Nú eru margir í verkfalli, á leið í verkfall eða að hugsa um að fara í verkfall. Ég sýni öllum samúð sem fá allt of lítinn launaseðil hver einustu mánaðamót. Og: Það eru ekki bara læknar sem eru með léleg laun miðað við fólk í sambærilegu starfi annars staðar í heiminum, heldur við öll. Við erum öll á grínlaunum miðað við sambærileg störf í nágrannalöndunum. Auk þess er maturinn okkar dýrari og úrvalið minna.
„Peningar eru ekki hamingjan.“ Sá sem sagði þetta er einhver sem aldrei hefur upplifað það að eiga ekki pening. Peningar eru bara helvíti mikilvægir. Bara í kringum mig eru peningar stór uppsretta illinda, eiginlega eina uppsprettan. Ég hef hagað lífi mínu þannig að kjósi ég svo get ég unnið 70 klukkutíma á viku þegar heimabankinn nálgast núllið; ekki af því að mér finnst gaman að vinna, sé athyglissjúk eða vinnualki. Mér finnst bara leiðinlegt og erfitt að eiga ekki pening.
Mikilvægt að geta „höstlað“
Ég er nýbúin að fatta að það eru ekki allir í sömu höstlerastöðunni og ég. Ef ég er á kúpunni einhver mánaðamót hef ég tækifæri á að höstla. Ég tek að mér meiri danskennslu, tek nokkur sirkusgigg, læt umboðsskrifstofur vita að ég er geim í veislustjórn og plötusnúðun og hef samband við HúrraBravó um hvort ég geti ekki spilað lög eða haldið karaokekvöld. Hinn venjulegi maður með einn titil er ekki í þessari aðstöðu. Þegar ég bjó erlendis voru allir alltaf að safna fyrir leigunni og við hjálpuðum hvert öðru að láta hlutina ganga upp. Þrjú kvöld í viku magadansaði ég á fínum klúbbi en það var ekki nóg svo ég tók sveittar glasabarnavaktir og þreif kokkteilaælur. Það þurfti að kenna þessari glimmerdís auðmýkt. Ég fékk líka gigg við að selja bingóspjöld og sýna vinninga í drag queen bingó. Besta vinnan var að aðstoða meðleigjandann sem var ljósmyndari með því að rétta honum linsur og veita ráðgjöf um fegurð karlmanna þegar kom að því að velja módel.
Sérhæfing og ofsalega langt nám virðist nefnilega vera leiðin til launaseðilsglötunarinnar, nema þú viljir taka ómannlega mikið af aukavöktum eða búa á stað þar sem þú vilt ekki búa.
Þegar ég var í menntó þótti nokkrum agalega fyndið að stjörnufræðikennarinn væri líka pizzasendill. Í grínmyndabókinni Faunu var hann með Dómínósderhúfuna og hitatösku. Einhverjir gerðu lítið úr þessu, með engann skilning á launakjörum framhaldsskólakennara. Svona er þetta á mörgum heimilum því það verður að láta hlutina ganga upp. Pabbi minn er kennari sem er líka blómasendill og tekur að sér prestagigg. Mamma mín vinnur í miðasölu, í blómabúð og gengur stundum beina í veislum. Þetta er bara eðlilegt í okkar fjölskyldu. Þarna eru líka leikarisöngvarileiðsögumaður, nemimódelleikarihljóðmaður og heildsölukonahestameistari. Þetta er fáránlegt. Til að ná endum saman er öll familían í 150 prósent vinnu eða meira. Við hittumst sjaldan öll - það er alltaf einhver að gigga. Og nei, þetta er ekki fanatískur óður til hugtaksins dugnaður. Ég er ekki dugleg.
Ekki setja öll eggin í sömu körfuna
Eina sem ég ætla að kenna framtíðarbörnunum mínum er að setja ekki öll eggin í sömu körfuna, að halda eins mörgum boltum á lofti og hægt er. Ekki sökkva þér svo mikið í námið að þú getir ekki djögglað fjórum vinnum á sama tíma. Barnið mitt, smyrðu þér ofsalega þunnt. Til að eiga séns á að leggja eitthvað fyrir þarftu að vera í mörgum, mörgum vinnum. Sérhæfing og ofsalega langt nám virðist nefnilega vera leiðin til launaseðilsglötunarinnar, nema þú viljir taka ómannlega mikið af aukavöktum eða búa á stað þar sem þú vilt ekki búa.
Athugið. Félag afgreiðsludama sem eru líka sirkuslistamenn, danskennarar, pistlahöfundar, plötusnúðar, karaokedýr, atvinnuplöggarar, íhlaupasjónvarpskonur og veislustjórar boðar til sólarhringsverkfalls næsta sunnudag til að mótmæla því hversu ógeðslega mikið þarf að vinna til að ná endum saman. Neyðarlög verða samt sett milli 14 og 19. Ég meina, það þarf nú að eiga fyrir jólamatnum.