Muniði eftir stigagjöfinni í Júróvisíón um síðustu helgi? Á eftir öllu þessu bláókunnuga evrópska sjónvarpsfólki, fremjandi hvern tískuglæpinn á fætur öðrum, sveif Nigella inn á skjáinn á mjög krítískum tímapunkti eins og verndarengill allra sem vita hvað það er að finna til í hjartanu og sálinni. Með hlýju sinni, glettni og speki sameinaði hún Evrópu þannig að öll álfan hlýtur að hafa fundið kjötbollulykt í bland við súkkulaðikökuilm með dassi af flóaðri kanilmjólk. Mér leið á tímabili eins og hún hefði getað fært okkur heimsendafréttir strax á eftir bresku stigunum: „Korter í loftstein kæra Evrópa, kyssiði börnin ykkar bless, mokiði síðustu slettunni af mæjósalatinu upp með flögu og takið svo nokkur skot (enginn morgundagur svo engin þynnka).” Nigella þekkir okkur. Mér hefði ekki brugðið ef hún hefði sagt: „Og kæra Ísland, viljiði ekki bara sleppa þessu Júródæmi? Hér er spákúla og ég var að komast að því að þið munuð aldrei vinna þessa keppni.” Þjóðin hefði líklega sameinast um eitthvað í eina skiptið í sögunni og hætt þátttöku í mikilli sátt.
Væri lífið ekki gott ef þetta væri bara allt svona? Ég sæi Alec Baldwin til dæmis fyrir mér í veðurfréttunum, röltandi um í jakkafötum og lakkskóm fyrir framan kortið af lægðasúpunni yfir Íslandi, á fimmtudeginum fyrir fyrstu helgina í júlí, brosandi út í annað. Svo segði hann með djúpri og ögn hásri röddu: „Lægð í allt sumar krakkar og meðalhitinn 7 stig, en svona er þetta bara, þið þekkið þetta.” Ég mundi sætta mig við fellibyl daglega með þennan mann í brúnni. Komdu óveður, komdu eymd, komiði hamfarir, okkur er alveg sama því Alec er með okkur í þessu.
Ég mundi síðan vilja sjá stórvinkonu mína Kim nokkra Kardashian á símanum hjá Tryggingastofnun. Því þá, þegar vinkona mín sem á dótturina með hjartagallann þarf að bíða í tuttugu mínútur í símanum eftir því að fá að vita að hún þurfi víst að bíða í enn fleiri vikur eftir því að komast að því hvort og þá hvenær og hversu mikið hún fái mögulega í umönnunarbætur því hún getur bara unnið hálfan vinnudag vegna veikinda barnsins, getur Kim hughreyst hana og verið bara: „OMG, I am so sorry, let me see, I totally understand what you’re saying but there’s nothing I can really do.” Þið vitið. Smá svona kontakt og skilningur og svona. Slagurinn við kerfið yrði einhvern veginn aðeins minna blóðbað með Kim á hinum enda línunnar.
Og svo þegar ég las Forbes listann yfir „áhrifamesta fólk í heimi” þar sem Vladimir Putin sat á fordómafulla afturendanum í fyrsta sæti með 45 karla og 5 konur á eftir sér hefði verið gott að hafa eftirfarandi: Meryl Streep á kantinum að lesa listann upphátt í bundnu ljóðaformi. Hún hefði tekið langar pásur inn á milli til að andvarpa ala Hús andanna og rétt mér svefnpillur þegar ég hefði óskað eftir þeim af augljósum ástæðum.
Á persónulegu nótunum þá hefði ég dílað svo miklu betur við lokun McDonalds ef Barack Obama hefði sagt mér frá þeim ótíðindum frekar en að hafa þurft að sjá fréttina á einhverjum árans fréttamiðlinum í óvernduðu umhverfi vinnu minnar. Og að þurfa síðan að díla við háðsbloggin um lokunina (já, þetta var á bloggtímabilinu þegar fólk var bara „heyr heyr” allan daginn um allar fréttir), mér verður flökurt af því að rifja þetta upp. Yfir í annað.
Væri til dæmis ekki miklu betra að heyra það frá Bill Murray í góðum gír frekar en ráðamönnum að staðan á húsnæðismarkaðnum sé þess eðlis að „börn” þurfi sennilega að búa í kjallaranum hjá mömmu og pabba þangað til þau verða sextug? Við Bill gætum farið í bíltúr og fengið okkur ís á meðan hann segði mér að vandamálið með mig væri hvað ég sé í lélegum tengslum við raunveruleikann og að fjölmiðlar séu í raun bara að fokka mér upp. Ástandið sé bara fa-lott. Þetta sé ég. Ekki hann.
Það er þetta með skilninginn og traustið krakkar mínir. Lífið er nefnilega áranum erfiðara á köflum og það er bara allt í lagi að leyfa sér að hugsa: Hvernig hefði þetta allt saman getað verið huggulegra fyrir mig?
PS. Ef keisaraskurði vinkonu minnar, sem er planaður vegna mikillar áhættumeðgöngu, verður frestað vegna verkfalla vil ég að Tina Fey segi mér frá því og rétti mér svo Hlöllabát. Og valíum.