Ég var einu sinni beðin um að hætta að afklæða mig við plötusnúðun, af eiganda Kofa Tómasar frænda. Ég troðfyllti staðinn alltaf sem var ekki erfitt því hann var pínulítill. Þar var lítið sem ekkert loftræstikerfi, ógeðslega heitt og stundum spilaði ég á brjóstahaldaranum. Strákaplötusnúðarnir fóru gjarnan úr að ofan, sem og karlar á dansgólfinu. Ég varð ekki vör við að gestum staðarins þætti þetta óþægilegt eða að allir tækju sérstaklega eftir þessu. Þetta snerist ekki um athyglissýki eða nokkurs konar baráttu. Mér var einfaldlega heitt. Mér fannst þetta ótrúlega ósanngjarnt en náði ekki að koma að því orðum þá af hverju mér þætti þetta ósanngjarnt. Ég er minna klædd í sundi en ég var þarna fyrir aftan plötusnúðakommóðuna. Stuttu síðar var óskað eftir að ég hætti, þetta var ein af tylliástæðunum sem mér voru gefnar en ég held að það hafi haft meira að segja að ég vildi fá meira borgað fyrir vaktina.
Þessi pistill mun endurspegla viðhorf mín gagnvart #freethenipple og þeirri gagnrýni sem hún hefur hlotið. Hann endurspeglar ekki viðhorf allra nipplukvenna.
Hey stelpur getið þið ekki fundið neitt mikilvægara til að berjast fyrir?
Þetta er ekki vitundarvakning allra kvenna á móti öllum körlunum. Kallaðu okkur konur. Baráttan snýst um það að hætta að kyngera kvenlíkamann. Við eigum að fá að vera kynþokkafullar eftir samhengi - ekki átómatískt. Siðapostulinn sem á ekki bol, Hlynur Kristinn Rúnarsson (ha hver? Allir búnir að gleyma nafninu?) skrifaði pistil á menn.is sem ætti að vera vefur sem höfðar meira til mín en hann gerir, því konur eru jú líka menn. Í pistlinum kemur fram það viðhorf að við stúlkurnar séum að eyðileggja fyrir honum einhverja feminine mystique og að hann geti ekki ímyndað sér brjóstin á okkur - heldur núna fái hann að vita það bara hvernig þau líta út. Til hamingju Hlynur, þú hefur nú tækifæri til að athuga hvort alvöru fólk og alvöru líkamar örva þig kynferðislega. Ertu búinn að sjá svo mörg brjóst að þú ert hættur að fá instant standpínu þegar þú sérð geirvörtur? Flott. Það er einhver sigur unninn í því. Nú ætla ég aðeins í manninn, ekki boltann: Það skemmtilegasta í pistlinum er ofmat Hlyns á áhrifum sínum og ítökum, hann metur það sem svo að við verðum öll kjamsandi á nafni hans næsta árið. Sorrí strákar, það getur bara einn verið andlit „umræðunnar“ í áramótaskaupinu og ætli það verði ekki Biggi lögga, einfaldlega því að það er svo auðvelt að setja mann í löggubúning og herma eftir vídjóunum hans. Þessir tveir menn ruddu svo brautina fyrir fleiri sem skýldu sér á bakvið almennt velsæmi.
Þetta var svo óskýrt hjá ykkur - engin að bera á sér geirvörturnar fyrir sama málsstað
Það fannst mér stórkostlegt. Baráttan var mismunandi eftir því sem leið á daginn. Þetta var samfélagsmiðlabylting af bestu sort. Fyrst ætlaði ég alls ekki að vera með, en kraftur fjöldans og mismunandi vinklar höfðuðu til mín - sömuleiðis sem hraði miðlanna gerði það að verkum að ýmiskonar misheimskulegar skoðanir, jafnvel frá óheimsku fólki, komu fram. Ég ákvað að setja mína mynd þegar ég kveikti á hefndarklámstengingunni, ekki „strákar mega þetta, við líka.“
En karlanir, þeir bara hugsa núna: Hey ég get þá rúnkað mér yfir þessu!
