Ég hef ekki getað fylgst með þjóðmálaumræðunni í tæpan mánuð því ég hef verið svo lamaður af kvíða yfir því að þurfa að fara til tannlæknis. Nýtilfundið andlegt jafnvægi mitt hefur víst fundið andlag sitt í því að ég gnísti tönnum í svefni eins og feitur maður að bryðja kartöfluflögur á bókasafni. Þetta sturlar samferðarfólk mitt svo mikið að mér hefur verið hótað því að ég þurfi að fara að sofa með einhverskonar plastgóm til þess að ég geti verið í nábýli við fólk - sem er bara lítilli skör fyrir ofan það að sofa með kæfisvefns-súrefnisgrímu í millistéttar-lífstílsvandamálapýramídanum. Ég þurfti því, eftir áratuga farsæla sjálfsblekkingu, að bíta á niðursverfðan og stórskemmdan jaxlinn og panta tíma.
Martraðir úr æsku sóttu á
Á meðan ég sló sveittur inn númerið í símann sóttu á mig martraðir úr æsku þar sem ég heimsótti barnatannlækninn minn, sem var í minni mínu skelfileg blanda af handloðnum bifvélavirkja og trúðnum Pennywise úr IT. Ég hef aldrei þorað að spyrja elskulegu móður mína að því hvar hún hafi fundið þennan mann - eða hvort hann hafi í raun verið alvöru tannlæknir - því að þær fáu minningar sem ég hef náð að púsla saman hljóma ekki eins og atburðarás sem á sér stað inn á viðurkenndri heilbrigðisstofnun í vestrænu velferðarsamfélagi.
Hátíðnisuð og vein úr næsta herbergi
Tíu ára, bláeygður og klæddur í uppáhalds mörgæsarpeysuna mína settist ég nokkuð keikur í stólinn. Þar var ég einn í dágóða stund, en í fjarska heyrði ég hátíðnisuð og kæfð vein. Skyndilega flugu upp vængjahurðir og inn rann tannlæknirinn ríðandi á ógnarhraða á stálkolli á hjólum. Ég man aldrei eftir andlitinu á honum, enda var það falið bak við hlífðargrímu og stækkunargleraugu, en ég tók eftir hlutfallslega stórum framhandleggjum sem höfðu vafalítið vaxið á hann við það að draga óþarflega margar tennur úr óþekkum börnum.
"Sem ég stóð svo fyrir utan, haldandi dauðahaldi í hönd móður minnar, með meira silfur í tönnunum á mér en Lil Jon, komst aðeins ein hugsun að mér: Tannlæknar eru feður allra lyga."
Hann spennti upp á mér munninn, muldraði eitthvað og rann svo jafnharðan aftur út og veinin hófust á ný hinum megin við vegginn. Ég hafði varla tíma til að láta tvær grímur renna á mig áður en hann kom aftur spólandi inn í stofuna, trekkti upp á mér munninn og byrjaði að munda einhver oddhvöss miðaldaverkfæri. Hann virtist sjá skelfingarglampann í auganu á mér því hann leit á mig og sagði: „Ekki vera hræddur, ég ætla bara að skoða þig.“
Tveir stólar notaðir til myrkraverka
Í barnslegri einfeldni minni slakaði ég aðeins á, eða þar til ég heyrði hátíðnisnúninginn í bornum og nístandi sársauka í ódeyfðum og nýsprottnum fullorðinstönnunum mínum. Fanturinn lauk sér svo af og rúllaði yfir í næsta herbergi þar sem hann hélt áfram svipuðum myrkraverkum í munninum á öðru barni. Ég hef hvorki fyrr né síðar vitað um tannlækni sem var með tvo stóla til þess eins að geta skelft tvöfalt fleiri börn á einum degi.
Sem ég stóð svo fyrir utan, haldandi dauðahaldi í hönd móður minnar, með meira silfur í tönnunum á mér en Lil Jon, komst aðeins ein hugsun að mér: Tannlæknar eru feður allra lyga. Þessi hugsun fylgdi mér næstu tíu árin eða þar til ég var við það að ljúka minni menntaskólagöngu. Það var um þetta leyti sem höfuð mitt var að ná fullum vexti og það kom á daginn að ég var með svo háþróaða skandinavíska kjálka að þeir höfðu enga þörf né pláss fyrir endajaxla, sem tóku þó að vaxa á hlið einhversstaðar ofan í beini.
Þetta var ekki veruleiki sem ég var tilbúinn að takast á við þannig að ég bruddi bara tvö spjöld af íbúfeni á dag og vonaði að tennurnar myndu einhvernvegin leysast upp. Það gekk þangað til að ég var orðinn það lifrargulur af pilluáti að móðir mín bókstaflega dróg mig til kjálkaskurðlæknis.
Sló met í magni deyfisprauta
Þar var aftur kominn maður sem hafði litla þolinmæði fyrir ofsahræðslu brenndra barna. Það fyrsta sem hann gerði þegar hann sá mig sitja víðeygðan og haldandi utan um stólarmana líkt og það væri verið að skjóta mér út í geim var að gefa mér Rohypnol töflu og svona 15 deyfisprautur. Svo þegar kom að því að munda litlu hjólsögina kom aðstoðarkona inn með sjónvarpstæki á armi sem hún staðsetti beint fyrir framan augun á mér og kveikti á mjög hátt stilltum Friends þætti. Það sem eftir fylgdi var súrrealískasta upplifun lífs míns þar sem hljóð í lítilli beinsög blandaðist saman við járnbragð af eigin blóði við undurleik hvells og innantóms dósahláturs. Svo var þessu öllu blandað saman í mjög sterkri lyfjavímu þar sem ég veinaði og hló til skiptis.
Eftir aðgerðina sagði læknirinn mér að ég hefði slegið algjört met í magni af deyfisprautum sem til hefði þurft til að fá mig til að hætta að veina. Honum fannst það alls ekki jafn fyndið og mér.
Tíu ár liðu fram að næstu heimsókn til tannlæknis
Það tók önnur tíu ár af lélegri tannhirðu, kvíða, gnísti og óhóflegri drykkju á Pepsi Max til þess að draga mig aftur til tannlæknis. Í þetta skiptið mætti mér vinaleg kona sem skoðaði munninn á mér, sargaði í burtu tannstein, gagnrýndi mig harðlega fyrir lélega burstunartækni, sagði að það þyrfti að laga fáránlega margar tennur, gaf mér tannbursta og tók svo alla peningana mína. Og ég gekk út alsæll. Það þurfti bara eina jákvæða upplifun til þess að kveða í burtu heila lífstíð af lamandi ótta.
Ætli boðskapurinn með þessari frásögn sé ekki að það séu bara svona tveir glataðir tannlæknar þarna úti, að langflestir séu fagmenn sem geri allt sem í sínu valdi stendur til þess að valda sem minnstum óþægindum.
Og að þú eigir að hætta að versla við MS, því annars komi gamli barnatannlæknirinn minn og dragi úr þér allar tennurnar.