Ég geng inn Austurstrætið innan um glaðhlakkalegt fólk sem stikar sumt óþreyjufullt í spori inn í 10-11 til að kippa með sér sódavatnsflösku og snarli yfir á Austurvöll. Einhvern veginn býst ég allt eins við að það komi út með popp. Ég er með hendur í vösum og hneppt upp í háls, dreg axlirnar upp að eyrum og finn vöðvabólgu morgundagsins hreiðra um sig. Mér er samt ekki kalt ennþá þótt ég sé illa klæddur eins og venjulega, þetta er bara vetrarkækur og mér sýnist ég ekki vera einn um hann.
Allir þessir 6.000 sem gerðu „attending“ á Facebook? Kannski ekki alveg. Það er löngu orðið merkingarlaust að boða komur sínar.
Austurvöllur birtist mér í allri sinni dýrð. Það er nú einhver reytingur af fólki hérna. Allir þessir 6.000 sem gerðu „attending“ á Facebook? Kannski ekki alveg. Það er löngu orðið merkingarlaust að boða komur sínar. Á stöpulinn undir Jóni Sigurðssyni er búið að kríta „Lifi byltingin“ í fallegum pastellitum.
Á leið minni í gegnum trjábeð verð ég stressaður í nokkrar sekúndur. Hvað ef aðgangsharður fréttamaður mætir og þýfgar mig um það hverju ég er að mótmæla? „Ööö ... bara öllu ruglinu – ríkisstjórninni, “ sé ég fyrir mér að ég mundi ég tafsa eins og menntaskólakrakkarnir í netmyndböndunum sem þykjast ekki hafa hugmynd um hver er forsætisráðherra. Ég róast þegar ég man að þarna má mótmæla hverju sem hugurinn girnist – eða gremst, öllu heldur. Þetta er mótmælahlaðborð, heyrði ég talað um.
Hverjar eru líkurnar á að ég finni forelda mína hérna?
Fokk Icesave
Svavar Knútur er byrjaður að halda ræðu, örugglega um að við eigum að vera góð hvert við annað og að ráðamenn séu fífl – heyr, heyr – en ég heyri ekkert. Þetta hljómar eins og hann sé yfir á Ingólfstorgi með gjallarhorn en samt er hann þarna rétt hjá mér. Þau þurfa að redda sér betra hljóðkerfi næst. Næst – ég vona að það verði eitthvað næst.
„Fokk Icesave!“ gellur í trúbadornum og það er það fyrsta sem ég greini. Amen. Samstarfskona mín sem ég var í slagtogi með er búin að fá nægju sína og kveður.
„Fokk Icesave!“ gellur í trúbadornum og það er það fyrsta sem ég greini. Amen. Samstarfskona mín sem ég var í slagtogi með er búin að fá nægju sína og kveður.
Sisvona er ég orðinn einn í mannhafinu, öfugsnúið sem það kann að hljóma. Eða þetta er svo sem ekkert haf – það voru margfalt fleiri á Justin Timberlake í Kórnum – ég stend í meðalstórri manntjörn og virði fyrir mér fólkið í kringum mig (leita að þekktum andlitum – þetta heitir celebspotting í útlöndum). Mér líður dálítið eins og leynilöggu að útbúa mætingarlista og tikka í kommúnistabox.
Þarna er Þorvaldur Gylfason með hattinn sinn og í frakkanum – hinn drapplitaði Wyatt Earp. Hann er á svipinn eins og hann sé nýbúinn að brjóta í sér tönn en finnist samt gaman. Má finnast gaman að mótmæla? Af hverju er enginn reiður? Kannski eru þau sannfærðari á svipinn þarna fremst, þessi sem eru farin að tromma létt á víggirðinguna.
Spölkorn frá mér sé ég Gunnar Smára og Illuga Jökulsson. Ég heyri ekki í þeim en sé að þeir hlæja – eflaust að einhverju lærðu gríni. Sjálflærðu samt. Gunnar Smári er með bleikt skilti sem á stendur „Læknana heim“. Ég hélt að hann vildi að við færum öll út til læknanna? Það er líklega misskilningur. Ég er orðinn ringlaður. Og hvar eru allar frægu konurnar?
Rangur maður
Sumir í skaranum eru farnir að líta reglulega við, í átt að Kaffi París, hvísla sín á milli og benda. Eitthvað er á seyði. Ætli sé að færast fjör í leikinn? Ég gleymi hálsrígnum, vind upp á mig og sé að nokkrir eldhugar eru búnir að príla mannhæð upp í tré og sitja þar á hækjum sér. Þetta getur ekki verið þægilegt. Ég sný mér við aftur.
Mikið andskoti verður kalt þegar myrkvar svona snöggt.
Ætli löggunum sé kalt? Nú er enginn Geir Jón. Hann er að hlæja og telja upp í 73 prósent með Elliða Vignissyni. En hvað með neftóbakið, sem ég las í skýrslunni hans Geirs Jóns að hefði komið í veg fyrir að hér brytist út styrjöld fyrir sex árum. Ætli hann hafi arfleitt einhvern lærling að tóbakshorninu? Verður kominn nýr Geir Jón í næstu byltingu, sem gefur ólátabelgjum í nefið, sefar þá með kumpánlegheitum og skrifar svo skýrslu um allt anarkíið? Verður það Biggi lögga?