Já, fínt. Menn rúnka sér yfir alls konar. Það eru ekki brjóst í öllum rúnkfantasíum, og þeir menn sem ég hef átt samskipti við eru hugsandi menn með sjálfstæðan vilja sem geta hamið sig. Ég veit líka til þess að að minnsta kosti einn hafi rúnkað sér yfir mér án þess að hafa séð á mér brjóstin, hvað þá meira. Hvernig veit ég það? Jú, ég fékk tölvupóst um að maður væri að rúnka sér yfir röddinni minni þegar ég vann á Rás 2. Hann tiltók það að hann vissi ekki hvernig ég liti út, ég væri bara með svo klikkaða rödd. Ég myndi segja að mörkin liggi þarna við að opna tölvuna og senda póstinn. Hann mátti alveg rúnka sér yfir því sem honum sýndist, en hefði mátt sleppa því að setja mig inn í það. Ef einhverjir menn þarna úti vilja kippa í hann yfir þessum myndum, þá verði þeim furðudýrum að góðu. Ég vil þó frekar að þeir geri það með mynd sem ég setti sjálf á netið en mynd af einhverri stúlku sem hefur ekkert val um það hvort mynd af henni berbrjósta sé þar eða ekki. Eða er það kannski hluti af kikkinu?
Einhverjum konum finnst skegg kynþokkafull, en þær gera ekki þær kröfur að menn gangi með skeggskýlu svo þær ráðist ekki á þá og frói sér á lærunum á þeim í tíma og ótíma eins og smáhundar.
Það er enginn að banna fólki að finnast brjóst sexí, og við skulum gefa karlmönnum aðeins meira kredit en að þeir séu einhverjir gredduapar. Einhverjum konum finnst skegg kynþokkafull, en þær gera ekki þær kröfur að menn gangi með skeggskýlu svo þær ráðist ekki á þá og frói sér á lærunum á þeim í tíma og ótíma eins og smáhundar. Að segja konu að hylja sig því að einhverjir menn úti í bæ muni ekki getað hamið kynvirkni sína er af sama meiði og að hvetja þær til að hylja sig að öðru leyti. Blygðunarkennd fólks er vissulega mismunandi, en það er í alvörunni fáránlegt að ég þurfi að hylja á mér brjóstin því einhverjum öðrum finnst þau sexí, og sjaldan viðurkenna þeir sem nota þessi rök að einmitt þeim finnist það, þó það sé eðlileg hugsun. Bros eru kynþokkafull, en við hyljum þau ekki. Ég á ekki að skammast mín, skömmin á að skammast sín. Halldór Auðar Svansson orðaði þetta vel:
„Samhengi nektar skiptir öllu máli og fólk á að fá að hafa vald yfir því sjálft hvernig það notar og nálgast sína eigin nekt. Málflutningur sem snýst um að nekt kvenna sé sjálfkrafa til þess fallin að örva karla kynferðislega óháð samhengi byggist ekki á óviðráðanlegum líffræðilegum staðreyndum heldur á brengluðu samfélagslegu viðhorfi - því að það séu karlmennirnir sem stjórni forsendum nektar kvenna en ekki þær sjálfar.“
- Halldór Auðar Svansson
Mér finnst skemmtileg tilviljun að vitundarvakningin hafi átt sér stað í afmælisviku systur minnar, en hún var einmitt á brjósti til fimm og hálfs árs (ekki innsláttarvilla). Það finnst mér fallegt samhengi. Brjóst eru matur barnanna. Brjóst eru framtíðin.
Plebbalegt/bjánalegt/þið munuð sjá eftir þessu
Það er enginn að ætlast til þess að allar konur eigi að vera á dúllunum alltaf allan daginn, bara að sumar megi það þegar og ef þær langar. Að kalla það plebbalegt að vilja viðhorfsbreytingar er annaðhvort skrítilegur skilningur á orðinu eða mjög menntaður: Plebeiarnir voru ekki patrísearnir sem feðraveldið er kennt við.
Geirvörturnar eru ekki fyrir ykkur, heldur eru þær mínar, og ég flagga þeim þegar mér sýnist.
„Einn daginn muntu sjá eftir þessu“ eru léleg rök. Við vitum að internetið gleymir engu og margar konur lifa í einmitt stöðugum ótta við nákvæmlega það að einhver sem einu sinni var treyst gæti lekið nektarmyndum þangað. Vonin er sú að með því að setja sjálfar þessar myndir inn erum við að slá vopnin úr höndunum á þeim sem ætla sér að kúga konur með því að setja brjóstamyndir af þeim á netið. Jú, kannski dúkka þær upp á óæskilegum síðum. En við ákváðum það sjálfar að setja myndirnar í loftið. Ekki einhver annar. Vonandi hættir svo fólki að finnast merkilegt að setja nektarmyndir af öðrum á netið, sérstaklega í hefndarskyni. Mér finnst normalísering á nekt gott vopn í baráttunni við klámvæðinguna. Annars held ég að öryggi mínu sé betur borgið ef Biggi lögga leiðir mig yfir götur, já eða enn betra velur fötin mín svo ég sé ekki í nauðgilegum samsetningum.
