Nei, ekki Sigurður Ingi.
Síðan Sigmundur Davíð hraktist út úr Háskólabíói með ótal hrífur í bakinu hefur Framsóknarflokkurinn gengið í gegnum aðdáunarverða ímyndarenduruppbyggingu. Áratugir af því að vera þekktur sem tækifærissinnaður sjálftökuflokkur sem hefði þá helstu stefnu að vera í ríkisstjórn, og þá helst með Sjálfstæðisflokknum, breyttist í að vera tækifærissinnaður sjálftökuflokkur sem hefur þá helstu stefnu að vera í ríkisstjórn, helst með Sjálfstæðisflokknum en núna með alþýðlegu yfirbragði. Sigurður Ingi er nefnilega svo almennilegur. Hefur svona hlýlega frænda-orku. Þið vitið hvernig frænda ég er að tala um; frændinn sem allir krakkarnir hlakka til að hitta í fjölskylduboðunum. Hlær hátt, segir skemmtilegar sögur, tekur mann í bóndabeygju og gaukar að manni volgum 500 króna seðli sem hann dregur upp úr rassvasanum. Allir elska þennan frænda.
Öll ímyndaruppbygging Framsóknarflokksins hefur svo verið smíðuð í kringum þessa orku. Hvernig væri bara að hætta að rífast? Hætta að vera með svona mikið vesen? Hvernig væri að prófa að hætta að vera með svona sterkar skoðanir og vera í staðinn bara með enga skoðun? Er það ekki bara best? Getum við ekki öll verið sammála um það?
Þessi þægilega öfgalausu skilaboð höfðuðu skiljanlega sterkt til langþreyttrar þjóðar sem er búin að standa í föllnum ríkisstjórnum, spillingarmálum og tveggja ára heimsfaraldri. Við skulum ekkert vera að rífast um Evrópusambandið, stjórnarskrá eða viðamikil efnahagsmál. Þurfum ekkert að fara í einhverjar útdauðar skotgrafir hægri- og vinstrimennsku. Skulum bara vera nett og slök og pæla ekkert of mikið í hlutunum. Já takk gjörið þið svo vel má ég kjósa ykkur tvisvar?
Það byrjuðu kannski að koma smá sprungur strax og Lilja Dögg Alfreðsdóttir braut jafnréttislög við ráðningu ráðuneytisstjóra og ákvað að besti kosturinn í þeirri stöðu væri að höfða mál gegn brotaþola sínum á kostnað skattgreiðenda, sem hún tapaði svo líka. Það kom ekki nógu vel út. Willum Þór ákvað að kasta frá sér möguleikanum á að verða eini framsýni ráðherra í sögu Framsóknarflokksins þegar hann hætti við frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta og ákvað í staðinn að stofna starfshóp um málið, sem þýðir á stjórnmálamannamáli; „Ég vil aldrei heyra um þetta mál aftur svo lengi sem ég lifi”. Þar virðist engu breyta öll reynsla allra sérfræðinga í meðferð og úrræðum við fíknisjúkdómum þar sem allar rannsóknir sýna að ekkert samband er á milli refsinga og neyslu. En á meðan þessir fúnu, hræddu afturhaldsseggir reyna að lesa í telaufin sín í einhverri rykfallinni nefnd heldur Ísland áfram að setja sjúklinga í fangelsi.
Í borginni eru svo tilraunir til þess að reyna að blása einhverju smá lífi í hræið sem „Framsókn og Flugvallarvinir” skildu eftir sig; fyrst með því að reyna að fá vinsælan, sjarmerandi handboltamarkmann í oddvitann, og þegar það skoraði ekki alveg nógu hátt var fenginn vinsæll, sjarmerandi fjölmiðlamaður í staðinn. Báðir áttu þeir sameiginlegt að enginn veit fyrir hvað þeir standa í pólitík, hvaða hugsjónir þeir hafa eða sannfæringu. Fullkomið. Alveg eins og það á að vera.
Það var svo nýafstaðið Búnaðarþing sem var kannski óvart mest afhjúpandi. Það virðist almennt hafa verið frekar erfið stemning þarna þar sem fólk vildi ekki faðmast, sem ég skil reyndar vel, maður hélt að þetta blæti fólks fyrir því að faðma hálfókunnugt fólk í tíma og ótíma hefði dáið í heimsfaraldrinum, en bændur virðast vera óþægilega fastheldnir.
Það er nefnilega þannig með hressa frændann að stundum varir fjölskylduboðið aðeins of lengi og þegar hann er búinn að fá sér 7-8 stórar dósir af Víking Sterkum fara fingurnir að þrútna í kringum þumalhringinn og flagaraklúturinn að losna frá hálsinum og þá hallar hann sér upp að manni með rautt nefið og segir manni einhverjar lífsskoðanir sem passa alls ekki inn í tíðaranda líðandi stundar. Hann meinar kannski ekki allt of mikið með þessu, en djúpt undir niðri er samt einhver dulin sannfæring sem sprettur fram þegar þegar beislið losnar aðeins.
Svo rennur auðvitað af honum og maður er búinn að fyrirgefa honum þetta fyrir næsta fjölskylduboð. Munurinn er samt sá að fulli frændinn er vanalega ekki formaður næststærsta stjórnmálaflokks landsins og ráðherra í ríkisstjórn. Sigurður baðst vissulega afsökunar, reyndar eftir að aðstoðarmaður hans hafði reynt að ljúga blákalt að þjóðinni, og það á víst að vera nóg. Forsætisráðherra predikar að við verðum að geta fyrirgefið ef afsökunarbeiðnin er svona einlæg og falleg. En þetta snýst ekki um afsökunarbeiðni, þetta snýst um til hvers við ætlumst af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar. Hverskonar spegill þau eru og hvaða standard við setjum þeim. Einhver sagði að þetta væri tækifæri til kennslu. Að við ættum að taka Sigurð Inga blíðlega á hné okkar og útskýra föðurlega fyrir honum hvað hversdagslegur rasismi sé. En Sigurður Ingi er ekki gamalmenni á hjúkrunarheimili sem heldur að gúttóslagurinn hafi átt sér stað í gær, hann er ráðherra í ríkisstjórn sem hefur setið í fjórum ólíkum ráðuneytum. Hann hefur hitt þjóðhöfðingja frá öllum heimshornum og tekið þátt í stærstu ákvörðunum þessarar þjóðar síðasta áratuginn. Það þarf ekki að útskýra fyrir honum hvað rasismi sé eins og hann sé einhver aukapersóna í To Kill a Mockingbird.
Í flestum siðuðum lýðræðisríkjum yrðu alvarlegar afleiðingar þegar einn af æðstu ráðamönnum landsins gerðist sekur um að láta svona út úr sér. Ísland hefur samt hingað til ekki verið mikið í því. Er ekki bara best að reyna að bíða þetta af sér? Vona að næsti skandall komi sem fyrst svo við getum gleymt þessu.
Næst þegar við fáum tækifæri til, er þá ekki bara best að kjósa eitthvað annað en þessa hugsjónalausu hrúðurkarla þótt þeir séu klæddir upp eins og uppáhalds frændi þinn og lykti eins og Old Spice?
Og Sigurður Ingi, er ekki bara best að segja af sér?