Hæ krakkar og nú er ég sérstaklega að tala við ykkur sem eruð með mér í því að vera meðaljónar. Og ég veit að ég næ eyrum margra núna því við meðaljónarnir erum fleiri en okkur grunar. Við bara vitum ekki hvert af öðru því við reynum alltaf að láta lítið á okkur bera og tölum aldrei saman. Hingað til höfum við ekki þorað fyrir okkar litla rúmfatalagerslíf að láta rækilega í okkur heyra því við viljum ekki draga athyglina að því hvað við erum í raun miklir lúðar. Sem við erum.
En nú er komið nóg af því að læðast meðfram veggjum með allt okkar glataða dót og glötuðu meiningar í eftirdragi. Nóg komið af því að þjást í hljóði allan liðlangan daginn. Að okkur er sótt úr öllum áttum og nú verðum við að standa saman til að verjast.
Hvernig er þetta til dæmis þegar við förum út til að viðra okkur rétt aðeins? Hverjum hefði dottið í hug fyrir ekki nema ári síðan að í dag yrði ekki hægt að drattast á hlaupagallanum út í Gróttu án þess að fá hjólreiðamenn í oddaflugi framhjá sér á 60 kílómetra hraða sem nánast klippa af þér útlim ef þú svo mikið sem misstígur þig á vitlausu mómenti? Allir í eins dressum á mjög alvarlegum keppnishjólum sem kosta meira en bílskrjóður venjulegrar fjölskyldu. Loksins þegar maður var orðinn ánægður með sitt heiðarlega fjallahjól eða skokkaragræjur þá kemur þetta. Því auðvitað og enn ekki hvað er maður alltaf skrefi á eftir. Loksins stokkinn um borð í maraþonlestina að myndast við að jussast eftir stígum og hólum og hæðum og þykjast vera að æfa fyrir maraþon en nei nei, þá er liðið sem hljóp fjögur maraþon í fjórum heimsálfum fyrir þremur árum hjólandi upp og niður Esjuna í beinni. Löngu búið að láta bræða hlaupaskóna saman í stóra ljósakrónu sem hangir á Kaffi Vest. Því allt skal nýta. Annars ertu illmenni.
Loksins stokkinn um borð í maraþonlestina að myndast við að jussast eftir stígum og hólum og hæðum og þykjast vera að æfa fyrir maraþon en nei nei, þá er liðið sem hljóp fjögur maraþon í fjórum heimsálfum fyrir þremur árum hjólandi upp og niður Esjuna í beinni.
Nánast allsstaðar er einhver að taka þátt í samsærinu gegn okkur. Tökum heildsalana sem dæmi. Maður er kannski nýbúin að skella matta blómavasanum með geitahárunum frá Zakynthos út í glugga og kaupa nýjasta blenderinn með réttu hnífsblöðunum sem eyða ekki næringarefnum úr grænmetinu og þá er þetta lið í heilu utanlandsferðunum þar sem það sækir sérstakar sýningar um hvernig það getur snúið á okkur lúðana. Þetta kemur með nýtt djönk „að utan”, helst úr konseptbúð, og alltaf skal passað upp á að láta okkur ekki vita fyrir fram hvað í vændum er. Og svo er maður bara: Fokk. Þetta er eins og þegar allir mættu á bekkjarballið með spreyjað hárið en létu þig ekki vita. Enn á ný er maður lentur undir hjólahjörðinni.
Og ekki finnur maður frið á samfélagsmiðlunum ef flótti í netheima átti einhvern tímann að vera lausn mála. Um daginn silaðist ég inn á Twitter og ákvað að „vera þar” af því ég er svo ótrúlega fyndin og sniðug, að ég hélt. Næsta dag sá ég svo einhverja þrjúþúsundsinnum sniðugri týpu en mig skrifa: „Ekki lengur hægt að vera hérna, það eru allir komnir hingað, Twitter er að breytast í Facebook. #ástæðurtilaðhættaátwitter”. Svo, á góðri viku þegar mér finnst ég sjúklega hress og keppist við að vera fave-andi og rí-tvítandi (ég veit ekki einu sinni hvort þetta séu réttir frasar, sennilega ekki) þá fækkar í follower hópnum mínum, sem hljóp nú ekki á neinum hundruðum fyrir.
Um daginn silaðist ég inn á Twitter og ákvað að „vera þar” af því ég er svo ótrúlega fyndin og sniðug, að ég hélt.
Svo er maður kannski nýbúin að læra að það er sniðugt að hakka döðlur út í ógeðsgræna djúsinn. En þá er auðvitað komið eitthvað nýtt og „betra” rugl í gang. Já já, eitthvað nýtt farið að trenda sem enginn segir manni frá. Ekki fyrr en maður mætir í ræktina (ef ég færi í ræktina) með döðlubitana fljótandi í brúsanum eins og hakkaðar fiskiflugur á meðan allir hinir eru að sprauta sig með ólífuolíu beint frá jórdönskum bónda.
Síðan er það harmsagan um heimilið. Loksins þegar maður drullast til að mála stofuna í antík-beint-frá-burði-milda-milli-brúna tóninum og býður nágrannanum til að sjá er manni boðið til hans á móti og uppgötvar sér til skelfingar að strákarnir hjá „Veggur og fóður” eru nýbúnir að veggfóðra alla veggi grannans með netagrænum lit sem virkar hvítur ef þú ert með rauða áru og nafnið þitt endar á sérhljóða. Annars virkar þetta gult. Eða bara það sem þú vilt. Þið vitið. Auðvitað vitið þið. Annað en við.
Niðurstaðan í þessari vitleysissúpu er sú að maður á ekki séns. Þetta fólk finnur alltaf leið til að snúa á mann.
Niðurstaðan í þessari vitleysissúpu er sú að maður á ekki séns. Þetta fólk finnur alltaf leið til að snúa á mann. Það er alltaf einhver tilbúinn til að gera dótið manns glatað. Einhver sem bíður handan hornins með týpuganginn að vopni. Alltaf einu smartara skrefi á undan.
En auðvitað verður þetta allt í lagi. Við meðaljónarnir höldum bara okkar venjulega, útreiknanlega striki og reynum að vera hressir. Reynum að gera okkar besta. Við verðum mættir í góðu stuði á keppnishjólin næsta sumar þegar allir hinir verða farnir á pandatamninganámskeið í Kína til styrktar kóralrifunum í Suður-Kyrrahafi.