Mín eftirlætistogstreita er togstreitan á milli blóðheitra náttúruverndarsinna og þeirra sem, þegar þannig liggur á þeim, er óskaplega umhugað um rétt og frelsi manna til að ganga langt í nafni listar – aðallega vegna þess að þetta er að stórum hluta sama fólkið. Þetta eru núverandi eða fyrrverandi vinstrimenn sem lögðu einu sinni mikið upp úr því að vera andborgaralegir og eru núna byrjaðir að fara í sunnudagsbíltúra og berjamó og hrista hausinn þegar þeir sjá hjálmlausa unglinga hoppa á torfæruhjólum í sandbingum en halda samt líka dauðahaldi í þá trú að þeir séu ennþá pönkaðir og yfir meðallagi víðsýnir, þótt þeir spyrji sig á innsoginu hvað hafi eiginlega farið úrskeiðis í uppeldinu á þessum Gísla Pálma, hvort hann geti nú ekki fundið sér innihaldsríkara yrkisefni en ólifnaðinn á sér og hvað hafi orðið um „alvöru“ rappið – þetta sem er núna orðið jafngamalt og Pink Floyd-katalógurinn var árið 1995.
Þessi orð eru ekki illa meint heldur ástúðlega – í alvöru – þótt ég sé ekki í hópi þeirra sem telja að síleski listamaðurinn Marco Evaristti hafi farið yfir strikið gagnvart íslenskri náttúru og þjóðarsál með því að lita Strokk í Haukadal bleikan með matarlit (hann hefði kannski frekar átt að sturta í hann 50 lítrum af iðnaðarsápu til að skapa sjónarspil fyrir ferðamennina eins og tíðkaðist lengi með nágrannahverina) og mér hafi fundist uppátæki sem eignað var Júlíusi von Bismarck í Mývatnssveit fyrir tveimur árum hressilegt frekar en nokkuð annað.
Hvorugur gjörningurinn hreyfði hætishót við mér sem listaverk – til þess er ég annað hvort með of skerta listvitund eða verkin of geld – en ég kunni að meta viðleitnina og ekki síst viðtökurnar, því að þarna reyndi sem áður segir á mörk frjálslynda menningarsvelgsins og lopaklædda náttúruaktívistans innra með hverjum íslenskum millitekjusíðhippa. Fólk lenti í hugmyndafræðilegri krísu og því hef ég gaman af, ekki vegna þess að ég er skepna heldur vegna þess að það er öllum hollt að eiga slíka samræðu við sjálf sig, og samfélaginu ekki síst.
Fólkið sem knýr vélina
Fólkið sem stendur tvístígandi frammi fyrir valinu á milli heilagrar vandlætingar og misþögullar blessunar er ekki hræsnarar; það hefur ekki villst af hinni réttu leið sem það taldi sig vera á í fyrndinni: þetta fólk er á eðlilegum stað í lífinu og ég bíð þess í ofvæni að komast á hann sjálfur. Þetta er fólk sem er nauðsynlegt öllum samfélögum: fólkið sem hneykslast þótt það hefði haldið sig yfir það hafið – svona fyrirfram. Þarna endar það allt einhvern tíma nema í mesta lagi eina prósentið sem síðan er talið sérlundað til dauðadags (og er það líka eflaust samkvæmt skilgreiningu).
Þetta er fólkið sem drífur samfélagið áfram – fólkið sem þarf að teygja á og sveigja til að hlaða upp spennu í kringum okkur. Það er ekkert unnið með því að ganga fram af þeim sem hafa verið forpokaðir síðan um fermingu, meira að segja Erpur Eyvindarson getur gert það með því einu að setja upp derhúfu og segja „mella“ nógu oft. Það er ekki fyrr en hinir súpa hveljur sem árangur getur náðst við að mjaka okkur eitthvert framávið – guð má vita hvert. Og þeim þarf að rugga reglulega.
Með öðrum orðum: Það er gott að storka, eða reyna það allavega.
„Ögrandi“ drasl
Það er gott að storka og allir vildu þá Lilju kveðið hafa, til dæmis viðrini á borð við uppistandarann Jason Rouse, sem er væntanlegur hingað að „ögra“ fimmtán ára strákum og ístöðulausum boðsgestum með því að segja þeim barnanauðgunar- og rasistabrandara í löngum bunum. Um hann má hins vegar segja að þótt enginn efniviður sé í eðli sínu utan velsæmismarka í meðförum góðs grínara, þá liggur skýrar fyrir en í tilviki listamannanna fyrrnefndu og þarf ekki langskólaðan krítíker til að sjá að Rouse þessi er, af eldri upptökum að dæma, firnaslappur náungi á þermistiginu sem hefur engin völd á einu einasta blæbrigði listarinnar sem hann leggur stund á og er síður en svo jafnögrandi og hann heldur.
Engu að síður: Veri hann velkominn til Íslands að fremja alla þá grínlist sem honum dettur í hug, það er bara vonandi að sem flestir sjái að hirðfíflið er ekki í neinum fötum og láti hann troða upp fyrir tómum sal – þá fyrst mundi viðburðurinn kannski öðlast einhvers lags listrænt gildi.
Ef þú þolir ekki hitann, farðu þá úr eldhúsinu
Loks er rétt að nefna að ég sé enga ástæðu til að vorkenna listamönnum þegar þeir uppskera þær óblíðu móttökur sem til var sáð, hvort sem þeir þurfa að svara til saka fyrir lögbrot eða eru svívirtir í athugasemdakerfum og þeim hótað lífláti og limlestingum. Til þess ætti leikurinn að hafa verið gerður, allt er þetta ómissandi hluti af sjóinu, og þegar þeir fara að bera sig aumlega við þær trakteringar, hversu vanstilltar sem þær kunna að vera, eru þeir í raun að tryggja sér sæti inn í sólarlagið með ringluðu náttúruverndarpönkurunum á vagninum sem þeir ýttu sjálfir af stað.
Ég segi bara það sama og ég sagði í búsáhaldabyltingunni þegar mótmælendur spörkuðu í óeirðarskildi og þóttust svo vera ægilega hissa þegar lögreglan sprautaði á þá piparúða: ég styð þá í sparkinu og tek þátt í því þegar ég nenni fram úr sófanum en ég veit líka að í og með var sparkað til að fá úðann í augun og liðka þannig fyrir kaosnum. Verði öllum að góðu.