Hvernig væri að fara aðeins yfir nokkra fjarskylda ættingja, ættingja ættingja og venslafólk vina sem vert er að forðast í fermingarveislum? Þessar uppákomur dreifast nefnilega yfir margra vikna tímabil, annað en jólaboðin sem þjappast á nokkra krefjandi daga og svo eru þau bara búin. Fermingarnar breiða aftur á móti úr sér eins og mauraherdeild í lautarferð, taka á eins og plástur sem rifinn er löturhægt af loðnum handlegg og eru óútreiknanlegar, áranum hættulegri en rússnesk rúlletta, því þú veist aldrei hvern þú gætir hitt. Við getum litið á þetta sem einskonar vígvöll...með páskaskrauti.
Ég er ekki karlremba, en...
Byrjum á klassísku karlrembunni. Þið vitið hvaða vitleysing ég er að tala um krakkar. Gaurinn sem tekur það fram að hann sé algjörlega „fyrir jafnrétti kynjanna” á meðan hann horfir í kringum sig, hlær taugaveiklunarhlátri og slengir tómum kaffibolla í átt að næstu konu. Þetta er sami maðurinn og kemur með hina sígildu og mjög svo bælandi athugasemd um að kona eigi ekki að vera svona „viðkvæm” og þurfi að „róa sig” ef hún dirfist hækka róminn þegar hún tekur þátt í umræðum um eitthvað annað en veitingarnar á hlaðborðinu. Þetta er hressi frændinn sem finnur sig knúinn til að segjast að fyrrabragði ekkert vera á móti konum enda hafi hann unnið með konu og það truflaði hann bara ekkert að hún væri kona. Það mikið. Þannig. Enda sé hann mjög mikið „fyrir jafnrétti kynjanna”.
Þetta er sami maður og segir við frænku sína sem nýlega hlaut styrk eða starf í einum af hinum alræmdu karlageirum: „Það hlýtur að hafa hjálpað þér að vera kona, er það ekki?” Með massa tortryggnum og öfundsjúkum tóni. Ég gæti haldið áfram í sjö klukkutíma en því miður þá höfum við ekki tíma til að nema rétt svo skrapa yfirborðið hérna svo við skulum halda áfram.
Ég er svo kaldhæðinn
Eins og við vitum þá er fátt ókaldhæðnara en að segjast einmitt vera kaldhæðin. Fólk sem segir svoleiðis myndi ekki vita hvað kaldhæðni væri þó hún stykki upp úr klósettinu og gleypti það.
Þetta fólk stendur upp til hópa tómt til augnanna og misskilur Hafnarfjarðarbrandara hjá fjögurra ára systursyni fermingarbarnsins sem flytur skemmtiatriði í veislunni. Svo kemur þetta síðan sjálft kannski með einhvern djöfladólg um útlendinga og/eða fatlaða, einhvern urrandi rakinn dónaskap sem skilur alla ættina eftir í losti, með hökuna niður á bringu í ærandi þögn þannig að það eina sem heyrist er snarkið í ostinum á heita aspasbrauðréttinum. Og þá heyrist: „Hvað? Ég er bara svona kaldhæðinn, hehe”. Nei, þú ert ekki kaldhæðinn. Þú ert dóni.
Ég er ekki lygari, ég lofa
Þegar staðið er í biðröðinni á klósettið er ekki er annað hægt en að hafa gaman af þessum sem segist vera heiðarlegur. Úr hæfilegri fjarlægð samt. Og líttu ekki af veskinu þínu á meðan í röðinni. Þetta er sá sem tekur það fram af fyrra bragði að hann hafi sko aldrei svindlað á nokkurri manneskju og eyðir síðan næstu klukkustund af lífi þínu í að rifja upp þegar hann snéri við eftir Bónusferð á Þorláksmessu því hann sá á strimlinum þegar heim var komið að hann var ekki rukkaður um áttunda pokann. Því hann er svo HEIÐARLEGUR.
