Sem ég gekk þungum, holdvotum skrefum niður regndrekkt strætin með Philips-heimabíókerfi undir öðrum handleggnum og poka með tveggja kílógramma pakkningu af andoxandi epsom-heilsubaðsalti í hinni hugsaði ég með mér að ég væri einhverskonar Velmegunar-Herkúles; Seifur einkaneyslunnar. Einhuga og einbeittur; ég ætlaði ekki að láta neina lægð stöðva mig.
Ég missti nefnilega af síðasta góðæri. Átti ekki neitt og náði rétt að steypa mér í smá yfirdráttarneysluskuldir. Ég rétt stálpaðist sem fullorðinn neytandi þegar partíið var búið og ég gekk inn í fullkomið kaupmáttleysi og þurfti að dúsa í kjallara í Norðurmýrinni eins og fangi í neðanjarðarbyrgi á meðan þessi stormur reið yfir.
En nú er hagvöxtur. „Kröftugur hagvöxtur“ sagði greiningardeild Arionbanka mér í fréttum. Ég finn það; við erum öll miklu hressari.
En nú er hagvöxtur. „Kröftugur hagvöxtur“ sagði greiningardeild Arionbanka mér í fréttum. Ég finn það; við erum öll miklu hressari. Það er búið að þröngva nýjum kjarasamningum upp á flesta – allavega alla þá sem við nennum enn að tala um. Úr nýja Tivoli-útvarpinu okkar berast þær fregnir að einkaneysla hafi aldrei verið meiri. Ekki einu sinni 2007.
Fyrsti kaupmáttarvorboðinn var líklega heimkoma fæðubótarefnamógúlsins og Kim Jong-il eftirhermunnar Jóns Óttars Ragnarssonar, sem snéri úr útlegð sinni í Bandaríkjunum með vasa fulla af Herbalife-pýramídapeningum sem hann er búinn að keppast við að troða í nærbuxnastrenginn á Birni Inga Hrafnssyni, sem heldur áfram að sanna þá gömlu möntru að engin takmörk eru fyrir því hversu leiðinlegur maður getur verið ef maður á nóg af peningum til að fjármagna það.
Guðjón í Oz er í sinni fjórðu upprisu, Björgólfur Thor er aftur kominn inn á Forbes-listann yfir milljarðamæringa sem taka yfir 150 í bekk – meira að segja stórkapítalistinn Kári Stefánsson er orðinn bæði alþýðuhetja og húmanisti sem skiptist á að gefa litla manninum góð ráð og 800 milljón króna ofurundratæki.
Björt Framtíð virðist ekki vera finna sig í allri þessari gleði, en nærri ómælanlegt fylgi flokksins virðist helst koma frá eigin þingmönnum og nokkrum vinum þeirra. Þegar bent er á að flokkurinn sé mögulega í forystukrísu klæðir eilífðarunglingurinn Guðmundur Steingrímsson sig í Michelle Pfeiffer-í-Dangerous Minds leðurjakkann sinn, sest öfugur á stólinn og segir: „Hey, þurfum við einu sinni einhverja „formenn“ eins og allt fullorðna fólkið sem skilur okkur ekki? Þurfum við að vera eins og allir hinir?“ Á sama tíma ræður hann sér bæði nýjan aðstoðarmann og upplýsingafulltrúa svo að hann geti örugglega verið eins og allir hinir.
Ástandið er heldur ekki nógu gott hjá aumingja Rannveigu Rist. Litla fjölskyldufyrirtækið hennar, Rio Tinto Alcan, getur varla borgað laun. Ástandið er svo slæmt að forstýran sá sig knúna til að senda bréf til allra starfsmanna þar sem hún tilkynnti þeim að ef það kæmi til allsherjarverkfalls þyrfti einfaldlega að skella í lás. Þau eru þung píslaskrefin sem þarf að arka í nafni atvinnuskapandi góðgerðarstóriðju.
Hann virðist aðhyllast hvalveiðahagfræði Kristjáns Loftssonar: Ef þú ert að tapa peningum á einhverju þýðir það líklega að þú sért bara ekki að gera nóg af því.
Þrátt fyrir þessar hamfarir og hrapandi álverð tilkynnir forsætisráðherra þjóðinni að eina leiðin til að borga fyrir allar þessar gráðugu launahækkanir okkar sé að byggja fleiri álver. Hann virðist aðhyllast hvalveiðahagfræði Kristjáns Loftssonar: Ef þú ert að tapa peningum á einhverju þýðir það líklega að þú sért bara ekki að gera nóg af því.
Fyrir meðal Millistéttar-Íslendinginn er samt allt upp á við. Ég er fluttur úr kjallaranum í íbúð með gluggum, gaseldavél og nuddbaðkari. Ég stækkaði sjónvarpið upp í 55 tommur og kaupi bara lífrænt hnetusmjör. Í þetta skiptið ætla ég nefnilega að vera með. Mjólka þetta góðæri til síðasta dropa. Taka lán og kaupa íbúð bara undir Airbnb-túrista, aðra til að féfletta fátæka námsmenn á leigumarkaðnum. Taka önnur lán með veði í íbúðunum til að kaupa hlutabréf í Gamma sem svo kaupir af mér íbúðirnar á yfirverði og sparkar námsmönnunum út.
Svo eftir nokkur ár, þegar Kári Stefánsson verður að byrja sitt annað kjörtímabil sem forseti, hrynur þetta auðvitað allt aftur. Elliði Vignisson, forsætisráðherra, verður löngu búinn að flytja allar ríkisstofnanir til Vestmannaeyja og byggja úr þeim virki þar sem hann situr einn í hásæti úr áli og lundabeinum og sturlast. Eini alvöru tekjustofninn verða skattekjur frá skælbrosandi hamingjusömum vændiskonum sem hafa komið sér upp aðstöðu niðri við Sundahöfn þar sem skemmtiferðaskipin lenda og þær geta þjónustað raðir af alþjóðlegum, kynferðislega gjaldþrota eftirlaunaþegum. Mannréttindi. Eftir stendur næsta kynslóð ungs fólks sem náði ekki að eignast neitt og þarf að skríða aftur ofan í yfirprísaða leigukjallarann þangað til óveðrið gengur yfir.
En ég vorkenni þeim ekki neitt. Þau verða bara með næst. Við þurfum öll að bíða eftir okkar tíma í sólinni. Brauðmolakenning nýja góðærisins er nefnilega þannig að ef þú stendur nógu lengi í röð úti í rigningunni færðu á endanum kleinuhring. En svo sykursýki. Og svo taka þeir af þér fótinn. Eða eitthvað.