Ég er alltaf að reyna að sannfæra kærustuna mína um að kaupa sér íbúð. Það er ekki að við séum á nokkurn hátt tilbúin að búa saman. Við erum búin að vera saman í örfáa mánuði og rétt byrjuð að freta fyrir framan hvort annað, þannig að skynsemin segir að það þurfi smá stund til viðbótar af uppbyggðu æðruleysi til þess að vera búin undir allan hinn líkamlega hryllinginn sem maður óumflýjanlega upplifir í óslitinni samvist.
Ég er bara að þessu því mig langar til að vera nálægt einhverjum sem upplifir tilfinninguna að kaupa íbúð – athöfn sem er að verða jafn sjaldgæf og íslenska geitin og líklega eitthvað sem ég mun aldrei upplifa á minni lífstíð. Ég vil því meina að ég sé eins og fátæku konurnar sem þvoðu fæturna á Mahatma Gandhi til að komast í snertingu við æðri krafta – þótt ég sé líklega meira eins og litli fjárhagslega óábyrgi fiskurinn sem sýgur sig fastan við stærri, ábyrgari og fyrirhyggjusamari fisk eða þá trúðurinn sem smíðaði vaxvængina á Íkarusi og skaut honum í átt að sólu.
Ég eygði samt örlitla von þegar mér var tilkynnt að múgurinn hefði verið blessaður með þeim forréttindum að fá að eyða viðbótarlífeyrissparnaði sínum í útborgun á íbúð. Það vonargat herptist örlítið saman þegar ég komst að því að þessi gluggi væri bara opinn í fjögur ár, sem gefur mér tóm til að safna andvirði útborgunar í vel notaðan Opel Astra. Mín eina von er óljós minning um að hafa tæmt úr nokkrum sparibaukum inn á krakkabók hjá Búnaðarbankanum í Mjódd sumarið ´91. Ég er enginn stærðfræðingur en með uppsöfnuðum vöxtum væri þessi bók líklega 100 milljóna króna virði í dag ef ég bara fyndi hana – en á þessum tíma var eina sönnun inneignar í banka laminerað pappaspjald sem maður geymdi undir koddanum sínum.
Þrír menn í kjallara
Þangað til ég finn bankabókina eða kemst eitthvað áleiðis í því að fá Björgólf Thor til að afsala til mín 0,01% af eignum sínum ligg ég eins og ormur á leiguíbúðinni minni. Hún er reyndar bara rúmlega 60 fermetra kjallaraíbúð. Og ég deili henni með tveimur öðrum fulltíða mönnum. Og vissulega er talsverður gólfkuldi og tæknilega séð tvær brotnar rúður. Og kannski má ekki hafa neina blöndu af eldavél, hraðsuðukatli, ryksugu eða uppþvottavél í gangi á sama tíma án þess að öryggi slái út. Svo má færa rök fyrir því að það sé alltaf fullt af köttum að koma inn og éta upp úr ruslinu okkar, spreyja einhverju drasli úr rassgatinu á sér og elta rottur í garðinum. Svo hafa reyndar ein eða tvær lagnir gefið sig undir gólfinu og hálf íbúðin var rafmagnslaus í nokkra mánuði. Og vissulega hafa verið þrír eigendur á meðan við höfum búið þarna, þar af einn vafasamur gaur sem var svo vafasamur að hann hét Jói vafasami í símaskránni minni. Þrátt fyrir að stemningin þarna hafi oft á tíðum verið líkari háaloftinu hjá Önnu Frank heldur en eðlilegri, siðlegri búsetu munum við líklega aldrei flytja þaðan því að hinn kosturinn er að borga 100.000 krónur á mánuði fyrir að hírast í gluggalausum bílskúr í Kórahverfinu sem einhverjir siðleysingjar kalla leiguíbúð til að lokka þangað inn örvæntingarfulla háskólanema eins og nornir sem nærast á námslánum í sósíalrealísku Grimmsævintýri.
Uppsafnað klösterfökk
Námsmenn eru í frekar vondum málum. Það eru 800 manns á biðlista eftir stúdentaíbúðum, leigumarkaðurinn er svarthol og LÍN gerir grín að þeim. Þetta uppsafnaða klösterfökk er að skapa heila kynslóð af eilífðarbörnum sem geta ekki flutt að heiman og eru því föst í einhverju akademísku Péturs Pan-syndrómi. Þetta kemur auðvitað verst niður á foreldrum þeirra, sem margir hverjir eru að skríða í átt að sjötugsaldrinum og ættu að vera að njóta lífsins; vinna í garðinum, enduruppgötva ástina og jafnvel eyða stöku stund með barnabörnum, en eru í staðinn enn að þvo skítugar nærbuxur, smyrja kæfusamlokur og garga á loðin mannbörn að skilja ekki eftir handklæði á gólfinu og skola mjólkurglös eftir notkun. Á endanum verður þetta fólk eins og dýragarðsapar sem ekki er hægt að sleppa aftur út í náttúruna sökum tilfinningalegs ofeldis.
Heitasta hugmyndin sem upp hefur komið til að redda þessu er að stafla upp notuðum vörugámum í einhverju ódýru verksmiðjuhverfi, skera á þá glugga og fylla af IKEA-húsgögnum. Þar getur svo heil kynslóð dagað uppi í chic 27 fermetra skandinavískum líkkistum í einhvers konar ofmenntunar-uppa-varsjárgettói þar sem fangarnir eru allir hjúpaðir í American Apparel-fötum með MacBook Air-tölvur.
Þegar ég var að væla yfir þessu óréttlæti um daginn var ég spurður af hverju ég gerði ekki eins og fólk gerði áður og legði einfaldlega peninga fyrir. Hvernig á ég að geta lagt fyrir þegar ég þarf að greiða af kreditkorti, tveimur raðgreiðslusamningum, ljósleiðaraboxi, netþjónustu, líkamsræktarkorti, strætókorti, Spotify Premium-aðgangi, Netflix, Dropbox pro, léninu hrafnjonsson.com (sem ég uppfærði síðast 2011) og reglulegum greiðslum inn á skuldabréfið sem ég skuldbreytti yfirdrættinum mínum í fyrir nokkrum árum? Þetta er ekki vinnandi vegur.
Millistéttin er að leysast upp, fremja sjálfsmorð. Dýrasta kynslóð sögunnar á ekki neitt. Gjáin verður svo mikil að eftir nokkur ár verður eina leiðin fyrir okkur til að eignast kjallaraíbúð að berjast til dauða um hana í hungurleikum yfirstéttarinnar á meðan tanaðir og túberaðir Ægisíðuvesturbæingar horfa á og láta léttklædda vikapilta mata sig með teingrilluðum Melabúðarkjúklingalærum. Ég vona bara að Björgólfur skrifi mér til baka.
Svo verður þessi Hanna Birna að fara að segja af sér.