Ég ætla að biðja manninn sem fótósjoppaði Halldór Halldórsson á heilsíðu auglýsingu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um að vinsamlegast hætta því, eða að minnsta kosti fara ekki jafn miklum hamförum á forritinu næst þegar hann fær ljósmynd af manninum í hendurnar. Ég hef hitt Halldór Halldórsson í eigin persónu, hann er kraftmikill, myndarlegur og sjarmerandi maður. Að krukka í litarhafti hans, undirhöku og húð í tölvuforriti er því ekki bara óþarfi, það er dónaskapur. Dónaskapur við Halldór, dónaskapur við hans nánustu, en umfram allt dónaskapur við kjósendur.
Ljúgum okkur inn á kjósendur
Á hvaða tímapunkti fór Sjálfstæðisflokkurinn að trúa því að allir frambjóðendur hans yrðu að líta út eins og Bjarni Benediktsson til þess að teljast frambærilegir? Þetta eru einhver ný sannindi því Davíð Oddsson leit út eins og Gilitrutt allan sinn stjórnmálaferil og þá farnaðist flokknum einna best.
Þetta er hluti af stærra vandamáli. Stærri villu sem tilheyrir þessum gömlu stjórnmálum. Þetta er „ljúgum okkur inn á kjósendur“-stefnan og hún er algjörlega óþolandi. Ef það er eithvað sem Jón Gnarr og Besti flokkurinn hefur kennt okkur þá er það að einlægnin er ofar öllu. Þeir sjálfstæðimenn í borgarmálum sem föttuðu það líka, þeim var bolað út.
Öll þessi kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins er fótósjopp-rúnk frá A-Ö. Eins og þetta stórundarlega upphlaup í kringum ársskýrslu borgarinnar í vikunni, sem var eitthvert mesta #struggle sem ég hef séð.
Skilaboðin sem er verið að selja kjósendum eru einföld. Núverandi meirihluti er samansettur af trúðum og kommúnistum og þeir kunna ekki að fara með peninga. Einungis Sjálfstæðisflokkurinn kann að fara með peninga. Þetta er fyndið, í alvöru. Ekkert í Íslandssögunni neins staðar bendir á nokkurn hátt til þess að sjálfstæðismenn kunni að fara með peninga. Þó svo að þeir aðhyllist kapítalisma er þetta heldur glatað samansafn af kapítalistum. Eins konar áhugamannafélag, þar sem menn hafa svona yfirleitt ekki tekið þátt í neinum fyrirtækjarekstri á frjálsum markaði. En hafi þeir einhvern tíma gert það hafa þeir yfirleitt þurft að gera grein fyrir þeim afskiptum fyrir dómstólum á einhverjum tímapunkti.
Svo rosalega mikið ströggl
Svo byrja einhver vatnsþynnt slagorð sem eru samin á litlum sellufundum. „Núverandi meirihluti hefur hækkað skuldir Reykjavíkurborgar um 15 milljónir á dag síðan hann tók við.“ Veistu, ef við værum í stríði, þá væri maðurinn sem reiknaði þetta út tekinn á bak við hús og aflífaður.
Er þetta virkilega umræða sem Sjálfstæðisflokkurinn vill fara í? 16 milljarða skuldaaukning, en þar af eru 12 milljarðar lán til Orkuveitunnar sem er alfarið á ykkar ábyrgð. Hvernig er hægt að fótósjoppa sig frá þessu?
Ég átti í einhvers konar umræðu um þetta á Twitter við tvo af frambjóðendum D-lista, þær Hildi Sverrisdóttur og Áslaugu Friðriksdóttur. Sjón er sögu ríkari.
Hildur Sverrisdóttir @hildursverris
Núverandi meirihluti hefur aukið skuldir borgarinnar um 15 milljónir á hverjum degi allt kjörtímabilið. Það er ein Hofsvallagata á dag. #xd
Halldór Halldórsson @DNADORI
@hildursverris það er líka lýðskrumandi einföldun á málunum. #struggle
Hildur Sverrisdóttir @hildursverris
@DNADORI Það má vel vera. En það má líka alveg setja tölur í samhengi til að spyrna við landlægu fjármálaólæsi.
Áslaug Friðriksd @aslaugf
@hildursverris @DNADORI Það getur verið sárt að skilja sannleikann!
Gróf einföldun á þessum samskiptum er svona:
Hildur
Trúðar og kommúnistar eyða peningum ykkar í vitleysu.
Halldór
Það er ekki rétt.
Hildur
Ég veit það. En það eru hvort eð er allir svo heimskir.
Áslaug
Fokkaðu þér feita svín!
Þetta er allt svo örvæntingarfullt. Þetta er svo rosalega mikið ströggl. Þrír miðaldra karlar í efstu sætunum, bersýnileg óeining innan flokksins um stærstu stefnumál. Oddviti sem maður á rosalega bágt með að trúa að gráti og blæði fyrir hag Reykvíkinga. Fyrrverandi vonarstjarna flokksins fyllir samfélagsmiðla af leyndum áróðri gegn flokknum. (GMB – Kjósið þann sem elskar RVK.) Er virkilega einhver sem hugsar: „Já, já, þetta er ekkert sem kvikk fundur á auglýsingastofu, starfsdagur og fótósjopp lagar ekki.“ Flokkurinn hefur aldrei mælst jafn illa í skoðanakönnunum, eðlilega. Mér finnst hann samt vera með óhugnanlega mikið fylgi miðað við hvað þetta er hrikalegt #struggle.
Einn góðan veðurdag hækkum við í græjunum
Mikið er ég samt feginn að Guðni Ágústsson fór ekki fram. Ekki af því þetta var Guðni; ég fíla Guðna. En Guðni er 65 ára gamall og 65 ára gamlir menn eiga ekki að ráða neinu nema því hvað þeir fá í kvöldmat.
Og síst af öllu eiga þeir að hafa skoðun á hlutum eins og ESB, flugvellinum og krónunni. Þetta bara kemur ekki gömlum körlum við.
Einn góðan veðurdag munu allir þessir gömlu valdasjúku kaldastríðskarlar hverfa ofan í rykið og þá getum við hækkað í græjunum og haft gaman.