Ég á tvö börn með tveimur konum. Pilt og stúlku. Pilturinn er þriggja ára. Hann fæddist ekki inn í neins konar samband né sambúð en ég og móðir hans höfum alið hann upp í sameiningu frá fæðingu. Þegar hann var 18 mánaða gamall fór hann á leikskóla og hefur síðan þá dvalið eina viku hjá mér og þá næstu hjá mömmu sinni. Þær vikur sem hann er ekki með mér gengur kærasti hennar honum í föðurstað og þær vikur sem hann er hér er unnusta mín mamma hans. Hann er drengurinn okkar allra. Þar af leiðandi á hann líka næstum því tíu ömmur og afa.
Þetta er nýja fjölskyldumynstrið sem sumir hafa áhyggjur af. En ekki ég. Það er bara margfalt meiri gleði og ást í loftinu.
Flækjustigið er ekki einu sinni eitthvað sérstaklega hátt. Skiptumst á að hafa hann á jólum og áramótum, höldum barnaafmæli í sameiningu. Sendum myndir af honum og hans bralli á milli þegar eitthvað skemmtilegt hendir, og oftar en ekki er ömmu og afa hersingin CC-uð með. Það er ekkert meðlag. Við skiptumst á að borga leikskólagjöld og öðrum tilfallandi kostnaði er deilt þegar hann kemur upp. Það er engin kergja. Ekkert passíft agressíft viðmót. Engin kaldhæðni eða biturð. Pilturinn er ekki yfirheyrður um gang mála á hinu heimilinu, eða bannað að tala um hvað mótorhjól afa síns sé flott. Mér fannst fyndið að heyra að stjúppabbi hans svæfi alltaf á typpinu og ég veit að þeim finnst gaman að heyra hann tala um litlu systur sína, sem er að hans sögn með mjúkt bak. Þetta er bara lífið eins og það á að vera. Allir kátir.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_26/78[/embed]
Ég í „Aldrei án dóttur minnar“-gír
Þar sem drengurinn fæddist ekki inn í skráða sambúð eða hjónaband hefur hún haft forræðið. Við ætluðum að breyta þessu um daginn. Fyrir mér var þetta ofsalegt réttlætismál og ég var í massífum Aldrei án dóttur minnar-gír niðri í Skógarhlíð, þar sem sýslumaðurinn í Reykjavík er með sitt klúbbhús.
Konan sem tók á móti okkur var indæl. En viðmót hennar var eins og hún væri að sætta deilur.
Í fljótu bragði virðast réttindi mín ekki hafa breyst neitt, nema ég varð að skrifa undir pappír þar sem ég skuldbind mig til þess að borga meðlag, gagnvart löggjafanum að minnsta kosti. Kerfið á víst engin úrræði fyrir fólk sem vill bara deila kostnaði. Hún ætlar svo sem ekki að innheimta meðlagið, en mér finnst mjög óþægilegt að vita til þess að löggjafinn heimti að ég borgi þetta. En ef þau lenda í klóm mannræningja þegar hann verður 17 ára? Óbilgjarnra náunga sem fara að búa heima hjá þeim og krefja hana um að rukka allt meðlagið aftur í tímann? Þetta er ekkert mjög óþægilegt fyrir mig, en samt.
Konan ítrekaði oft að réttindin væru algjörlega þeim megin þar sem barnið er með lögheimili og ef deilumál kæmi upp væri hægt að leita til sýslumanns upp á sættir.
Hættur að vera skoðanaglaður imbi
Hvaða kjaftæði er þetta? Af hverju gerir kerfið ráð fyrir því að annað foreldrið (yfirleitt faðirinn) sé ónytjungur og að samskiptin séu í molum? Af hverju getum við ekki sem erum að ala upp lítinn sjomla í mesta bróðerni ekki bara mætt þarna upp eftir og sagt: svona viljum við hafa það, reddið essu?
Hvar er motherfokking mannúðin, og trúin á hvað við erum öll æðisleg. Það má vel vera að breyta þurfi lögunum svo að hægt verði að dæma sameiginlegt forræði og tvöfalt lögheimili barna og allt það. Höfum öryggisnetið strengt hátt og þétt í öllum þeim tilvikum þar sem það á við. En við verðum að komast til móts við fólk sem er með allt sitt á hreinu og ekki með því að beygja það undir forræðisdeilu-garganið allt saman.
Annars er ég hættur að hafa skoðanir á hlutunum eftir kosningarnar í vor. Greip sjálfan mig við að breytast í það sem ég þoli ekki – skoðanaglaðan imba. Ætla að nota sumarið í að þróa með mér nýjar skoðanir og helst læra að sitja á þeim.
Fyrir fjórum árum neitaði Jón Gnarr að fara í meirihlutastarf nema með fólki sem hefði séð sjónvarpsþættina The Wire. Merkilegt hvað endapunkturinn í sögu Besta flokksins er Wire-esque. Allt þetta tal og barátta fyrir mannréttindum og kviss búmm – Framsókn fær tvo fulltrúa í borgarstjórn á ógeðfelldum forsendum.
Call it a crisis of leadership – Prop Joe.