Ef tími gefst til segist hann bara ekki getað hlustað á fréttir í dag því það sé svo mikið ógeð í gangi í samfélaginu og þetta hafi allt snarversnað eftir hrun. Heilinn bara mengist við að hlusta á skítlega eðlið sem veður uppi í pólitíkinni og víðar. Engum kemur á óvart þegar veisluhaldarar hvísla því að þeim að viðkomandi fjarskyldur frændi, sem varð að bjóða í ferminguna því annars yrði mamma hans háöldruð svo sár, leigi út gamalt vöruhús í verksmiðjuhverfi í úthverfi Reykjavíkur til fjölskyldna frá Austur-Evrópu.
Mataræðisperrinn
Hlaðborðið er oft ákveðið friðhelgi í þessum veislum þar sem fólk sameinast í mjög svo nauðsynlegu áti eftir vandræðaleg samtöl og enn vandræðalegri þagnir. En Adam var ekki lengi í paradís börnin góð því oft má finna ákveðna manngerð í kallfæri við kræsingarnar og hún er einmitt sú sem „passar upp á mataræðið”. Hún bloggar gjarnan um allt sem er hollt og sniðugt og dásamlega grænt og græðandi og mundi ekki borða svo mikið sem eina sveitta rækju á svona hlaðborði þó líf hennar og alls sem er lífrænt lægi við.
Nú væri þetta allt saman gott og blessað (meiri matur fyrir okkur hin, oink oink) en nei nei. Sjálfhverfan í sambandi við matinn er á því stigi að hún finnur sig knúna til að öskra boðskap græna lífstílsins yfir fermetran af brauðtertunni og sundlaugarinnar af súrsætu sósunni (sem fylgir rækjunum). Þannig eyðileggur hún allt átið fyrir liðinu sem veit hvað það er að lifa. En á mjög passive aggressive hátt: „Jú jú, auðvitað má alveg leyfa sér smá sósu og svindla aðeins og borða örlítið mæjónes en ég kýs bara að sleppa þessu alveg. Ég er búin að hreinsa mig svo vel að ég fæ hausverk við að borða eitt ritzkex núorðið! Þetta er ekkert mál þegar maður byrjar á þessu og bara svo nauðsynlegt ef maður raunverulega vill lifa lengur en til sextugs.”
Name-dropparinn
Hjá þessari týpu heitir engin manneskja bara einu nafni heldur fylgir föðurnafn með OG titill. Og það er aldrei minnst á neinn sem ekki er frægur eða að minnsta kosti þekktur. Það sem síðan ærir úr manni lifur í þessu er sú staðreynd að fermingar eru fullkominn vettvangur fyrir þetta fólk því það fellur alltaf einhver velmeinandi ættingi fyrir þessu gólandi monti og spyr: „Bíddu ha, hvernig þekkir þú Ladda?” Þá kemur í seiðandi rólegri röddu (name-dropparinn er aldrei æstur): „Við Þórhallur þekkjumst mjög vel. Hann leitar mikið til mín. Úpps, sé missed call frá honum, hafið mig afsakaða”.
Þegar búið er að telja upp allar mögulegar manneskjur frá Ólafi Ragnari upp í Leoncie eru merkjavörurnar teknar fyrir: „Nei takk, ekki rifsberjagelé fyrir mig, ég þori ekki, Chanel-buxurnar mega víst bara fara í hreinsun á Sanderson hótelinu í London, geðveikt vesen, haha!” Og svo: „Fer ekki út næst fyrr en eftir þrjár vikur, er að bilast á þessu skeri, svo glatað veður, haha!” og svo: „Saga Class hjá Icelandair er djók við hliðina á stóru flugfélögunum, en maður hefur víst ekkert val.”
Svo, alla vega. Við höfum ekkert val. Nú er bara að herða upp hugann, stinga höfði undir handlegginn, komast í gegnum þetta, knúsa fermingarbarnið, fá sér vel af hlaðborðinu og reyna, í guðs almáttugs bænum, að lifa þetta af.
Ó, ég gleymdi einni tegund: Tuðaranum. Þú finnur hann úti í horni á trúnói með mér.