Það gladdi tæknisinnaðan lögfræðing sem áhugamann um nýstárleg deilumál að sjá að fjallað hafði verið um merkingu like-sins í dómsal í seinustu viku. Verjandi hélt því fram að saksóknari hefði gert sig vanhæfan með því að læka færslu sem fjallaði um dómsmálið. Ég er eilítið hissa á því að þetta mál skuli ekki hafa vakið athygli fyrir utan landsteinana því mér vitanlega er þetta í fyrsta skiptið sem fjallað er um merkingu læksins í dómsmáli. Verjandinn hélt því sem sagt fram að lækið merkti að saksóknaranum hefði líkað við viðkomandi færslu og þar með tekið afstöðu til málsins fyrirfram.
Hver er vilji lækgjafans?
Án þess að taka afstöðu til málsins ætla ég að fullyrða það sem við sjálfskipuðu sérfræðingarnir í upplýsingatækni vitum að læk er ekki það sama og læk. Það kann vel að vera að Facebook hafi upprunalega ætlað að lækið merkti að líka við, en nú er búið að sleppa þessu orði út í kosmósinn og fólk hefur gefið þessu alls konar merkingu. Bara eins og gengur og gerist með tungumálið og hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta er alltaf að gerast. Merking orðsins „literally“, sem merkir upprunalega „bókstaflega“, var nýlega uppfærð í enskum orðabókum þannig að það merkir líka „eiginlega“ eða „nánast“, sem fer í bága við hina upprunalegu merkingu. Svona getur tungumálið þróast í kjánalegar áttir.
"Ég stofnaði annan Facebook-reikning sem ég kalla Konráð Jónsson Aukalæk. Aukalæk er kallaður til þegar ég tel að eitt læk dugi ekki til að lýsa tilfinningum mínum. Þetta hefur gagnast ágætlega.Ég reyni að vera spar á aukalækið svo það hljóti ekki sömu örlög og frumlækið."
Lækin mín eru af öllum tegundum. Þau eru einlæg, kaldhæðin eða gerð til að votta samúð, og oft eru þau gerð til að fagna umræðunni en ekki efni hennar. Ég hef reyndar glímt við það vandamál að ég læka alltof mikið. Það þarf eitthvað stórkostlegt að gerast til að ég læki ekki athugasemd sem ég fæ á færslu mína. Þetta helgast af leti því ég hef ekki nennt að draga mörkin á skynsamlegum stað. Þetta er alltof huglægt mat. Af sömu ástæðu á ég alltaf erfitt með að bjóða í partí. Það fer yfirleitt út í það að meta hverjir eru vinir mínir og hverjir ekki, og það finnst mér óþolandi. Betra er þegar ég á bara að bjóða vel skilgreindum hópi, eins og til dæmis bekknum mínum þegar ég er í skóla. Þetta leiðir til þess að fúleggin fylgja með, svo lengi sem þau eru ekki fullkomlega siðblind (ágætis viðmiðunarregla er að bjóða ekki þeim sem hafa furðuleg viðurnefni, og eru t.d. kenndir við stórar umferðaræðar á höfuðborgarsvæðinu).
Már Guðmundsson Aukapeningur
Þegar Már Guðmundsson ákvað að gefa út tíuþúsundkallinn til að bregðast við verðbólgunni brást ég við þessu gengisfalli á lækunum mínum með sambærilegum hætti. Ég stofnaði annan Facebook-reikning sem ég kalla Konráð Jónsson Aukalæk. Aukalæk er kallaður til þegar ég tel að eitt læk dugi ekki til að lýsa tilfinningum mínum. Þetta hefur gagnast ágætlega. Ég reyni að vera spar á aukalækið svo það hljóti ekki sömu örlög og frumlækið. Gæta þarf þó að því að þetta stígi mér ekki til höfuðs. Ég hef tekið eftir því að þeir sem eru svo heppnir að hljóta aukalæk eru mjög uppveðraðir yfir því. Þá verð ég guðskomplexaður og mér líður eins og ég hafi gert viðkomandi stórkostlegan greiða. Konráð aukalæketh, Konráð aukaunlæketh.
Aftur að nýstárlegum deilumálum. Stóra lækmálið er vitanlega ekki fyrsta dómsmálið sem snýst um núansa í netsamskiptum, og alveg örugglega ekki það seinasta. Ég hlakka t.a.m. til þess þegar það mun reyna á gildi seen-eiginleikans. Ætli hann virki á svipaðan hátt og ábyrgðarpóstur, þ.e. sem einhvers konar sönnun á því að móttakandi hafi fengið skilaboðin? Og væri hægt að túlka poke sem kynferðislega áreitni? Getur skráning fjölskyldutengsla á Facebook orðið til að valda vanhæfi í skilningi stjórnsýslulaga? Hvað ef héraðsdómari samþykkir að vera taggaður á ljósmynd, eða er kominn á level 600 í Candy Crush? Verður hann þá vanhæfur til að fjalla um mál þar sem framleiðandi Candy Crush kemur við sögu? Það eru spennandi tímar fram undan. Við tæknilögfræðingarnir verðum eins og krakkar í nammibúð.