Nánasta tenging mín við Baltasar Kormák er sú að einu sinni skírði ég kanínu í höfuðið á honum. Þetta var um jólin 1995 og ég var nýorðinn ellefu ára. Aðfangadagur hafði liðið eins og aðrir aðfangadagar á undan honum en um kvöldið sviptu foreldrar mínir hulunni – bókstaflega – af því sem gerði hann sérstaklega eftirminnilegan: steingrárri dvergkanínu sem hímdi á sagbeði í rimlabúri á stærð við koffort og starði stjörf í augun á nýjum húsbónda sínum, yfirspenntum og háværum krakka með minni ábyrgðartilfinningu en lögreglan í Vestmannaeyjum.
Kvöldið áður hafði kvikmyndin Agnes, með Baltasar Kormáki í aðalhlutverki, verið frumsýnd á Íslandi. Ég var í besta falli lauslega meðvitaður um það og vissi lítið ef nokkuð um hina myndina sem Baltasar hafði leikið í, erótísku moðsuðuna Veggfóður. Ég hafði hvoruga séð, enda hefði það verið korter í barnaverndarmál, og hef raunar ekki enn. En ég hafði greinilega heyrt á þennan unga leikara minnst og fundist nafnið reffilegt, vegna þess að þegar kom að því að velja karlkanínunni í búrinu nafn komu bara tvö til greina: Baltasar og Kormákur. Og Kormákur varð ofan á.
Okkur Kormáki varð vel til vina þótt hann væri óttalegt skaðræði og það mætti ekki hleypa honum út úr búrinu án þess að hann færi um gólfteppið í herberginu eins og íslensk sauðkind um gróið hálendi og skildi eftir strigabera bletti í öllum hornum á milli þess sem hann legði sig í lífshættu með því að naga sig alla leið inn að vír í straumtengdum rafmagnssnúrum.
Strax sumarið eftir uppgötvaðist að systir mín var með ofnæmi fyrir öllu sem hreyfðist og þess vegna gátu samvistir okkar Kormáks ekki orðið lengri; þótt hann hefði stálpast töluvert á þessu hálfa ári tókst mömmu að tala gæludýrabúðina inn á að taka við Kormáki aftur og þar var honum troðið fullvöxnum í búr með tilvonandi gæludýrum sem hann vildi lítið sælda saman við. Næst þegar fréttist af Kormáki hafði hann fótbrotið naggrís og drepið kanínuunga og verið færður á einhvers konar einangrunargang í dýrabúðinni fyrir lítil, óstýrilát nagdýr. Síðan hef ég ekkert meira fregnað af örlögum Kormáks, sem þýðir að hann er a.m.k. ekki á barmi heimsfrægðar eins og nafni hans Baltasar. Ólíkt höfumst við jú öll að.
Tár úr steinvegg
Þessi kynni mín og kanínuræksnisins kveiktu hvorki né slökktu áhuga minn á dýraríkinu. Hann var til staðar áður, þegar ég drakk í mig fróðleikinn úr Heimsmetabók dýranna um leið og ég lærði að lesa, og hann er það enn þegar ég eyði heilu andvökunóttunum í að plægja mig í gegnum Wikipediu-síður um laufhalaeðlur, hnubba og kliðerni og dreg allt samferðafólk mitt með mér í dýragarða hvar sem ég drep niður fæti í útlöndum. Dýr eru merkileg og þau eru eiginlega miklu merkilegri en við sem erum bara ein tegund á meðan þau eru milljónir.
Dýradálætið á sér líka þá dökku birtingarmynd að stundum þykir mér vænna um dýr en menn. Það er til dæmis mun auðveldara að kreista úr mér tár yfir kvikmynd með því að láta dýr kveljast í henni en menn (ég mæli með að Baltasar geri næst mynd um fílahjörð sem drepst úr hita í leiðangri á Kilimanjaro, hún þarf ekki að vera sannsöguleg).
Ég man eftir sjónvarpsmynd um gæluhjört sem ungur, sorgmæddur dreifbýlisdrengur tók undir verndarvæng sinn en þurfti á endanum að lóga þegar hjörturinn hafði trekk í trekk étið alla uppskeruna á bænum. Myndin var ömurleg en tárin smokruðu sér engu að síður út úr augnkrókunum eins og straumur af agnarsmáum selskópum í gegnum illa hlaðinn grjótvegg. Samúðin með svöngu sjálfsþurftarbændunum var hins vegar engin. Ég er maðurinn sem hélt með fuglunum í The Birds.
Raunveruleikinn er skepna
Sem dýravinur er ég hins vegar stundum neyddur til að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir sem opinbera hvað ég hef mótsagnakennd viðhorf til lífsins, eins og reyndar allir ef vandlega er að gáð.
Stundum er ég til dæmis minntur á að dýrum finnst ekki jafngaman og mér í dýragörðum, að dýragarðar hafa ekki pláss fyrir öll afkvæmin sem fæðast þar og að það er ekki hægt að sleppa þeim öllum út í náttúruna, að kjúklingurinn sem ég borða með bestu lyst var líka einu sinni dýr og leið líklega mjög illa á meðan, að dýrategundir deyja út á hverju ári, að brosandi menn saga hausa af ljónum og horn af lifandi nashyrningum sér til skemmtunar og/eða í gróðavon – og að sum dýr fótbrjóta naggrísi.
Sumt af þessu truflar mig minna en annað, hvort sem það er rökrétt eða ekki – þannig er ég bara og þannig erum við öll. Ég get horft í gegnum fingur mér með dýragarðana, ég mun líklega éta kjöt til dauðadags og aldrei missa svefn yfir aðbúnaði alifugla frekar en tilraunamúsa. Og þótt ég styðji ekki beint að naggrísir séu fótbrotnir þá áfellist ég ekki Kormák eða önnur ofbeldisdýr. Á móti kemur að ég væri fáanlegur til að gefa af mér annan handlegginn ef hann kæmi einhvers staðar að gagni við að uppræta veiðiþjófnað og sporna gegn því að dýrategundir hverfi af yfirborði jarðar (eða að minnsta kosti láta hluta af Domino's-sjóðnum mínum renna til þess). Ég hef ekkert absalút siðferði og nenni ekki að koma mér því upp, ég hef bara tilfinningar og þær stangast stundum á.
Kannski þýðir það að ég sé hræsnari. Ég er bara að reyna að koma til dýranna eins og ég er klæddur (sorrí með þennan).