Byrjum á mér persónulega því ég er að skrifa þennan pistil: Ég væri að sjálfsögðu forstjóri flugfélagsins: „Við hröpum aldrei því við fljúgum ekki ef það er rok”. Ég mundi, sem forstjóri, hringja í flughrædda farþega (sem er allt eðlilegt fólk) kvöldið fyrir flug (það yrði hægt að haka við „flughrædd(ur)” þegar miðar eru keyptir á netinu) og segja þeim að þetta verði allt í lagi, það sé góð veðurspá, við tökum enga sénsa, jada jada jada... Ég yrði svona Móðir Teresa háloftanna og kannski væru myndir af mér uppi um alla veggi á flughræðslunámskeiðisskólum víða um heim. Síðan ætti ég það til að poppa upp í flugum, alveg óvænt, eins og Richard Branson gerir. Þá mundi ég hugsanlega rölta um gangana í síðkjól með kaffikönnu í annarri og kórónu á hausnum. Spjalla aðeins við Jón og Gunnu. Tala með róandi röddu í hátalarakerfið og fullvissa farþega um að ef það komi snefill af ókyrrð verði snúið við og lent aftur í Kef. Kannski mundi ég syngja Smávinir fagrir eða eitthvað annað þjóðlegt ef ég sæi marga útlendinga um borð. Og auðvitað segja „já” ef fólk spyr hvort þetta sé í alvörunni ég. Einhverjir mundu þá biðja mig að árita ælupokana á meðan aðrir mundu skella feitum status á facebook eða tvitti um að Lára væri í alvörunni um borð að skemmta, #bestafokkingflugíheimi
Í myrkrinu með krakkann í fanginu
Hjólreiðamenn yrðu að fara eftir umferðarreglunum. Þeir mundu pæla meira í gangandi vegfarendum og umhverfinu öllu og minna í fínu græjunum sem hjólið og útgangurinn á þeim er. Jú jú, allir voða samfélagslega meðvitaðir og lítið að menga með því að þeysast um á þessum neonlituðu byssukúlum sem þeir kalla hjól en hvað með mig??? Í kolniðamyrkri með krakkann í fanginu á leið yfir gangbraut á þröngri götu í Þingholtunum? Eða er ég eitthvað að rugla hérna? Rétt upp hönd sem hefur lent í því að hjólreiðamaður stoppaði á gangbraut fyrir þeim. Ég sá einu sinni karlmann missa pavlovu í götuna í Vesturbænum á leið í bókmenntapartý þegar hjólreiðamaður sveigði í veg fyrir hann. Ekki var það falleg sjón. Og ekki láta mig byrja að telja upp öll blóðböðin fyrir utan Melabúðina þegar hjólreiðamennirnir koma á 100 km hraða og hræða lifur úr viðskiptavinum sem eiga sér einskis ills von hvar þeir rogast út með plómutómata, fínt paté og forframaða gosdrykki í litlum glerjum. Ó! Og síðan eru það alltaf ÞEIR sem horfa reiðilega inn um bílrúðuna ef maður drepur ekki á bílnum, leggst í götuna og tilbiður þá sem ómengandi dýrðlingana sem þeir nú eru þegar maður verður á vegi þeirra. Svo, alla vega. Hjólreiðamenn færu eftir umferðarreglum.
Fólk sem á börn undir þriggja ára aldri, og/eða bara allt fólk sem á við svefnvandamál að stríða þannig að það vaknar á tveggja klukkustunda fresti allar nætur, fengi þrjá lögbundna frídaga í mánuði. Þá gæti þetta þreytta fólk til dæmis nýtt fríið til að heimsækja, ó ég veit það ekki, stóra verslun í Kauptúni í Garðabæ og hangið þar barnlaust og úthvílt í marga klukkutíma í ilmkertadeildinni.
Mæður í forgangi
Einstæðar mæður/feður fengju forgang í allar raðir alls staðar og sér akgrein á götunum og sírenur á bílana sína. Og fálkaorðuna. Á hverju ári.
Facebook hefði sérstakan filter þannig að maður sæi hvorki ræður um ferðir á helgileiki í skólum og 300 kommenta rifrildi í kjölfarið um trúmál, né myndir af sveittum tám við sundlaugarbakka í heitu löndunum. Einnig væri hægt að sía burt allar færslur sem innihalda orðið „njóttu” og tagganir í Laugar spa/Keflavík Airport/Litla-Hraun. Síðan væri mjög fínt að mega lögsækja fólk sem tekur mynd af manni með fullan munn af brauðrétti í fermingarveislu eða erfisdrykkju og póstar og taggar á Facebook, Instagram og Twitter áður en maður er búin að kyngja bitanum.
Taco Bell, sinadráttur og fáfræði
Hmmmm, hvað meira? Alveg rétt: Það þætti eðlilegt og maður fengi ekki „tiltal frá yfirvöldum” fyrir að hringja í 112 þegar máltíð T6 er uppseld á Taco Bell eða maður fær sinadrátt.
Og að lokum: Ég væri að sjálfsögðu forsætisráðherra. Ég gæti þannig látið sérsveitina „kanna” hvort fordómafyllstu þingmennirnir hefðu hlotið einhverja sérstaka þjálfun í að æsa upp botnfallið í samfélaginu, hvort þeir hefðu farið á einhver sérstök seminar í fáfræði eða hvort þeir hefðu nýlega heimsótt einhverjar þjálfunarbúðir í fordómum og heimsku.
Í fullkomnum heimi.