Og á fjórða degi skuluð þið horfa til austurs og þegar fyrstu geislar fyrstu sólar sumars rista upp sjóndeildarhringinn mun hann standa með bakið í ljósið – og ef hann lítur niður og sér sinn eigin skugga mun það merkja sex vikur af dimmum vetri fyrir andstæðinga sannra íslenskra gilda (og íslensku sauðkindarinnar).
Ég gæti verið að blanda saman einhverjum goðsögnum hérna, en einhvern veginn svona hljómaði kokhraust loforð orðhvatasta stjórnmálamanns Íslands. Gleðilegan Guðna Ágústssonar-ákvörðunardag allir!
Ég kýs að líta ekki á þetta dramatíska dagsetningarval fyrrverandi landbúnaðarráðherra sem þá sturluðu sjálfsánægju sem hún virðist kannski í fyrstu, heldur sem ferskan andvara sem blæs í lúður nýrra tíma fyrir þau þrjú prósent höfuðborgarbúa sem fylkja liði á bak við Framsóknarflokkinn. Sá andvari virðist reyndar í þessu tilfelli vera súrnuð mjólkurlykt úr tímahylki frá því fyrir aldamót en við getum þá þakkað fyrir það að tímavélin náði ekki alla leiðina aftur til Finns Ingólfssonar eða Alfreðs Þorsteinssonar – sem ég held reyndar örugglega að sé búið að múra inn í eina af þessum 600 þúsund króna steinflísum utan á Orkuveituhúsinu eins og okkar eigin, aðeins ferkantaðri, útgáfu af Jimmy Hoffa.
Það verður reyndar fróðlegt að fylgjast með Guðna og Halldóri Halldórssyni keppast um hver sé mest úr takti við kjósendur með því að skiptast á að taka símasjálfsmellur af náfölum bjúrókrötum og planka ofan á öllum helstu kennileitum Reykjavíkurborgar. Þeir geta reyndar verið saman í liði við að mynda skjaldborg utan um þennan helvítis flugvöll sem Guðni er nú þegar byrjaður að mæra sem „besta og mikilvægasta“ flugvöll á Íslandi. Erum við í alvörunni ennþá að tala um flugvöllinn? Getum við ekki fengið Mývetningana sem sprengdu stífluna árið 1970 til þess að jafna Vatnsmýrina við jörðu – þótt það væri ekki nema bara til þess að við getum aftur farið að tuða yfir perum í ljósastaurum, hjólastígum, þeytivindum í sundlaugum og öðru sem skiptir raunverulega máli? Maður hefði haldið að þessi pólitíska hrútasýning væri of fáránleg til að fá einhvern raunverulegan hljómgrunn en allt í einu segja 30 prósent borgarbúa að Guðni gæti mögulega sjarmað frá þeim atkvæði í vor samkvæmt óformlegri könnun DV. Og við hin erum svo tryllt í Dag að við erum búin að gleyma því að hann var gríðarlega óeftirminnilegur borgarstjóri í korter einhvern tímann á síðasta áratug.
Sorrí, mér finnst þetta bara svo sturlaðslega fyndið. Ekki fyndið eins og Adam Sandler ca 1995 fyndið heldur fyndið eins og manískur hlátur sem hvellur upp úr manni þegar maður hefur ekkert annað tilfinningalegt viðbragð við aðstæðum. Þetta er hlátur sem varnarmekanismi – eins og þegar mig dreymdi síendurtekið sem barn að ég væri fastur í glugga- og hurðalausu, skærmáluðu barnaherbergi og mannhæðarhár, hvíteygður Andrés Önd væri að elta og reyna að kyrkja mig. Það eina sem ég gat gert til þess að vakna var að hlæja nógu mikið í draumnum; þannig afvopnaði ég Andsetna-Andrés.
