Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa eytt allavega 20 milljónum í auglýsingar í kosningabaráttunni. Það er mjög varlega áætlað, líklega er það miklu meira, bæði í framleiðslu og birtingum. Það er ekkert til sparað. Fótósjoppæfingin sem eitt sinn var þekkt sem smettið á Halldóri Halldórssyni er á öllum strætisvagnaskýlum í Reykjavík. Líka á Seltjarnarnesi og í Kópavogi. Svona bara ef einhver óákveðinn villtur Reykvíkingur skyldi sjá ljósið á meðan hann bíður eftir strætó.
Krullur úti um allt
Krullurnar hans Dags B. Eggertssonar eru allstaðar. Hverju götuhorni, hverri vefsíðu, útvarpsstöð, sjónvarpsstöð, flettiskilti og þar fram eftir götunum. Ég held að stór hluti kjósenda sé að kjósa krullurnar en ekki hann. Þær eru meira að segja í sjónvarpinu að þykjast kunna að keyra gröfu. Auglýsingin gefur til kynna að Dagur ætli persónulega að reisa þessar 3.000 íbúðir sem Samfylkingin hefur lofað, með litlu gröfunni sinni og þykku lokkunum sínum. Gott og blessað.
En getur einhver sagt mér, hvaðan koma þessir peningar? Hvar fá þessi framboð peningana til þess að auglýsa svona? Varla er John Frieda eða Shockwave Wella að dæla þessu í Dag.
Konan mín er á framboðslista Bjartar framtíðar. Til samanburðar get ég sagt frá því að kosningabarátta BF kostar eitthvað aðeins undir 3,5 milljónum. Allur peningurinn var tekinn á yfirdrætti í banka og er Sigurður Björn Blöndal, oddviti flokksins, í persónulegri ábyrgð. Peningana stendur svo til að endurgreiða með aurunum sem Reykjavíkurborg fær þeim flokkum sem komast í borgarstjórn (30 kleinur sem allir deila).
Á sama tíma held ég að Dögun sé að keyra sína kosningabaráttu á góðum dósasjóði og að Alþýðufylkingin hafi verið með einn brakandi fimm þúsundkall til að klára dæmið. Miðað við sýnileika þeirra í kosningabaráttunni má ætla að þessi seðill hafi annaðhvort týnst eða endað í spilakassa. Píratar aftur á móti nota gjaldmiðil sem við hin líklegast þekkjum ekki og eru hluti af hagkerfi sem enginn skilur. Guð blessi þetta gengi og hálsakots-skeggin þeirra.
Það er enginn að segja mér að sömu heimili og sóttu um skuldaleiðréttingu séu að ausa peningum í þessa flokka. Bæði Halldór Halldórsson og Dagur B. Eggertsson vita að hádegismatur er aldrei ókeypis, og kosningaframlög eru það enn síður. Kjósendur eiga rétt á því að vita hvaða fyrirtæki, hagsmunaaðilar og einkafélög hafa verið að dæla í þá peningum. Kjósendur eiga rétt á því að vita hverja er búið að blikka, hverjir hafa setið með í hádegismat og hverjir telja sig eiga tilkall til ákveðinni hlunninda þegar kosningum lýkur.
Júlíus Vífill með 2,5 milljónir
í Reykjavík Vikublaði kemur fram að bara Júlíus Vífill hafi fengið 2,5 milljónir frá ýmsum fyrirtækjum fyrir prófkjör sitt. Aðallega verktökum. Haldiði að Júlíus fái þessa peninga því hann syngur svo fallega? Eða tengist það frekar setu hans í skipulagsráði?
Þetta er quid pro quo. Það gerir enginn neitt fyrir neinn, sem gerir ekki neitt fyrir neinn.
Í raun er það ágætis regla að fylgjast með því hverjir augýsa mest og sneiða svo framhjá þeim framboðum. Því sem kjósandi hefur maður ekki hugmynd um hvers konar farangur þau taka með sér inn í Ráðhúsið. Að minnsta kosti ekki fyrr en eftir kosningar.
Hægt að kaupa atkvæði á ýmsa vegu
Það eru margar leiðir til að kaupa atkvæði aðrar en að lofa fólki niðurfellingu á skuldum sínum. Vinstri græn eru eiginlega á sömu Framsóknarlínu um einhvern popúlískan sósíalisma þegar þau lofa gjaldfrjálsum leikskóla. Það þarf að efla innviði leikskóla í Reykjavík, mögulega þarf einkaframtakið að eiga þar skrens. Og hvaða rökvilla er að líkja þessu við grunnskólann? Eru ekki allir nokkuð sammála að grunnskólastigið mætti alveg við meiriháttar uppfærslu? Þetta er þessi undarlega lenska vinstri manna, að heimta að allir hafi það jafn skítt, í stað þess að allir hafi það jafn gott.
En versta leiðin á atkvæðamarkaðnum er sú að höfða til lægsta samnefnarans. Að daðra við innflytjendahatur og heimóttarskap og láta eins og frjálslynt samfélag á norðurslóðum rúmi ekki hvaða trúarbrögð sem er. Kannski er ágætt að oddviti Framsóknar hafi viðrað þessar hugmyndir, til þess að undirstrika hversu lítið erindi hún á í borgarstjórn og til að draga allar þessar rottur fram úr fylgsnum sínum. Núna vitum við að minnsa kosti hvar við eigum að leggja gildrurnar og því miður gæti forsætisráðuneytið verið á listanum.
Skemmtilegra og betra samfélag
Það má vel vera að það sé gamaldags og asnalegt að gefa trúfélögum lóðir. Þeim lögum má þá bara breyta á Alþingi. En ég held að moska múslima, hof ásatrúarmanna, kirkja rússneska rétttrúnaðarins og búddahöllin verði til þess að draga úr fordómum, svala forvitni og gera samfélagið fjölbreyttara, litríkara og skemmtilegra.