Um helgina upplifði ég í fyrsta sinn ofsagleði yfir því að sjá mann hengja annan. Ég fann þjóðernistilfinninguna ólga innra með mér þegar hann náði að læsa sveittum og blóðugum fótleggjum sínum utan um máttvana andstæðinginn og þrengja síðan að öndunarvegi hans þar til dómari greip í taumana. Á þeirri stundu veinaði ég dýrslega og steig dálítinn drápsdans, ofurseld frumstæðum og fremur ógnvekjandi hvötum.
Hví gladdist ég svo yfir þessum ósköpum? Ekkert átti ég sökótt við andstæðinginn. Engu réttlæti var fullnægt þarna. Ég átti enga fjármuni undir úrslitunum né þekki ég hengjarann neitt persónulega. Ég veit ekki einu sinni um hvað þessi íþrótt snýst. Eina ástæðan fyrir villimannslegri sigurvímu minni þessa nóttina var sú að við hengjarinn deilum þjóðerni. Eða ég held það allavega, hann heitir reyndar Nelson.
Við vorum ein þjóð, sameinuð í sveittu blóðugu grettistaki, frjáls meðan sól gyllir haf.
Og ég var ekki ein. Lýsendur í sjónvarpssal grétu af gleði og lofuðu lífið sem aldrei fyrr, Facebook og Twitter hrundu næstum og um stund gleymdu Íslendingar öllu því sem sundrar og særir. Við vorum ein þjóð, sameinuð í sveittu blóðugu grettistaki, frjáls meðan sól gyllir haf.
Ég dvaldi um tíma í Kólumbíu á meðan Copa America keppnin stóð sem hæst. Það var áhugaverður tími. Enginn vegur var að ferðast um í borgunum þegar landsleikir áttu sér stað og ef svo fór að Kólumbía sigraði ríkti hálfgert neyðarástand á götum úti. Bílarnir spiluðu sigursöngva á flautur sínar og menn dönsuðu og sungu með langt fram á nótt, kveiktu varðelda á gangstéttum, sprengdu flugelda í fjölmenni og skutu jafnvel úr byssum í stjórnlausri kátínu.
Eitt sinn sat ég ásamt kólumbískum vinum sem rifjuðu upp ástandið þegar Kólumbía komst á átta liða úrslit á síðasta heimsmeistaramóti í fótbolta. Að mati vina minna var það meira en land þeirra réði við, enda þurfti að setja á neyðarlög í höfuðborginni Bogotá sem meinuðu sölu áfengis á meðan ósköpin gengu yfir. Í gleði sinni kveiktu menn víst í húsunum sínum og mættu ekki í vinnuna. Ha, ha, ha, hlógum við. En sú della. Mikil er okkar blessun að tilheyra jafn siðmenntuðu og yfirveguðu samfélagi og því íslenska.
Vissum lágpunkti var náð þegar ég stóð sjálfa mig að því að tárast úr stolti yfir því að dæmdur ofbeldismaður með tattú í andlitinu lofaði Gunnar Nelson og vissi hver hann var.
Sama kvöld loggaði ég mig inn á hosteltölvuna og kíkti á íslenskar fréttaveitur. Sá þá ekki betur en að Ísland væri við það að slíta stjórnmálasambandi við Þýskaland vegna illyrmislegrar níðvísu þýsks ferðamanns um land og þjóð. Blinduð af réttlátri reiði stal ég sjampói af þýsku pari sem ég deildi herbergi með á hostelinu, bara til að leggja mitt af mörkum.
Nokkrum dögum síðar kom í ljós að hann var víst að djóka. Ég skammaðist mín dálítið og skilaði sjampóinu, enda seint hægt að væna okkur Íslendinga um að geta ekki tekið djóki. Við fyrirgefum öllum allt nema leiðindi. Hann var bara ekki nógu fyndinn.
Í ljósi örlítið ýktra eigin viðbragða í þýska sjampómálinu og geðsýkislegs gleðikasts helgarinnar í kjölfarið hef ég því neyðst til ákveðinnar naflaskoðunnar. Vissum lágpunkti var náð þegar ég stóð sjálfa mig að því að tárast úr stolti yfir því að dæmdur ofbeldismaður með tattú í andlitinu lofaði Gunnar Nelson og vissi hver hann var. Mig langaði að kveikja í húsinu mínu af gleði.
Hvað veldur slíkri þjóðernissturlun hjá annars dagfarsprúðri húsmóður? Er einfaldlega svona grunnt á siðmenningunni að hið óða eðli notar hvert tækifæri til að rífa sig laust, kveikja í flugeldum og bilast? Eða hefur þetta eitthvað með brothætta sjálfsmynd lands og þjóðar að gera? Kannski er þetta samt bara ég. Það væri nú vandræðalegt.