Ameríkudýrið í mér fór í gleðiheljarstökk þegar því barst til eyrna að Costco væri að skoða að pæla í að athuga með það að koma til landsins. Undirrituð skemmtir sér jafn vel í erlendum stórmörkuðum og venjulegir ferðamenn á nýlistasöfnum og fá vinir og vandamenn frekar hot-sósur ýmiss konar í stað hefðbundinna minjagripa. Hvenær sem er ársins er ég alltaf með einhver prómill af Kool-Aid í blóðinu og ég bíð spennt eftir tækifæri þar sem ég get keypt grínstóru dósina af ostasnakkpuffinu í Kosti. Mér finnst rosalega gaman að fara í Gripið og greitt og ímynda mér að ég sé mjög lítil, og fjögurra lítra dós af niðursoðnum tómötum sé í eðlilegri stærð.
Eins langt og þetta grín nær þá koma skammtastærðirnar sér illa utan Instagramheims. Já, og allt hormónakjötið maður, ha, maður minn (hæ Bændablaðið). Þetta er ekki bara vesen í búðum sem gefa sig út fyrir stórar pakkningar, heldur er langoftast gert ráð fyrir að öll innkaup séu fyrir fjölskyldur. Skammtastærðirnar koma sér gríðarlega vel akkúrat „núna“ í lífi mínu á sirkusferðalagi þegar við besta vinkonan erum að elda ofan í þrjátíu sirkusúlfa (Hæhæhæ! Sirksuplögg! AllirísirkussjúklegagamanerumáAkureyrinúna), en í daglega lífinu er þetta erfitt. Hefðbundnar stærðir í búðum hér miðast við einhverja vísitölufjölskyldu sem er ekki til lengur.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_24/53[/embed]
Leiðinlegast í hversdagslífi dekurdrósar í vestrænu samfélagi:
-
Þurrka mér
-
Greiða samfaraflóka úr hári
-
Elda fyrir einn
Þetta er hræðilegt mál, miðað við að mér finnst fátt skemmtilegra en að elda og borða með góðu fólki. Ég hélt ég hefði himin höndum tekið þegar ég eignaðist besta meðleigjanda í heimi, en nei, þrátt fyrir að vera sammála um flest og með svipað háan hamingjustuðul borðar hún hvorki beikon né KFC og er sjúk í geitaost. Við erum báðar uppteknustu konur í heimi og erum á sitthvoru sólarhringsplaninu. Hún er morgunútvarpsdís og ég er í einhverjum endalausum bóhemaleik og því er erfitt að samþætta matmálstímana. Í þau fáu skipti sem ég ætla að vera hagsýn og kaupa í matinn fram í tímann fer það á versta veg. Sama hversu skynsöm ég er, frysti afganga, kaupi eins litlar stærðir og hægt er og þar fram eftir götunum þá hendi ég mun meira af mat en ég kæri mig um. Þegar foreldrar mínir hringja og bjóða mér í mat er fyrsta tilfinningin pirringur og hugsunin: „Djöfull, nú fer matarplanið til fjandans.“ Það er ekki eðlilegt þegar besta fólk í heimi býður manni í humar.
Ha? Meðleigjandi? Já, húsnæðismarkaðurinn er algjört rugl fyrir einstæðingana líka. Ekki bara leigumarkaðurinn. Einu sinni ætlaði ég í greiðslumat, en var ráðlagt að gera það ekki, það myndi valda einhvers konar Bridget Jonesískri tilvistarkreppu. Greiðslumatið myndi eyðileggja sjálfsmynd mína og framtíðarplön og planta hjá mér hugmyndum um að verða að ganga út hið snarasta og fara að gera eitthvað skynsamlegt (lesist: leiðinlegt). Einstæð kona sem hefur lifibrauð af karókí, sirkus, lausapennamennsku, danskennslu og stigavörslu, nei ég meina spurningaskrifum, myndi aldrei komast ógrátandi í gegnum slíkt. Orðin: „Ég læt þetta alltaf ganga upp… skoðaðu bara bankasöguna mína” eru víst til lítils. Ég er ekkert á mjög háum launum, samt mun betur sett en leikskólakennari, þó ég sé akkúrat núna að æfa mig í verktakaheimum, sem er ekki nógu stabíll að mati einhvers 9-5-fólks. Ég er víst einhvers konar annars flokks manneskja og ætti ekkert að vera að pæla í því að kaupa mér mannsæmandi þak yfir sæta og klára höfuðið mitt. Svo eru vinir í svipaðri stöðu, og með námslán á bakinu að auki, og það er hlegið að þeim alla leiðina í bankann. Og svo finnur maður skrýtna lykt af því sem er að gerast í Íbúðalánasjóði núna.
Mér sýnist að lausnin á þessu sé einhvers konar kommúnulíf annars vegar og samtök um matarinnkaup einstæðinga hins vegar, þar sem við splittum 500 gramma hakkpakkningum og salathausum í tvennt. Svo væri líka hægt að vera duglegri að bjóða í mat og vona að með því að senda slíkt út í kosmósið fái maður það margfalt til baka. Party on.