Fyrir ykkur sem hafið haldið til í helli síðustu vikurnar þá er MMR bólusetningin sprautan sem verndar börnin okkar gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt. Allt eru þetta stórhættulegir og kvalafullir sjúkdómar sem geta leitt til dauða. MMR sprautan er jafnan gefin við 18 mánaða aldur. En vegna fáfræði og vitleysisgangs hafa foreldrar í auknum mæli kosið að láta ekki bólusetja börnin sín við þessum sjúkdómum af ótta við einhverjar óljósar, ósannaðar aukaverkanir og einnig af ótta við einhverfu.
Allar rannsóknirnar segja sömu sögu
Allar, já allar, rannsóknir sem gerðar hafa verið á tengslum einhverfu og MMR bólusetningar hafa sýnt fram á að engin tengsl eru þar á milli. Nema ein rannsókn og í þeirri rannsókn var ekki bara komist að rangri niðurstöðu heldur voru niðurstöðurnar beinlínis og vísvitandi falsaðar.
Stutt súmmering: Andrew Wakefield heitir læknir sem árið 1998 birti rannsóknarniðurstöður sínar sem sýndu fram á tengsl einhverfu og MMR sprautunnar. Eftir að hann birti niðurstöður sínar reyndu fjölmargir læknar og vísindamenn að sanna hið sama en engum tókst það því niðurstöður hans voru ekki bara rangar heldur falsaðar. Falsaðar krakkar. Nokkru síðar, eða árið 2004, kom í ljós að Wakefield hafði sjálfur fjárhagslega hagsmuni af því að sýna fram á tengslin. Rannsókn Wakefield var dæmd dauð og ómerk og í kjölfarið var hann sviptur lækningaleyfi.
Með öðrum orðum: Þessi kenning er hin mesta þvæla, rugl og svik og prettir ehf. Hún hélt ekki og hefur ALDREI haldið vatni. Ekki einum dropa. Það eru engin tengsl. Engin. Svo þú getur troðið þessu Wakefield.
En skaðinn var því miður skeður. Þessi falsaða rannsókn Wakefield nægði til að sá fræjum efa í huga fjölmargra foreldra. Eftir að niðurstöður hans voru birtar var mælanlegur munur á tíðni bólusetninga í Bretlandi og Bandaríkjunum. Það er að segja: Færri bólusetja börnin sín í þessum löndum vegna óttans við þessi meintu tengsl. Mislingar og rauðir hundar fóru að greinast og fjölda dauðsfalla af völdum þessara sjúkdóma má rekja til rannsóknar Wakefield með beinum hætti.
Erfitt að sætta sig
Ég er móðir barns með einhverfu og það eru margir þættir í umræðunni um bólusetningar barna og einhverfu sem ég á erfitt með að skilja og áranum erfiðara með að sætta mig við.
Eitt er það að til sé fólk sem óttast einhverfu svo hrikalega mikið að það er tilbúið að eltast við kenningu sem er löngu hrakin sem hin argasta þvæla og var dæmd ómerk og læknirinn sem framkvæmdi hana fékk ekki lengur að vera læknir. Í þeirra huga er svo slæmt að barnið þeirra gæti hugsanlega greinst með einhverfu að öll skynsemi og rökhugsun fær að fjúka út í hafsauga. Frekar trúa þau löngu hröktum lygum. Frekar vilja þau taka sénsinn á því að barnið þeirra fái sjúkdóma sem getur valdið því óbærilegum kvölum og jafnvel dauða. Frekar vilja þau að barnið þeirra geti hugsanlega smitað önnur börn sem veik eru fyrir af þessum sömu sjúkdómum.
Eitt orð kemur upp í hugann þegar ég hugsa um þennan tiltekna hóp og það er ekki fáfræði, staðreyndablinda eða vitleysisgangur sem eiga að sjálfsögðu líka við. Nei, orðið sem stendur upp úr er eigingirni. Það sem fólkið, sem kýs að bólusetja ekki börnin sín, virðist ekki vilja sjá er að þetta val þeirra snýst ekki bara um þeirra eigin óbólusettu börn. Þetta snýst um öll börn undir 18 mánaða aldri sem eru of ung til að fá sprautuna. Þetta snýst um börn sem eru veik fyrir og af ýmiskonar heilsufarsástæðum mega ekki fá sprautuna. Litla systkini leikskólafélagans sem er ekki ennþá bólusett vegna aldurs og kemur með að sækja stóra bróður. Stelpan sem er í krabbameinsmeðferð og má því ekki bólusetja og fer með foreldrum sínum í Kringluna. Allt þetta af fullkomlega ástæðulausum ótta við einhverfu.
MMR sprautan?
Og talandi um einhverfuna góðu. Til eru foreldrar einhverfra barna sem, þvert á allar staðreyndir og rök, kjósa að trúa því að einhverfan sé tilkomin vegna MMR sprautunnar. Þar af leiðandi fer öll orka þeirra í að berjast gegn bólusetningum annarra barna. Svo að fleiri börn verði ekki eins og þeirra börn. Eða þannig skil ég þankaganginn.
Væri ekki nær að gera eitthvað annað við tíma sinn og orku. Eins og til dæmis að vinna saman í því að gera samfélagið móttækilegra fyrir fólki með einhverfu? Mér dettur í hug hlutir eins og að styrkja fólk með einhverfu til frekari atvinnuþátttöku. Einhverfir búa yfir alveg einstökum hæfileikum, styrkleikum og sköpunargáfu sem er mikill fjársjóður fyrir samfélagið í heild og þar með okkur öll.
Taka manneskjunni eins og hún er
Síðan er ágætis pæling að fagna fjölbreytileikanum bara hressilega og taka manneskjunni eins og hún er. Við fæðumst ekki öll eins en við búum hérna öll saman. Samfélagið okkar á að vera í stakk búið að taka við öllum eins og þeir eru. Hvort sem fólk er greint með einhverfu, aðrar fatlanir, sérþarfir, er í Framsóknarflokknum eða situr á Alþingi.
Mig langar að lokum til að biðja ykkur, sem haldið í alvörunni að þið séuð að skaða börnin ykkar með MMR sprautunni, að leggja frá ykkur fordóma- og fáfræðibjargið sem þið burðist með á bakinu alla ykkar daga og opna augun, hugann og hjartað. Þið búið í samfélagi manna og með ykkar ákvörðun hafið þið áhrif á ekki bara heilsu og velferð ykkar eigin barna heldur allra annarra barna.