Af öllu sem ég óttast er ég hræddastur við tvennt: Að fljúga og fá gubbupest. Ég er búinn að rekja þessar fóbíur til tveggja einstakra atburða sem mörkuðu djúp spor í sálarlíf mitt.
Sá fyrri átti sér stað þegar ég var átján ára í flugvél á leið heim úr illa ígrundaðri tveggja vikna ömurðarferð til Benidorm. Ég sat fullkomlega serótóníntæmdur í gluggasæti vélarinnar þegar ég tók eftir því að vatn lak meðfram glugganum. Nú er ég enginn verkfræðingur en ég vissi samt að 800 tonna stálhólkur á 900 km hraða ætti líklega að halda vatni, þannig að ég kallaði á flugþjón og spurði hann hvort þetta væri alveg eðlilegt. Sá ungi maður virti fyrir sér vatnstrauminn í hálfa sekúndu, yppti öxlum og mælti orð sem óma enn í martröðum mínum: „Ég veit það ekki, en þetta hlýtur að verða allt í lagi.“
Restina af fluginu sat ég náfölur, með hvítherpta hnúa utan um sitthvorn sætisarminn og augun uppglennt eins og það væri verið að skjóta mér út í geim og beið eftir því óumflýjanlega andartaki þegar vélin mundi loksins liðast í sundur og það síðasta sem ég sæi væri flugþjónninn, enn yppandi öxlum, svífandi út í himinblátt tómið. Það eina sem ég gat hugsað um var bara að komast lifandi frá þessu svo að ég gæti faðmað foreldra mína.
Seinni upplifunin var á hóteli á Austurlandi, þangað sem ég hafði flúið sambandsslit eitt sumarið eins og dularfull persóna úr bensínstöðvarástarsögu.
Seinni upplifunin var á hóteli á Austurlandi, þangað sem ég hafði flúið sambandsslit eitt sumarið eins og dularfull persóna úr bensínstöðvarástarsögu. Rómansinn rann þó af upplifuninni þegar ég vaknaði eina nóttina í svitabaði eftir að hafa gætt mér á forláta sviknum héra kvöldið áður. Mér tókst að skríða fram á klósettið. Þar ældi ég. Og hvort ég ældi. Ég ældi og ældi. Ældi svo mikið að ég náði varla að sturta niður á milli. Ældi hraðar en ég gat drukkið vatn á milli. Ældi þangað til ég heyrði ekki lengur í sjálfum mér æla, heldur bara hátíðnisuð. Ældi þangað til það var bókstaflega ekkert eftir í líkamanum á mér. Á þeim tímapunkti var ég ekki einu sinni að æla lengur heldur öskra; lá á fjórum fótum og öskraði á klósettið eins og vitstola skepna – sviptur öllu því sem áður gerði mig mannlegan. Átökin voru svo mikil að háræðar í báðum augunum á mér sprungu og þau fylltust af blóði eins og í froðufellandi uppvakningi – eða Birni Jörundi eftir hádegi á sunnudegi. Það eina sem ég gat hugsað um var bara að komast í bæinn til að geta faðmað foreldra mína.
Ég hélt að aldurinn væri farinn að deyfa þennan ótta hjá mér, en svo kemur fréttaflutningur síðustu viku og nær að taka þessar tvær nístandi ofsahræðslur og rækta þær saman eins og afkvæmi köngulóar og holugeitungs. Ég geri ekkert annað en að ímynda mér atvikið í þessari flugferð – hvert einasta smáatriði. Þegar ég loka augunum sé ég ekkert annað – eins og vakandi martröð. Í huga mínum gerðist þetta einhvern veginn svona:
Við erum stödd í flugvél. Þetta er venjulegt, vansælt farþegaflug – hósti, barnsgrátur og væg fretmóða sem liggur yfir öllu rýminu. Flestum of heitt eða of kalt og enginn vill sessunautinn sem hann fékk úthlutað – síst af öllum fjölskyldan sem situr við hliðina á hópi háværra, jakkafataklæddra Íslendinga sem lykta eins og blanda af gömlum vindli og opinni Pimm’s-flösku og virðast vera í keppni um það hver getur öskurhlegið hæst hver framan í annan. Skyndilega þagnar einn þeirra – hvítnar upp. Það tekur hann nokkrar tilraunir að losa beltissylgjuna áður en hann rís upp á óstöðugum fótum og staulast í átt að klósettinu fremst í vélinni. Hann rykkir í hurðina. Læst. Rykkir samt aftur. Hamrar á hurðina með lokuðum hnefa. Mjóróma rödd eldri manns svarar titrandi að salernið sé upptekið.
