Lengi vel töldu eldri frændur og foreldrar mínir mér trú um að ég væri óþolinmóðasta manneskja heims. Eftir að hafa starfað sem óskalagaþeytir, karaokedrottning og miðasölukona í sirkus get ég með sanni sagt að þarna úti er fólk með hættulega stutta þræði.
Í karaoke og óskalagaþeytingum er ég að sjálfsögðu að díla við fólk sem hefur lagt meira á lifur sína það kvöldið en ég. Það hefur brenglað tímaskyn og virðist gjarna eiga afmæli, og því eigi það rétt á sínu lagi – núna. Fyrir um tíu árum var fáránlega drukkinn strákur á Kofa Tómasar frænda sem bað um óskalag því jú, hann átti afmæli. Lagið sem hann bað um var Don’t Fear the Reaper.
Ég las strax að þessi drengur var ekki sérstakur aðdáandi Blue Öyster Cult, og var líklega bróðir minn í aðdáun á skets með Will Ferrell úr Saturday Night Live þar sem hann á stórleik með kúabjöllu. „Já, það er bara næsta lag,“ sagði ég með bros á vör og hlakkaði til að sjá afmælisdrenginn losa um mjaðmirnar, ef til vill spilandi á tómt bjórglas með lykli í stað kúabjöllu og kjuða. Ég setti lagið á og hann gaf mér svona „woddafokkeiginlega?“-svip, kom askvaðandi að mér og sagði: „ÞÚ SAGÐIR NÆSTA LAG!“ Ég hallaði tölvunni til hans - „Já, ég er að spila það. Kúabjallan er ekki eins há í laginu sjálfu og í sketsinum.“ Hann snerist á hæli, án þess að biðjast afsökunar, og hóf að dansa þennan kúabjölludans fyrir vini sína.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_21/70[/embed]
Bjútíið við afmælisóskabörnin er að það er alltaf hægt að snúa leiknum við. „Enéáammmmæææææli….“ er mjög auðvelt að svara með „Í ALVÖRU? ÉG LÍÍÍÍKA!!!“ Og taka svona tryllingsknús/-skál. Viðbrögðin við þessu eru oft svo fölsk að það er alveg á hreinu að viðkomandi á alls ekki afmæli. Í karaoke-inu, já eða syngjóinu eins og ég vil kalla þetta á íslensku, er þetta enn erfiðara því þar er fólk drukkið, smá stressað, æst og með fiðrildi í maganum. Gullin regla þar er að þeir sem eru frekastir eru oft með leiðinlegustu lögin, verstu röddina og lélegustu sviðsframkomuna.
Sumarið hefur að mestu farið í að díla við allsgáð fólk – oft leiðandi börn, sem segir „Hvað meinarðu að sé uppselt? Ég keyrði alla leið frá __ og þú segir mér að það sé uppselt?“ Við segjum að okkur þyki þetta leitt, miðarnir hafi verið í sölu frá miðjum maí og svona sé þetta nú bara… „Hvað á ég að segja við börnin mín? Ég var búinn að segja þeim að við værum að fara í sirkus NÚNA.“ Ég veit ekki hvað þetta fólk ætti að segja við börnin sín. Mig langar að sjálfsögðu að vera eitthvað sniðug og hreyta einhverju til baka en ég legg mig fram um að haga mér vel fyrir framan börn.
Eina konu heyrði ég hvísla að ungunum sínum: „Mamma reddar þessu,“ og svo sneri hún sér undan og þegar hún leit upp var hún útgrátin. Þetta virkaði kannski í röðinni á Sjallanum, en ekki í þessu samhengi – „Það er í alvöru ekki pláss fyrir fleiri í sirkustjaldinu, ég myndi selja þér miða ef ég gæti. Það er nóg laust á sýninguna á morgun.“ Hún móðgaðist og labbaði í burtu – en kom aftur næsta dag, og varð brjáluð yfir því að það væri líka uppselt á þá sýningu. Mig langaði að minna hana á að hún hefði getað komið í veg fyrir þetta deginum áður, en ég held að það hefði engu skilað nema gremju hjá henni og ekki nema 10 sekúndna gleði hjá mér.
Ég held að þessi núnastrax-tilhneiging sé beintengd „þetta reddast“-pælingunni, sem er frábær upp að vissu marki. Í flestum tilfellum reddast nefnilega hlutirnir, en stundum eru margir sem vilja redda sama hlutnum núnastraxídag og þá vandast málið. Hér væri hægt að setja sniðugt gif með íslenskum biðröðum þar sem ekki er númerakerfi.
Við erum öll að gera mikilvæga hluti á síðustu stundu. Ég held að ég þekki engan sem hefur sótt um vegabréf með góðum fyrirvara, langoftast er þetta rétt fyrir flug og myndin í vegabréfinu er með svona ófokk-augnaráði. Svo ekki sé minnst á Þorláksmessutryllinginn.
Jæja, best að fara að redda rafmagni og interneti fyrir syngjóið á laugardaginn. Það þarf að gerast í dag.