Alltof margir í kringum mig eru í einhvers konar átaki í janúar. Mér finnst frábært að fólk sé að taka sig á og koma sér í betra form og verða betra fólk- en ég meika ekki fólkið sem ætlar að grennast, missa kíló og fækka ummálssentimetrum. Þó þið séuð vinir mínir kæru fastarar, veganúarar (kúdós ef það er af umhverfisverndarsjónarmiðum) og almennir afturhaldarar.
Eins og Tina Fey sagði á nýliðinni Golden Globe-hátíð: „Steve Carrell varði tveimur tímum í förðunarstól á hverjum degi við tökurnar á Foxcatcher - en ég varði einmitt þremur tímum í förðun í dag til að undirbúa mig fyrir hlutverkið manneskja.“
Einföldum málið gríðarlega. Við erum spendýr sem búum á norðurslóðum og erum ein fárra dýrategunda, auk læmingja, sem förum ekki í híði. Eða hvað? Hvað er þetta hygge sig í jólafríi og borða voðafínan mat og mikið smjör og vera í nýju jólanáttfötunum allan daginn annað en híði? Ég reporta alla pósta og auglýsingar um megranir og „Misstu jólaspikið strax tussan þín“ á feisaranum með „it's not relevant to me.“ Sigga Ásta vinkona merkir við „offensive.“ Ég ætla að halda í jólakílóin mín þar til það hlýnar í veðri... því þá fara þau líklega sjálfkrafa. Ég hef séð það gerast á alls konar dýrum í þáttum Davids Attenborough. Það er greinilega eðlilegasti hlutur í heimi að mynda fituforða yfir vetrartímann. Ég tek þyngdarsveiflunum fagnandi og ímynda mér voice over frá David vini mínum, en hann er einmitt uppáhaldsspendýrið mitt.
Ekki kaupa föt fyrir líkamsræktarátak
Ég vinn í herrafataverslun og nú á útsölu er fullt af fínum vörum á lækkuðum prís. Eins og gengur eru þó ekki allar stærðir í boði. Margir draga inn jólamallakútinn sinn fína og segja: „Jú, ég tekiddabara… það er nú á planinu að grennast.“ Þetta eru mikil mistök, og bendi ég mönnunum á það að þegar þeir grennast þá getur vel verið að eitthvað annað stækki þó mallinn og ástarhandföngin rýrni - upphandleggir geta breikkað og lærvöðvar tútnað út ef fólk fer allt í einu að hreyfa sig. Tala nú ekki um hjólreiðarassa sem verða safaríkir sem jólasteik þegar riddararnir setjast loksins upp á hjólfákinn með hækkandi sól (les: batnandi færð). Ráðlegg ég fólki frekar að spara peninginn, þó tuskan sé á niðursettu verði, og verðlauna sig frekar að átaki loknu þegar allt er komið í rétt… eða réttara stand.
„Þú ert alltaf svo fín í svona kjólum og þannig.“ Takk, það er bara af því að geimskiparassinn minn passar ekki í buxur ætlaðar venjulegum konum.
En aftur að auglýsingaborðum internetsins. Einhvers staðar var skemmtileg pæling, sem fjallaði um það hvað ofboðslega mörg fyrirtæki myndu fara á hausinn á innan við viku ef allir myndu vakna einn daginn fullkomlega sáttir í eigin skinni. Ég veit, ég er meiri hræsnari en Elín Hirst að segja qu’elle est Charlie með þessari grein því ég ver (skrifaði næstum eyði) gríðarlegum fjármunum í föt, meiköpp, hálsmen og hárlenginar sem ég kaupi í erlendum dragdrottningabúðum… en samt. Pælum aðeins í þessu. Eins og Tina Fey sagði á nýliðinni Golden Globe-hátíð: „Steve Carrell varði tveimur tímum í förðunarstól á hverjum degi við tökurnar á Foxcatcher - en ég varði einmitt þremur tímum í förðun í dag til að undirbúa mig fyrir hlutverkið manneskja.“
Kvöl og pína að kaupa buxur
Djöfull verð ég lítil í mér þegar kemur að því að kaupa mér föt. Fyrir nokkrum árum fór ég að ganga nær alfarið í kjólum vegna þess hversu mikil kvöl og pína það er að kaupa buxur á konu með almennilega barnakörfu. Þó ég sé stórgerð eins og ég á kyn til þá er ég ekki einhver mörgæs, heldur í fínasta formi og vinn meðal annars sem danskennari, kemst í splitt (ég varð að koma þessu að, sorrý með mig) og um daginn stjórnaði ég æfingu hjá þýska handboltalandsliðinu. Samt er erfitt fyrir mig að finna buxur nema í óléttu- eða breytingaskeiðsbúðum og þá eru sniðin ekki samkvæmt mínum smekk. „Þú ert alltaf svo fín í svona kjólum og þannig.“ Takk, það er bara af því að geimskiparassinn minn passar ekki í buxur ætlaðar venjulegum konum. Ég er samt í átaki að reyna að finnast það ofsalega fyndið að það séu ekki til föt á konu eins og mig í búðunum sem mig virkilega langar til að gefa peningana mína. Í alvöru - HJÁLP! Þessir peningar allir eru að brenna gat á veskið mitt.
Djöfull erum við öll sæt og fín krakkar, ha. Hættum að styrkja World Class og styrkjum UNICEF í staðinn. Hættum að einblína á kílóin og losum okkur frekar við forpokað fólk af Alþingi.