Í sól og sumaryl um daginn keypti gleðisprengjan móðir mín sundlaug í Rúmfatalagernum. Hún var blásin upp og fyllt vatni á afmælisdegi hennar. Við systurnar (þrjátíuogeins og tuttuguogtveggja) ásamt tveimur mun yngri frændsystkinum nutum laugarinnar, mitt í miðbænum. Loksins útisundlaug í 101. Að sjálfsögðu var þetta dokkúmenterað og sumarlegar myndir settar á internetið, og ekki leið á löngu þar til gömul frænka skrifaði „til hamingju með móður þína á afmælisdeginum hún þarf að fá barnabarn til að leika við.“
Plöturispuhljóð. Þessu var beint til okkar systrana, líklega meira til mín þar sem ég er eldri. Ég er viss um að hún frænka mín meinti ekkert illt með þessu - bara eitthvað svona samfélagslegt norm sem ég er ekki að fylla í eða eitthvað, já og kynslóðabilið. Ég veit ekki til þess að ég eigi við frjósemisvanda að stríða. En það gæti samt alveg vel verið og þá gætu þessi orð sært eða kroppað ofan af sári.
Ég þarf að sinna öðru núna sem er einfaldlega ekki hægt samhliða móðurhlutverkinu. Nú er ég t.d. á sirkusferðalagi og sé um tuttugu og eitthvað fullorðna einstaklinga og það er nógu erfitt, samt þarf ekki að mata þá, klæða og halda á þeim út um allt.
Ég er þrjátíuogeins. Þegar mamma mín átti mig var hún tuttuguogsjö og pabbi þrjátíuogfjögurra - og fólk var í alvöru með það á hreinu að eitthvað væri að í kjallaranum því þau voru svo agalega sein í því. Svo var þó ekki, held ég, þau hafa alltaf talað um að þau hefðu ekki verið tilbúin fyrr en þá. Ég er allavega ekki tilbúin aaaalveg strax. Ég þarf að sinna öðru núna sem er einfaldlega ekki hægt samhliða móðurhlutverkinu. Nú er ég t.d. á sirkusferðalagi og sé um tuttugu og eitthvað fullorðna einstaklinga og það er nógu erfitt, samt þarf ekki að mata þá, klæða og halda á þeim út um allt. Vinnan mín að vetri til snýst að mestu um að vinna á kvöldin og um helgar - á tíma þar sem ekki er leikskólatími. Ég tala nú ekki um ef ég fengi grindargliðnun á meðgöngu - þá myndu tekjur mínar rýrast allsvakalega.
Fyrir utan hvað ég egósentrísk og allt það.
Af hverju er ófrjósemi svona mikið feimnismál? Fjöldi fólks glímir við þetta. Einhverjir stíga fram og segja sína sögu og alltaf er fólk í sömu sporum þakklátt að það sé verið að opna umræðuna um ófrjósemi. Hvað á að gera? Eigum við frekar að spyrja: Færð þú egglos? Má ég þá spyrja hvort þú ætlir ekki að drífa í að nýta þessi egg eitthvað? Hvernig synda sæðisfrumurnar hjá þessum manni sem þú ert að sofa hjá?
Þessi persónulega spurning um barneignir lifir. Ég mæli með því að sem flestir sem eiga við frjósemisvanda að stríða svari þessu „Hvenær ætlið þið að koma með eitt lítið?” á eins hreinskilinn hátt og mögulegt er. Þá kannski hættir fólk að gera ráð fyrir að það að eignast barn sé eðlilegasti og auðveldasti hlutur í heimi og lógískasta sambandsframhaldið.
Svo það er ekki eingöngu verið að gera ráð fyrir að allir geti eignast börn - það er verið að gera ráð fyrir að allir eigi monnís.
Ekki nóg með að ófrjósemi sé feimnismál heldur er hitt sem snýr að mínum framtíðarplönum ennþá meira feimnismál: Fjárhagsstaða. Svo það er ekki eingöngu verið að gera ráð fyrir að allir geti eignast börn - það er verið að gera ráð fyrir að allir eigi monnís. Í vor heyrði ég á tal tveggja manna: „Jájá, þetta er ekkert mál. Maður leggur bara fyrir svona fimmtíuþúsund kall á mánuði…“ Ekki veit ég í hvaða vídd þessir menn lifa, en þeir voru samt einhvern veginn á næsta borði við mig.
Húsnæðis- og leigumarkaðurinn er í volli. Eins og staðan er í dag eru skábörnin mín tvö saman í herbergi, 12 ára og 8 ára. Stundum gengur það vel og stundum er fullmikill kýtingur. Gelgjan knýr dyra innan skamms og ég veit ekki alveg hvernig stemmingin verður þá.
Móðir mín þarf ekki barnabarn. Hún þarf að hvíla sig. Hún er að djöggla tveimur vinnum og ef ég kæmi nú með eitt lítið þá myndu foreldrar mínir fórna sér endalaust fyrir það - vilja passa, þvo, hjálpa til, þrátt fyrir að batteríin þeirra væru alveg að verða búin. Ég krossa bara fingur að þau fái sér ekki ömmu og afa-vegglímmiða; „Hér má allt. Fullt af knúsum. Alltaf popp og nammi og mynd.“
Jú, það væri alveg hægt að skella í eitt og ströggla. En ég nenni því ekki og gleypi því skaðlegar hormónapillur á hverjum degi.
Við skulum ekki gleyma pöbbunum, mínum eigin og þessum sem ætti að vera með mér í þessu. Minn pabbi yrði eflaust frábær afi þó hann segi sömu sögurnar oft. Maðurinn minn er nú þegar frábær pabbi - og hann á tvö dásamleg börn fyrir. Það er ekki pláss fyrir eitt til viðbótar eins og staðan er í dag. Við búum ekki saman ennþá, og það þyrfti auðvitað að prufukeyra það áður en ein manneskja til viðbótar mætir á svæðið. Kærastinn minn er að fara í nám í haust, svo að safna fyrir stærri íbúð er eitthvað plan sem er ekki að fara í gang á næstunni, sjá ummæli húsnæðis- og félagsmálaráðherra um námsmenn, námslán og þess háttar.
Jú, það væri alveg hægt að skella í eitt og ströggla. En ég nenni því ekki og gleypi því skaðlegar hormónapillur á hverjum degi.
Í fullyrðingunni að barn þurfi að koma í heiminn er ekki gert ráð fyrir neinum vandamálum, hvorki á frjósemis- eða fjármálasviði. Kannski get ég það ekki. Kannski höfum við einfaldlega ekki efni á því. Langar okkur í eitt barn til viðbótar? Kannski. Við höfum allavega ekki tíma í það núna. Ég hef efni á því að eignast barn og tíma í það þegar ég verð komin úr barneign.