Til er lítil rannsókn sem sýnir fram á að það er eitthvað að okkur.
Með „okkur“ á ég við „okkur karla“ og rannsóknirnar sem skila þeirri niðurstöðu skipta reyndar þúsundum, en hér er átt við eina sérstaka sem er mjög afhjúpandi í einfaldleika sínum.
Rannsóknin tók til notenda eins vinsælasta stefnumótavefjar heims, sem er kannski ekki fullkomnasta úrtakið úr menginu „allt fólk“ en niðurstaðan er nógu afgerandi til að það skipti ekki máli: hún sýnir að mjög mikil fylgni er á milli aldurs kvenna og aldurs þeirra karla sem þær laðast mest að – því eldri sem konan er þeim mun eldri mönnum hrífst hún af. Í augum karla eru konur hins vegar mest aðlaðandi í útliti rétt um og eftir tvítugt. Allra karla, sama hversu gamlir þeir eru.
Það versta er að þessar upplýsingar koma líklega fæstum í opna skjöldu – okkur þykir þetta ekkert óskaplegt tiltökumál. Þetta staðfestir bara það sem við töldum okkur vita: karlar eru soddan pervertar, hugsa bara með typpinu, hugsa um kynlíf á sjö sekúndna fresti, miklu oftar en konur (sem er kjaftæði, hvort tveggja), vilja þær ungar, þurfa að vera í metafórískri ól svo að þeir hlaupi nú ekki út undan sér, graðmennin. Okkur finnst svo sem ekki vera neitt að okkur.
Gamalmennalúkkið
Og við gerum í því að festa þessa kjaftæðisskekkju í sessi. Heitasta „lúkkið“ í dag er „dadbod“, líkami manna á miðjum aldri sem eru búnir að gefast upp á að hlaupa í sífellu af sér bumbuna – „lúkk“ sem er ekkert „lúkk“ heldur bara eðlilegur fylgifiskur þess að eldast nema menn eigi tíma og peninga og áráttuhegðun manna eins og Skúla Mogensen og Magnúsar Scheving, „lúkk“ sem líðst bara öðru kyninu, einhverra hluta vegna – þessu eru ungu stelpurnar að missa sig yfir, tvítugu stelpurnar sem karlarnir laðast að, líka þegar þeir eru sextugir. En heppilegt.
Karlar sem byrja að fá grátt í vanga upp úr tvítugu hafa enga ástæðu til að fara á bömmer, þeir geta þvert á móti átt von á hrósi, jafnt frá konum sem körlum, fyrir að vera orðnir „silfurrefir“ fyrir aldur fram, nánast eins og þeir hafi unnið í lottói. Konur sem byrja að grána fyrir fertugt – þess vegna fimmtugt – geta almennt ekki búist við miklum viðbrögðum enda grípa þær flestar strax til skaðaminnkandi aðgerða eins og að byrja að lita á sér hárið af ótta við að flýta annars fyrir því að upp renni dagurinn sem grínistinn Amy Schumer kallaði síðasta daginn sem þær væru kynlífstækar.
Ástin spyr um aldur
Og allt leiðir þetta okkur loksins að því sem varð kveikjan að þessum pistli, hugtaki sem er ein af hversdagslegri og, því meira sem maður hugsar um það, leiðigjarnari birtingarmyndum patríarkísins: gráa fiðringnum.
Íslendingar eru reyndar mjög mildilegir í nafngift á þessu fyrirbrigði. Á ensku og fleiri tungumálum heitir eitthvað svipað midlife crisis, miðlífskrísa, og á við bæði kyn. Danir nota sama orð en einnig orðið panikalderen, örvæntingaraldurinn. Hvort tveggja hefur heldur trist yfirbragð en Spánverjar ganga skrefinu lengra – þar er til frasinn el viejo verde, „gamli græni“, sem jafnframt getur einfaldlega útlagst sem „gamli perrakall“. Það að vera miðaldra karl og girnast stúlkur sem eru rétt orðnar lögráða heitir hins vegar hér á Íslandi eftir notalegu spennutilfinningunni sem maður fær í magann í rússíbana eða við fyrsta kossinn.
Enda lítur samfélagið það ekki nema takmörkuðu hornauga þegar menn segja skilið við konuna sína, sem er jafnvel komin með jafnmörg grá hár og þeir sjálfir og það sem væri hægt að kalla eðlilegan „mombod“-vöxt en er hins vegar ekki kallað neitt, og fara í staðinn á fjörurnar við kornungar stúlkur með dadbodið sitt að vopni; yngja upp, eins ógeðslegur frasi og það er. Fólk ypptir öxlum og segir „hann er bara með gráa fiðringinn“ eins og þetta sé læknisfræðilegt syndróm, það sé náttúrulögmál að hluti karla missi vit og ráð upp úr miðjum aldri (þegar konur fara sömu leið þykir það yfirleitt sæta miklum tíðindum).
En jafnvel þótt það mætti skýra þessa hneigð með eðlishvötinni þá væri það samt engin röksemd – við leyfum þeim hvötum alla jafna ekki að stjórna ferðinni í lífi okkar; býsna stór hluti af því að vera manneskja er að bera skyn til að hemja þær.
Ástin spyr ekki um aldur er orðatiltæki sem einhver pedófíllinn hefur fundið upp til að líða betur með sjálfan sig, en hún gerir það nú samt, og í tilfelli okkar karlanna getur sá aldur verið skuggalega nálægt velsæmismörkum.