er þá ekki betra bara að henda því og selja það í parta frekar en að skilja geðheilsuna eftir í smurolíudúnki hjá bílvirkjanum.