Jakkafataklæddi maðurinn stendur valtur, ráðalaus. Hann lítur yfir farþegarýmið, öll augu beinast að honum. Efstu tvær tölur skyrtunnar eru opnar og bindið hangir utan um hálsinn eins og doppótt silkisnara. Svitaperlurnar á efri vörinni eru byrjaðar að leka niður munnvikið. Augun hálflokuð og tómleg.
Jakkafataklæddi maðurinn stendur valtur, ráðalaus. Hann lítur yfir farþegarýmið, öll augu beinast að honum. Efstu tvær tölur skyrtunnar eru opnar og bindið hangir utan um hálsinn eins og doppótt silkisnara. Svitaperlurnar á efri vörinni eru byrjaðar að leka niður munnvikið. Augun hálflokuð og tómleg.
Það fyrsta sem fremsta röðin heyrir er hljóð sem best væri hægt að líkja við kött að reyna að ná upp hárbolta. Hann slær einu sinni enn veiklulega í salernishurðina. Sjáöldrin víkka.
Á þessu andartaki er líkt og tíminn stöðvist.
Áður en að vinalegi faðirinn í annarri sætaröð nær að ýta höfði fimm ára sonar síns niður herpast öll líffæri jakkafataklædda mannsins saman. Heilinn á honum notar síðustu krafta sína, sendir boð niður í þarmana sem senda boð áfram upp og eitt af öðru lokast hvert einasta op og þrýstir öllu innihaldi upp úr maganum, í gegn um vélindað, upp hálsinn. Þegar í kokið er komið er of seint að aðhafast neitt frekar.
Fyrstu vínrauðu kekkirnir lenda á gleraugunum hjá virðulega rúllukragapeysuklædda manninum í sæti 1C. Hann reynir að strjúka þá af en þeir klístrast milli fingra hans líkt og tyggjó undir skósóla. Næstu á kinn grunnskólakennarans í sæti 2E og áður en fyrsta öskrið heyrist stendur strókurinn upp úr jakkafataklædda manninum – mikilfengleg sýn, í raun, hefðu aðstæðurnar verið aðrar.
Þegar rauðleiti strókurinn er rétt að ná hámarksþrýstingi reynir ungi jakkafataklæddi maðurinn að taka örlögin í eigin hendur og stöðva þessa atburðarás með því að bera hönd fyrir munn sér. Þetta er afleikur. Þarna mætir óstöðvandi afl óhreyfanlegum hlut og úr verður náttúrufyrirbæri sem best væri að líkja við það þegar gífurlegu magni af ofsoðnum hafragraut er hellt í gegnum þyrluspaða. Hamfarir. Hálfmeltar tægjur af djúpsteiktum kjúklingabita. Gulleitur kökkur sem eitt sinn var sourcream & onion-kartöfluflaga. Að minnsta kosti tveir lítrar af frekar ódýrri Syrah-þrúgu. Fyrstu fimm sætaraðirnar eru hjúpaðar rauðum vessa. Sköllótti lífeyrisþeginn í þriðju röð lítur út eins og hann hafi skriðið út úr leginu á ný. Það er þögn – eins og tilkomumiklu tónverki hafi verið að ljúka. Það eru enn rúmlega tvær klukkustundir eftir af fluginu.
Washington. Ungi jakkafataklæddi maðurinn er löngu lagstur í aftursæti bílaleigubíls og hugsar bara um að faðma foreldra sína á Íslandi. Á meðan situr Vilhjálmur Bjarnason undir stýri og veltir fyrir sér hvort hann eigi að stöðva á bensínstöð til að spúla hann eða skilja hann bara eftir í vegkantinum einhverstaðar við flugvöllinn.
Ísland. Flugvélin komin heim. Inn í farþegarýmið stígur starfsmaður flugfélagsins vopnaður engu nema skúringarfötu og hugrekkinu. Lyktin yfirgnæfir enn farþegarýmið og smýgur í gegn um andlitsgrímuna. Sem hann hamast á gólfteppi vélarinnar með votum svampi veltir hann fyrir sér hvort það þurfi í alvöru að virkja Þjórsárver til að hægt sé að borga honum 40.000 krónum meira á mánuði.