Útvarp Saga spurði spurningar á heimasíðu sinni sem var svo hljóðandi: „Finnst þér að konur eigi að vera berar að ofan á almannafæri?“ Uh. Útvarp Saga misskilur svo æði margt. Hver verður næsta spurning? „Finnst þér í lagi að konur eigi að hylja sig frá toppi til táar?“ Ég ætla ekki að láta eins og druslupistill Steinunnar Ólínu á Kvennablaðinu skipti nokkru máli. Já, Útvarp Saga er með stærra innlegg í umræðuna en sá pistill. Úbb.
„HVA? AF HVERJU ERT ÞÚ EKKI BER AÐ OFAN?” sögðu þónokkuð margir frekar ókunnugir karlmenn við mig í vikunni, en ég vinn í herrafataverslun. Geirvörturnar eru ekki fyrir ykkur, heldur eru þær mínar, og ég flagga þeim þegar mér sýnist. Það taka ekki allar konur þátt í hreyfingunni, ég skil samt að þeir hafi búist við því að ég myndi gera það en það er ekki hægt að ætlast til þess. Og já, ég veit að þið „voruð bara að grínast ehehe.“ Þetta er ekki ykkar að ætlast til eða grín-ætlast til.
Þónokkuð mörg fórnarlömb hefndarkláms og nektarmyndadreifinga hafa stigið fram í vikunni og verið þakklát fyrir átakið. Facebooksíðan Leikmaður les Biblíuna birti tvo mismunandi kommentaþræði af vísi.is - annars vegar þar sem stúlka hafði stigið fram og sagt sína upplifun og hins vegar maður. Ég hvet fólk til að skoða þetta.
Vinkona mín er gagnfræðaskólakennari og spurði á facebook hvernig hún ætti að útskýra fyrir stelpunum þetta mál um það að vera ekki að senda nektarmyndir af sér til fólks, en á sama tíma væri allt í lagi að setja þær á netið, því strákarnir í skólanum væru að þrýsta á stelpurnar til að taka þátt. Bíðum nú aðeins við. Hér þarf að útskýra fyrir strákunum að kvenmannslíkaminn er ekki eingöngu gerður gagnkynhneigðum karlmönnum til kynnautnar. Þessi bylting er ekki þeirra. Samhengið um hrelliklám er einmitt hluti af þessu: Valdeflingin felst í því að ef stelpum er sama þó aðrir sjái á þeim geirvörturnar þá er ekki hægt að hrella þær með því að birta myndirnar. Stelpurnar eiga rétt á því að segja nei, og í þessu samhengi finnst mér þær eiga fullan rétt á því að segja strákunum að þeir séu fávitar.
Hvað næst? Allir menn út að neðan? #freewilly ehehehe?
Brjóst missa ekki stöðu sína sem kyntákn á einni viku. Brjóst eru þó ekki kynfæri á sama hátt og typpi og píkur. En ef einhverjir vilja setja typpamyndabyltingu af stað, þá bara endilega. Ég lofa ykkur því að við konurnar erum lítið að fara að skvörta yfir lyklaborðin yfir þeim. Vonandi gæti sú vitundarvakning þýtt sumir hætti að senda óumbeðnar typpamyndir og fái frekar kikk út úr því að pósta þeim opinberlega í allsherjar vitundarvakningu. Mér dettur í hug þrjár:
-
Til að sýna fram á að typpi eru alls konar;
-
Að vera með typpi þýðir ekki að ég sé karlskúnkur eða dónakarl;
-
Typpi er til að pissa með og elskast - ekki til að nauðga.
Það kom vel á vonda um daginn þegar ég lá uppi í rúmi með kærastabörnunum mínum og pabbi þeirra, kærastinn minn var að klæða sig í náttsamfesting. Hann fór eitthvað öfugt í hann svo hann var í honum eins og kjólfatajakka, en ber að öðru leyti. Þetta fannst mér óborganlega fyndið. Átta ára gamla kjarnakonan sneri sér að mér og rétti fram handlegginn. „Finnst þér þetta fyndið?” Ég skildi ekki hvað hún meinaði. Hún brýndi raustina og teygði handlegginn ennþá lengra fram: „Finnst þér þetta fyndið? Typpi er bara hluti af líkamanum, eins og hönd.” Feis. Vel gert vinkona. Líkaminn er bara líkami.
Það er enginn að ætlast til þess að allir séu allsberir alltaf. Mannslíkaminn er þó ekki neitt til að skammast sín fyrir eða hylja. Nekt er ekki alltaf kynferðisleg. Svo er ekki úr vegi að minna á að heilinn er stærsta kynfærið. Við sýnum hann samt ekki með því að fletta okkur höfuðleðrinu.
P.S. Ég er ekki svona pörkí. Ég er að hoppa á myndinni minni.