Íslenskt sumar minnir einna helst á árshátíðaratriðið í félagsheimilinu eftir kokteil, viskí og bjór. Langt og leiðinlegt leikrit sem við neyðumst öll til að taka þátt í. Stór og falskur kór jafnvel. Sem er að reyna að syngja mjög erfiða ballöðu. Og allir orga með. Jebb, framundan er eitt stórt tólf vikna falskt tímabil þar sem allir láta eins og þeir séu massa gíraðir og hressir og til í þetta.
Páskarnir voru bara upphitun. Maður er svona rétt búinn að jafna sig eftir: „Jæja, hvað á svo að gera um páskana, hehe?” þegar sumarið silast á svæðið eins og mygluð lifrarpylsa. Sumarið er eins og páskarnir margfaldaðir með tólf. Ójá, þú ert að fara að halda páska í tólf vikur. Gleðilega hátíð. Með tilheyrandi beiðnum um rapport fyrir og eftir hverja. einustu. helgi. Og svarið „ekkert” er ekki tekið gilt. Allir keppast við að gera sem mest. Og láta alla rækilega vita via Instagram, Snapchat og Facebook. Og þú nennir engu.
Byrjum á útiverunni. Þú þarft að hafa ofan af fyrir fjölskyldunni viku eftir viku eftir viku á meðan fyrirbæri eins og gott veður er jafn líkleg sjón og Robert Kardashian í fjölskylduboði. En ekki láta þig dreyma um að þú fáir þar með að hanga innandyra óáreittur felandi þig undir sæng eins og í lægðarmaraþoninu í vetur, eða eins og ég kalla hann: „Vetur lífs míns sem ég mun alltaf elska”. Kröfur um útilegur og samverustundir undir berum himni munu hvað sem allri hörmungs langtímaveðurspá líður skjóta upp kollinum í lok maí (á svipuðum tíma og boðskortin í brúðkaupin fara að hrúgast inn á forstofugólfið, en þau eru einmitt flest haldin í tjöldum með hitasveppi á þriggja metra fresti sem ég vil meina að séu jafn nauðsynlegir og valíum í flugferð).
Kröfur um útilegur og samverustundir undir berum himni munu hvað sem allri hörmungs langtímaveðurspá líður skjóta upp kollinum í lok maí
Og má bjóða einhverjum að ræða aðeins tifandi tímasprengjurnar sem sitja úti á svölunum? Stóru, skítugu, ryðguðu gasgrillin sem líta út fyrir að vera frá annarri plánetu? Þegar bláleiti þykki reykjarmökkurinn leggst yfir hverfið eins og eitruð slæða fer í gang ferli sem minnir helst á dominokubba á spítti. Allir verða að grilla eins og Nonni á númer níu og fólk fer að fíra upp í þessum kvikindum sem er álíka gáfulegt og að halda á mólótóvkokteil í annarri, með afsagaðan hárlakksbrúsa í hinni og logandi vindil í kjaftinum.
Kaffihúsin taka auðvitað líka þátt. Þar er boðið upp á setur utandyra ef það sést svo mikið sem sólarglæta. Og þá er húkt undir húsvegg í 15 metrum á sekúndu innan um borð og stóla sem velta um koll með tilheyrandi slysahættu.
Og talandi um slysahættu: Þú átt ekkert erindi í samfélagi manna nema að þú heimsækir alla vega eina eða tvær bæjarhátíðir sem heita nöfnum eins og „Kandíflosskósíheit” eða „Blindfullir dagar” eða „Tveir í fríi og sá þriðji á slysó”.
Og svo þegar sá dagur kemur að það er léttskýjað og hitinn nær að skríða upp fyrir tíu gráður (samt 20 metrar á sekúndu auðvitað) fara allir niður í Nauthólsvík og taka þátt í hópleikatriðinu: „Við eigum líka sólarströnd þó við búum á Íslandi”. Standa þar í góðum glæsingi í sandstormi að elta krakkana sem svamla um í sjónum og það eina sem kemst að í huganum er að biðja drottinn um að sögurnar um klóakið í sjónum á þessu svæði séu einmitt bara sögur. Þú brosir í gegnum frosin tár og heldur á ís með sandídýfu umkringdur samleikurum þínum sem allir eru léttklæddir og bláhvítir af kulda og vosbúð. Og ef þú nennir ekki á „ströndina” þá er stutt að fara út í garð þar sem litla uppblásna sundlaugin bíður spennt eftir heimilisfólki sem berháttar sig og hendir sér í „sund”. Og fjúkandi trampólínin? Hver getur gleymt þeim? Hví ekki bara binda fyrir augun og ráfa um bílaplanið í Kringlunni á Þorláksmessu?
Og svo þegar sá dagur kemur að það er léttskýjað og hitinn nær að skríða upp fyrir tíu gráður (samt 20 metrar á sekúndu auðvitað) fara allir niður í Nauthólsvík og taka þátt í hópleikatriðinu: „Við eigum líka sólarströnd þó við búum á Íslandi”.
Lífstíllinn fær auðvitað ekki frekar en annað að vera í friði á sumrin. Þú þarft skyndilega að geta þulið upp flóknar marineringar og kunna að þræða kjöt upp á allskyns spjót ef þú vilt eiga séns í umræðurnar á kaffistofunni. Propsin, sem virðast jafn nauðsynleg og göngustafir á Ægissíðunni, eru gulu sessurnar á garðhúsgögnin og blómapottarnir úti á svölunum en allt þetta djönk verður svo brúnt á innan við viku vegna öskufalls og/eða moldfoks og breytir engu nema vísareikningnum.
Og talandi um neyslu og bruðl og og props fyrir sumarleikritið: Hörföt í ljósgráu, laxableiku og bláu fylla fatabúðirnar. Af hverju ekki bara að selja stuttbuxur á Antartíku eða snjógalla í Andalúsíu? Og ekki er ástandið skárra í matvörubúðunum. Heiðarlegur matur víkur fyrir „grillpinnum” og „sumardrykkir” þvælast fyrir manni þegar leitað er að nýmjólkinni. Síðan er það fallbyssufóðrið eða „grillmaturinn” sem liggur slepjulega í bökkum og fyllir hillurnar þar sem slátrið og rækjusalötin fengu eitt sinn að breiða úr sér í góðum fíling.
Að lokum er hér ágætistillaga: Aflýsum bara þessu leikriti í ár. Hættum þessari sjálfsblekkingu. Það verður ekkert sumar. Lengjum bara vorið og haustið og látum þau mætast einhvers staðar um miðjan júlí. Borðum heiðarlegan mat, klæðum okkur eins og fólk en ekki flón og hættum að spæla okkur á einhverju sem kemur hvort sem er aldrei.
Já já, einhver varð að segja þetta. Ekki skjóta sendiboðann. Það geta ekki allir verið bara: „um að gera að njóta krakkar mínir”.
Gleðilegt sumar.