Ímyndum okkur að ég ákvæði eitthvert föstudagseftirmiðdegið að mér leiddist í vinnunni. Ímyndum okkur að ég fengi þá flugu í höfuðið að það væri eftirsóknarverðara að flytja fíkniefni til landsins og mokgræða á þeim – hratt. Ímyndum okkur að ég hugsaði sem svo að líklega væri ábatasamast að einbeita sér að því að koma upp almennilegum markaði með heróín á Íslandi. Ímyndum okkur að ég næði að koma höndum yfir mjög mikið af tandurhreinu heróíni frá Helmand-héraði í Afganistan, eftir viðkomu í vinnslustöð í Tyrklandi. Hversu mikið? Segjum ... 300 kíló. Ímyndum okkur það.
Ímyndum okkur líka að ég yrði gripinn af lögreglu þegar ég legði bátnum sem ég hefði keypt til smyglsins að bryggju á Raufarhöfn. Ímyndum okkur að við húsleit heima hjá mér fyndist tonn af íblöndunarefnum og bréfabindi í röðum sem hefðu að geyma ýtarlega uppdrætti mína að því hvernig dreifingarfyrirkomulaginu yrði háttað, viðskiptaáætlanir og margvíslegar sannanir fyrir því að mér hefði tekist að fjármagna kaupin sjálfur.
Ímyndum okkur svo að ég mundi ekki gangast við neinu í yfirheyrslum hjá lögreglu, segjast bara hafa verið í skemmtisiglingu, kokka upp þvælda lygasögu um það hvernig allt heróínið hefði getað ratað í bátinn minn án minnar vitneskju, harðneita að segja til vitorðsmanna og gera allt til að torvelda rannsókn málsins.
Ég sé ekki fyrir mér að ég sé að fara að gera neitt af þessu í bráð, en ímyndum okkur það samt.
Fyrir þetta gæti ég átt von á tólf ára fangelsisdómi – hámarksrefsingu fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Ég gæti líklega ekki kvartað mikið yfir því.
Það er ári þyngri dómur en hin hollenska Mirjam Foekje van Twuijver fékk fyrir rúmri viku fyrir að flytja til landsins í ferðatöskum frá Amsterdam tíu kíló af MDMA-dufti, níu kíló af amfetamíni og tæp 200 grömm af kókaíni fyrir annað fólk sem ekki tókst að handsama. Ellefu ára fangelsisdómurinn yfir henni er sá þyngsti í Íslandssögunni fyrir fíkniefnabrot, til að setja hann í samhengi eru þyngstu dómar sem fallið hafa á Íslandi fyrir kynferðisbrot tveir tíu ára dómar, báðir frá því í fyrra.
Skrýtið
Dómurinn yfir Miriam hefur vakið athygli og umtal og það er gott, enda er hann skrýtinn.
Hann er ekki bara skrýtinn í þeirri merkingu að refsistefna í fíkniefnamálum sé almennt vond og til trafala í samfélagi manna – það er mikilvæg umræða sem hefði gott af því að hún færi í meira mæli fram á forsendum einhverra annarra en 420-týpanna sem geta ekki ákveðið sig hvort fíkniefni séu svo til skaðlaus eða hvort fíkniefnaneytendur séu sjúklingar og sjá það í hillingum að geta reykt sig skakkar afskiptalausar á Austurvelli daginn út og inn, eins og er reyndar meira og minna hægt nú þegar.
Nei, hann er líka skrýtinn vegna þess að hann er ekki í nægu samræmi við aðra dóma í stórum fíkniefnamálum.
Það er nóg að taka dæmi af skútumálinu hinu síðara frá 2009, þar sem menn hlutu mest tíu ára dóma fyrir að flytja inn 55 kíló af amfetamíni, 54 kíló af kannabisefnum og tæplega tíuþúsund e-töflur. Smyglið var augljóslega þaulskipulagt, þeir sem þyngsta dóma hlutu neituðu sök, lugu sig hása í hlægilegum sögustundum í vitnisburði sínum í dómsal og gerðu ekkert til að hjálpa til við að upplýsa málið. Samt hlutu þeir vægari dóma en Mirjam Foekje van Twuijver, sem flutti inn minna magn af fíkniefnum, játaði sök að hluta, var samstarfsfús og gerðist meira að segja tálbeita fyrir lögreglu. Hvernig það réttlætir þyngri dóm en yfir skútusmyglurunum er óskiljanlegt.
Fyrir hverja?
Ég er viss um að flestir eru búnir að gleyma því, en nú eru tæp tvö ár síðan Héraðsdómur Reykjaness dæmdi rétt rúmlega tvítuga spænska konu til árs fangelsisvistar fyrir að flytja til landsins 420 grömm af kókaíni, þrátt fyrir að dómarinn mæti trúverðugan framburð hennar um að hún hefði verið neydd til fararinnar af tveimur mönnum, sem hefðu „hótað henni að gera móður hennar og systur mein, færi hún ekki eftir kröfum þeirra“, heimtað að hún kæmi pakkningum með fíkniefnum fyrir í leggöngum sínum, en þegar henni hafi mistekist það hafi þeir „tekið hana með valdi, annar sest klofvega ofan á hana og hinn troðið tveimur pakkningum inn í leggöngin“. Við komuna til Íslands þurfti að svæfa hana og gera á henni aðgerð til að ná annarri pakkningunni út.
Í stað þess að koma konu til aðstoðar sem sætti hótunum og hafði verið beitt hrottalegu kynferðisofbeldi þá ákærðum við hana og dæmdum í fangelsi. Það er líklega bara tilviljun að þar var sami dómari að verki og dæmdi Mirjam Foekje van Twuijver til þyngstu fangelsisrefsingar fyrir fíkniefnalagabrot í Íslandssögunni, en Hæstiréttur hefur reyndar enn tækifæri til að milda þá refsingu og mun vafalítið gera það. Dómi spænsku konunnar var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Hverjum hjálpa dómar á borð við þessa? Letja þeir skipuleggjendur smyglsins til að endurtaka leikinn? Af hverju ættu þeir að gera það? Þeirra harmur er fullkomnaður þegar sendingin er stöðvuð – þeim er alveg sama um örlög burðardýranna sinna. Þetta gæti vissulega gert þeim erfiðara fyrir að finna ný, en það þýðir líklega ekki annað en það að þeir þurfi næst að finna sér enn örvæntingarfyllri og auðsannfærðari umkomuleysingja sem eru reiðubúnir að leggja líf sitt undir í veðmáli annarra. Það er algjört kjaftæði.