Ok, þannig að núna getur Jakob Frímann Magnússon stjórnað veðrinu. Er það alveg í lagi? Var á þann mann bætandi? Ég er enn að sjá JFM titlaðan miðborgarstjóra þótt hann hafi ekki gegnt opinberri stöðu síðan Ólafur F. sór hann inn í einhverri Calígúlaískri maníu rétt fyrir hrun (hestur sem prestur og allt það). Síðan þá hefur hann í forsvari fyrir félagasamtökin Miðborgin okkar mælt göturnar eins og grunsamlega vel hárblásin öryggislögregla og flaggað sínum falsaða skildi í nafni hreinlætis og snyrtimennsku – nú síðast til að sópa í burtu draslaralegum götusölum sem voru bæði að ógna hreinni götumynd Austurstrætis og allri verslun á svæðinu með sölu á stórhættulegum heimasmíðuðum skartgripum og notuðum strigaskóm. Jakob segist reynda ekki hafa neitt á móti götusölum svo lengi sem þeir séu inni í runna, á yfirgefnum bílastæðum eða annars staðar þar sem hann þurfi hvorki að sjá þá né vita af þeim.
Það er kannski ekkert skrítið að það sé verið að berjast um hvern einasta brauðmola í miðbænum enda vilja hagsmunaaðilar meina að þessir 110 þúsund ferðamenn sem komu til landsins í júní hafi sama og ekkert skilið eftir sig í kassanum þrátt fyrir að við höfum boðið þeim upp á heilar 115 sólskinsstundir í mánuðinum, sem voru líklega allar kallaðar fram með veðurvélinni hans Jakobs í Laugardalnum. Myndin sem formaður Samtaka iðnaðarins dregur upp af hinum hefðbundna ferðamanni er samanherptur Skandinavi á sérútbúnum húsbíl sem búið er að lesta af niðursoðnum svenskum köttbullum, klósettpappír og norskri hráolíu sem svo sparekur um landið og tekur aldrei upp veskið nema til að ræna öllu sérmenntaða vinnuaflinu okkar yfir til meginlandsins.
Þetta sætir auðvitað furðu í ljósi þess að við getum boðið þessu fólki upp á að gista í gömlum vinnuskúrum, innréttuðum flutningagámum eða jafnvel að borga rétt um 100.000 krónur nóttina á íbúðahóteli í Hamraborginni sem er bæði í göngufæri við Café Catalínu og Videomarkaðinn – sem hefur unnið sér það til frægðar að hafa skilað af sér hvorki meira né minna en 36 gullpottum úr Gullnámukössum síðan árið 2002. Svo geta þau öll hrúgast í löngum biðröðum að öllum helstu náttúruperlum Íslands og ef þau eru heppin náð allavega einni mynd af Skógafossi án þess að það sé lit-samræmt þýskt eftirlaunapar einhvers staðar í rammanum. Heimsendafantasía Andra Snæs um skemmtigarð í Öxnadal er ekki svo fjarstæðukennd.
Einu tekjurnar sem hægt er að klóra úr þessu fólki er hvíta lygin sem er „bjórkælirinn“ í flestum verri matvöruverslunum miðbæjarins. Þar er búið að raða upp hrímuðum áfengislausum bjórlíkisflöskum sem grandalausir útlendingarnir hesthúsa fyrir morðfjár og hafa engin önnur áhrif upp úr krafsinu en kolvetnismettaðan svefndrunga og tíð þvaglát.
Þetta er kannski birtingarmynd eigin gremju yfir því að láta ennþá koma fram við okkur eins og börn þegar kemur að sjálfræði í bjórdrykkju þó svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé byrjaður með sitt reglulega áfengisfrumvarps-hrútaþukl þar sem þeir bísperrast yfir eigin frjálslyndi en leyfa því svo að hverfa ofan í pappírstætarann hjá afturhaldskommunum og gömlu stúkumönnunum – sem hljóta nú samt flestir að fara að drepast fljótlega.
Þannig að við skulum láta þessa útlendu nirfla éta köku – og rukka fyrir það 1.290 krónur sneiðina – því andskotinn, við eigum það skilið. Við fæddumst hérna, urðuðum og brenndum ruslið okkar hérna, spændum upp jarðveginn okkar hérna, virkjuðum okkar eigin ár, geldum okkar eigin grísi og okkur hefur nánast tekist að halda okkur ómenguðum af flóttamönnum og hælisleitendum. Okkur hefur gengið vel að móta landið í eigin mynd. Fram! Temdu fossins gamm, framfara öld.
Að öðru.
Gunnari Braga hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg síðan hann trúðaðist fyrst bjarteygur fram á sjónarsviðið með ást sína á Benidorm, Herbalife og Bill Shankly í farteskinu. Það er líkt og burstaklippti bensínstöðvarprinsinn frá Sauðárkróki hafi reist áburðarverksmiðju í hjartanu á mér því ég er farinn að bera smá hlýhug til þessa vandræðalega – stundum málhalta – ráðherra. Hann, þvert á kaldhæðni og væntingar, hafði þor í að fordæma morðárásir Ísraela á Vesturbakkanum síðustu daga. Það er meira en margur ráðherra hefur gert í gegnum tíðina. Kannski er þetta svona hlutfallsleg ást – en hvað getur maður beðið um meira?