Ég hef reyndar gert það að yfirlýstri stefnu að hlæja sem mest. Grínið er nefnilega svo máttugt – ekki bara sem hækja hinna tilfinningalega vanþroskuðu, heldur þvert á móti eina rökrétta tungumálið í fullkomlega vitfirrtum heimi. Ég er reglulega spurður hvort ég sé ekki að grína yfir mig, hvort ég sé ekki að hylma yfir eitthvað með því að vera að spauga svona mikið. Ég hef nefnilega aldrei verið einlægari, aldrei verið glaðari með heimssýn mína en akkúrat núna. Ef penninn en máttugri en sverðið þá er prumpublaðran máttugust af öllu. Grínarinn má nefnilega segja það hann vill, það sem enginn annar má segja; eins og flónið í verkum Shakespeare sem fíflaði aðalinn og stóð handan við smásálarleg voðaverk valdsjúkra leikenda og benti þeim á hversu kjánaleg vélbrögð þeirra raunverulega væru. Eins og Loki sem plataði alla veröldina upp á móti sjálfri sér – og reyndar kveikti í heiminum og sökkti honum svo í sjóinn; en allt er gott sem endar vel, ekki satt?
Eftir því sem nútíminn verður fáránlegri eykst gildi trúðsins bara. Hverjir eru spámenn síðustu áratuga? Lenny Bruce, Richard Pryor, Bill Hicks, George Carlin, Louis C.K., Jon Stewart, Pablo Francisco (DJÓK!). Meira að segja helvítið hann Russell Brand er mest sannfærandi byltingarsinni 21. aldarinnar. Predikanir þessara spaugara rista djúpt því þeir standa handan við smásmugulega pólitík. Einu hagsmunirnir sem þeir hafa að gæta eru að láta fólk hlæja og ekkert er fyndnara en spegillinn sem snúið er að okkur sjálfum. Á þessum síðustu og verstu tímum er þetta ekki einu sinni tívolí-grínspegill sem tattóveruðu bresku betrunarvinnuglæpamennirnir rukkuðu mann 1.500 kall til að horfa í niðri á höfn, heldur bara ómerkilegur IKEA-spegill sem við klofum yfir til að skoða rassgatið á okkur sjálfum. Það eina sem grínarinn þarf að gera er að þylja upp staðreyndir og við öskrum úr hysterískum hlátri því að við trúum varla að heimurinn geti verið svona fáránlegur; En fáránleikinn er að minnsta kosti bærilegur svona rétt á meðan við erum að hlæja að honum.
Í misráðinni bjartsýni reynum við stundum að setja varalit á grínsvínið, troða því í buxnadragt og krossfesta við opinbert embætti í von um að grínið breyti kerfinu áður en kerfið kæfir hláturinn.
Þetta reyndum við síðast fyrir fjórum árum og uppskárum óvart upp úr grínmóðunni einn allra besta borgarstjóra sem setið hefur. Hann hefur verið opinn, gegnsær, æðrulaus, erindreki kærleika og mannréttinda og líklega besta útflutningsvara okkar síðan Hallur Hallsson breytti Keikó í andfélagslegt, dekkjafróandi sæskrímsli um aldamótin síðustu. En núna er nafn hans hvergi að sjá því að þeirri sálarétandi bjúrókratísku martröð sem borgarstjórn er tókst næstum að kreista síðasta dropann af lífskrafti úr aumingja manninum áður en hann hafði vit á því að stíga til hliðar. Velkominn heim í grínið kæri Jón, þú varst of góður fyrir þetta embætti hvort eð er. Láttu Guðna, Halldóra og Daga þessa lands sjá um að frethanast hringinn í kringum hvern annan. Þú varst bara heppinn að sleppa lifandi því að eins og stóuspekingurinn Mike Tyson sagði eitt sinn um páskahátíðina: „Það sem þau vita ekki er að þegar frelsarinn snýr til baka munu þessir gráðugu kapitalísku menn bara drepa hann aftur.“ Amen.