Ætli löggurnar séu með vopn í bílnum? Djók, auðvitað eru þær það ekki. Eða hvað? Maður kemst allt í einu ekki hjá því að hugsa um það.
Ætli löggurnar séu með vopn í bílnum? Djók, auðvitað eru þær það ekki. Eða hvað? Maður kemst allt í einu ekki hjá því að hugsa um það. Ég hefði viljað hugsa um flest annað.
Nú lyftast hendur frá síðum og klappa fyrir einhverju, en þetta er ekki hvellt og uppörvandi lófatak heldur kæft og þungt hanskaklapp. Ég vildi að ég hefði munað eftir hönskunum, en það heyrist þá að minnsta kosti meira í mér klappa. Lán í óláni. Svavar hefur kannski verið að klára sig af.
Ég veiti því athygli að það er enginn að reykja hérna þótt þetta sé árshátíð miðaldra bóhema. Skrýtið.
Það er einhver nýr kominn á sviðið en ég veit ekkert hver það er. Er ekki annars svið? Ég sé svo illa og heyri ekkert. Ég gæti alveg eins lagst hérna til svefns.
Uppgjafarframsóknarmaður tilkynnir mér að þetta sé Jónas Sigurðsson. Flott. Ég er til í að leggja mestallt mitt traust á byltingarleiðtoga sem færði okkur textann við Rangan mann. Í alvöru – það er makalaust afrek að semja órímaðan dægurlagatexta sem svo til öll þjóðin lærir utanbókar. Ég mundi íhuga að styðja hann sem forsætisráðherra. Og þarna tveimur metrum fyrir framan mig er Kristjana Stefánsdóttir, vinkona hans – ég vissi að það væru frægar konur hérna.
Jæja
Ég heyri enn sama og ekkert í Jónasi, bara óm af lagi sem ég þekki ekki.
En þarna byrjar hann að syngja um hamingjuna sem sé hér. Er það? Er hamingjan hér? Á mótmælum fyrir utan Alþingishúsið?
Ætli Karl Garðarsson sé inni? Ætli hamingjan sér þar? Ég sé hann hvergi í gluggunum, frekar en aðra, og jafnvel þótt hann væri þar stæði hann enn alveg jafnbláeygur frammi fyrir þeirri staðreynd að hann er með heilbrigðiskerfið í líknarmeðferð og er að skrúfa hér upp ójöfnuð sem jafnvel hægrisinnuðustu hagfræðingar eru búnir að átta sig á að er lífshættulegur. Og honum fyndist við alveg jafnmiklir kjánar og fyrr í dag.
Það er hlaupin í mig einhver Lára Ómarsdóttir. Mig langar að stökkva eftir eggjum og dreifa þeim til villtustu anarkistanna í tónlistarkennarasveitinni.
Það er hlaupin í mig einhver Lára Ómarsdóttir. Mig langar að stökkva eftir eggjum og dreifa þeim til villtustu anarkistanna í tónlistarkennarasveitinni. Þetta er eitthvað svo dannað, of margir að mótmæla með engu nema augunum, þar á meðal ég. Það eina sem vantar núna er að einhver stofni byltingarhóp og skíri hann „Jæja“.
Jæja. Ég er farinn að glata tilfinningu í lærunum.
Ég ráfa loksins af stað til að ganga í mig hita og rata beint í flasið á allri fjölskyldunni. Mamma og pabbi eru búin að vera svo dugleg að mæta á Austurvöll að steyta hnefa – mishátt svosem – að það hangir ábyggilega prófíll um þau með myndum teknum af drónum uppi á korktöflu hjá greiningardeild RLS: 55 ára grafískur hönnuður, andfélagsleg hegðun, hefur halað niður Klezmer-pönki af netinu (ólöglega), fylgjast með. 55 ára framhaldsskólakennari (sjitt) við Fjölbraut í Garðabæ (hjúkk), ekki með bílpróf (grunsamlegt). Ég sníki af þeim far og við kveðjum vandamenn með þeim orðum að við sjáumst á næsta útifundi.
Fram hjá okkur ryðjast bræðurnir Gunnar og Guðbjörn Guðbjörnssynir, þeir eru að flýta sér og það er fyrirferð í þeim. Ég man aldrei hvor er óperusöngvarinn og hvor er tollarinn sem er samt líka smá óperusöngvari. Og ég man heldur aldrei hvor er búinn að vera að reyna að stofna Sjálfstæðisflokkinn 2.0 frá því að ég fór að muna eftir mér. Sjálfsagt er hann genginn í Viðreisn núna eftir að aðrir tóku af honum ómakið. Ég ætla ekki að kjósa hann.
Ég kvarta undan höfuðverk í hundraðasta skipti frá þingsetningu, svo sem ekki við neinn.