Með eins mánaðar millibili vorið 1998 komu út tvær merkar kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að fjalla um veislur sem afhjúpa skítlegt eðli mannfólksins. Annars vegar franska myndin Fífl í hófi (Le Dîner de Cons), um vini sem keppa sín á milli um það hver geti fundið hlægilegasta flónið til að bjóða með sér til kvöldverðarboðs og skemmta sér svo á kostnað einfeldninganna. Hins vegar var það danska myndin Veislan (Festen) eftir Thomas Winterberg, þar sem skyggnst er inn í veglegt sextugsafmæli sem leysist óvænt upp í einn allsherjar fjölskylduharmleik.
Miðað við fréttaflutning liðinnar helgar ímynda ég mér að stemningin í þingveislunni á Hótel Sögu á föstudagskvöld hafi verið sirka eins og í samevrópskum hrærigraut af þessum tveimur veislum. Ég er ekki búinn að raða í hlutverk en það má svo sem líka gera það með slembivali.
Veislan sem öll fyrrnefnda kvikmyndin snýst um er reyndar aldrei haldin – en það sama má svo sem segja um þingmannapartíið á föstudag; það var eiginlega aldrei haldið. Stjórnarandstaðan gekk eins langt í róttækni og hugarflug hennar leyfði og hópskrópaði og þeir fáu stjórnarliðar sem þó létu sjá sig hefðu líklega getað troðið sér saman í heita pottinn heima hjá Bjarna Benediktssyni í eftirpartíinu ... ef hann hefði bara mætt. Sem hann gerði ekki.
Stjórnarandstaðan gekk eins langt í róttækni og hugarflug hennar leyfði og hópskrópaði og þeir fáu stjórnarliðar sem þó létu sjá sig hefðu líklega getað troðið sér saman í heita pottinn heima hjá Bjarna Benediktssyni í eftirpartíinu … ef hann hefði bara mætt.
Nei, auk þingmannanna voru þarna einn, heill ráðherra af tíu, nokkrir makar, pípuhatturinn hans Vilhjálms Bjarnasonar (ókei, Vilhjálmur raðaði sér kannski sjálfur í hlutverk) og skemmtiatriði í boði forseta Íslands sem, ef marka má fréttir, brá sér í hlutverk fulla frændans í veislunni og kvaddi sér hljóðs til að halda allt of langa og óþægilega ræðu þar sem hann sagði fólki til syndanna og fór með lélega brandara á víxl og eitraði andrúmsloftið svipað mikið og ef hann hefði prumpað duglega í lyftunni sem hann festist í með handhöfum forsetavalds á Biskupsstofu fyrir átján árum. Þessi hæðnislegi reiðilestrarstíll er partítrikk sem hann hefur lært af öðrum kulnuðum íslenskum karlpólitíkusum sem ættu að vera löngu farnir að sofa og beita honum gjarnan með góðum árangri, að þeim sjálfum finnst.
Einars þáttur Stuðfinnssonar
Ég finn til með Einari K. Guðfinnssyni. Hann er flottur. Hann ætlaði bara að halda almennilegt partí, létta aðeins móralinn – var líklega með nokkrar smellnar ferskeytlur í rassvasanum sem hann hafði verið að berja saman í forsetastólnum í allan vetur – og þá þurfti þessi skrattans ríkisstjórn að fokka því upp fyrir honum með einhverju óskiljanlegu og merkingarlausu bréfi sem honum finnst augljóslega galið þótt hann þori ekki að orða það þannig af því að hann er svo vandur að virðingu sinni.
Helvítis ríkisstjórnin sem hann fékk fyrst ekki að vera hluti af og hafnaði síðan sæti í af því að honum var farið að finnast svo gaman að vera forseti. Alltaf þurfa allir að eyðileggja allt! Hann gæti snúið þennan Gunnar Braga úr hálsliðnum eins og hvern annan lunda – en hann ætlar ekki að gera það vegna þess að hann er þingforseti og vandur að virðingu sinni.
Hann langar minna en ekki neitt í Evrópusambandið en nú er honum skapi næst að teika bara Ragnheiði Ríkharðsdóttur í málflutningi til þess eins að sýna þessum ístöðulausa Stjörnustrák úr Garðabænum hvað gerist ef hann kemur þingforsetanum í svona klandur, en svoleiðis gera ekki menn sem eru vandir að virðingu sinni.
Glötuð sjálfsvirðing
Talandi um virðingu þingsins – og virðingu fyrir íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu yfirleitt. Hún er lítil. Það sýna mælingar.
Í vikunni náðum við svo þeim áfanga með Matorkumálinu í Grindavík að Jóni Gunnarssyni blöskruðu hagsmunatengsl
Í veislu ætlaðri þingmönnum þjóðarinnar gerir forseti Íslands lítið úr þeim – talar til þeirra eins og óvita og hæðist að þeim – og bætir um betur með því að gera lítið úr fyrirbærinu þingsályktun, eins og það sé bara hvert annað tildur og húmbúkk, ekkert hafi gildi nema það heiti lög og hann geti synjað því staðfestingar.
Við erum komin á þann stað að orðvarasti stjórnmálamaður síðari tíma, Þorsteinn Pálsson, segir engu líkara en að utanríkismálum þjóðarinnar hafi verið útvistað til leikskólabarna (fyrirsjáanlegustu viðbrögð vikunnar voru að leikskólakennarar skyldu móðgast við þetta).
Í vikunni náðum við svo þeim áfanga með Matorkumálinu í Grindavík að Jóni Gunnarssyni blöskruðu hagsmunatengsl – manninum sem framan af þingmannsferlinum hafði fyrst og fremst áhuga á að tala um og liðka fyrir hvalveiðum, enda sonur hans formaður félags hrefnuveiðimanna.
Og í Kastljósi í gær sagði utanríkisráðherra loksins berum orðum af hverju ríkisstjórnin ákvað að reyna að slíta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið endanlega með einu litlu bréfi í stað þess að leggja fram þingsályktunartillögu um viðræðuslit í annað sinn:
„Hver er munurinn á því að fara með málið inn í þingið, þar sem það er þaulrætt, vitandi það til dæmis að málið yrði tekið í gíslingu, eða þá að klára það með þessum hætti, sem er heimilt [...]?“
Þá vitum við það sem við vissum svo sem fyrir: þetta var gert af ótta við að Alþingi tæki málið annars „í gíslingu“. Ríkisstjórn Íslands kýs að fara hjáleiðir sem hún veit ekki einu sinni hvort eru færar til þess eins að losna við þingumræður vegna þess að ríkisstjórnin treystir ekki Alþingi. Það er nú aldeilis vænlegt til að auka virðingu þingsins og íslenskra stjórnmála.
Svo spyr þetta sama fólk sig af hverju hluti þjóðarinnar vill flýja á náðir Evrópusambandsins – útvista því sem útvistað verður sem lengst í burt – burt frá þeim, burt úr þessu súra partíi þar sem allir eru berir að neðan og búnir að glata sjálfsvirðingunni.