„Er ekki hægt að skifta um höfuðborg , Keflavík væri fín“ [sic]
Þessi orð voru slegin með titrandi, uppgefnum fingrum inn í athugasemdakerfisglugga DV.is af miðaldra manni sem virðist fyrst og fremst starfa við að halda með Liverpool ef Facebook-prófíll hans málar upp rétta mynd af veraldlegri tilvist hans.
Þetta er í raun ekki afleit hugmynd. Í staðinn fyrir langar raðir fyrir utan Bæjarins Bestu myndu erlendir ferðamenn njóta þess að skella í sig einum Villaborgara, taka myndir af sér við hliðina á steyptu fótsporum Rúna Júl og kíkja á einn leik í TM-höllinni. Akureyringar mundu eignast nýjan erkióvin til að keppast við um hver geti sett mesta kjaftæðið ofan á pizzu, og stærsta réttlætismál okkar lífstíðar, flugvöllurinn í höfuðborginni, væri sjálfleyst.
Tilefni þessarar slysa-skynsömu framtíðarsýnar var frétt sem fjallaði um að Reykjavíkurborg hefði samþykkt viðskiptabann á vörur frá Ísrael. Aðgerðin er líklega að mestu leyti táknræn, nema öll „Reyklaus á Toppnum“-plakötin með Vigni og Birgittu í Íráfári hafi verið prentuð í Tel Aviv.
Hann setti svo upp álpappírshattinn og sagði að þessi sama borgarstjórn hefði samþykkt að „öfgafyllsti hópur Múslima byggi Mosku á besta stað í Reykjavík fyrir fé frá Saudi-Arabíu, Flóaríkjunum og Eðlufólki“ líkt og til að sanna að hans persónulegi rasismi taki meira í bekk en rasismi Reykjavíkurborgar.
Þessi litla tilraun til þess að færa pólitíska afstöðu í verk var samt nóg til þess að særa Kanarí-tönuðu múmíu Jóns Magnússonar úr pólitískri gröf sinni og láta hana veina um að svona verknaður sýndi rasískar tilhneigingar af verstu gerð. Hann setti svo upp álpappírshattinn og sagði að þessi sama borgarstjórn hefði samþykkt að „öfgafyllsti hópur Múslima byggi Mosku á besta stað í Reykjavík fyrir fé frá Saudi-Arabíu, Flóaríkjunum og Eðlufólki“ líkt og til að sanna að hans persónulegi rasismi taki meira í bekk en rasismi Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gengu ekki alveg jafn langt og framliðni flokksfélagi þeirra en sögðu að þótt vissulega bæri að fordæma mannréttindabrot þá hefði svona inngrip engin áhrif og tíma borgarstjórnar væri betur varið í annað. Það er líkt og nietzscheíski iðjuþjálfinn Kjartan Magnússon hafi kropið fyrir framan mig, tekið föðurlega um öxlina á mér og sagt: „Elsku Krummi minn, lítil þúfa veltir engu hlassi því að margt smátt gerir nákvæmlega ekki neitt. Þitt verðlausa framlag til betri heims mun falla niður líflaust eins og korn í Saharaeyðimörk þessa grimma heims og áður en þú veist af verður þú og allir sem þú hefur nokkru sinni kynnst löngu látnir og þessi deyjandi sól okkar búin að falla inn í sjálfa sig.“
Samkvæmt þeirri lógík ógildast öll góð verk ef þau eru ekki í fullkomnu innra samræmi – því sé best að gera ekkert.
Kjartan sagði að þetta væri þó fyrst og fremst hræsni hjá Reykjavíkurborg því að hún ætti í viðskiptum við allskonar önnur ríki, eins og Kína, sem einnig hefðu gerst sek um gróf mannréttindabrot. Samkvæmt þeirri lógík ógildast öll góð verk ef þau eru ekki í fullkomnu innra samræmi – því sé best að gera ekkert.
Ég er ekki frábær neytandi. Ég kíki á sjaldan á framleiðslulönd á matvöru sem ég kaupi. Ég kaupi oft kjúkling og svín sem ég veit að hefur verið farið ömurlega með. Ég segi næstum alltaf já þegar hjálparsamtök hringja í mig en borga bara stundum gíróseðlana og ég reyni að forðast augnsamband við fólk sem er að reyna að selja mér Álfinn eða happdrættismiða til styrktar heyrnarlausum. Einstaka sinnum hellist þó yfir mig einhverskonar kalvinísk neysluskömm og ég geri tilraunir til að kaupa örlítið hamingjusamari egg og klettasalat sem ekki er ræktað á stolnu landi, en í hvert skipti sem þær hvatir koma yfir mig mun lítill, tilfinningalega yfirgefinn Kjartan Magnússon birtast á öxl minni og hvísla að mér að máttur minn sem neytandi sé svo lítill að það taki því ekki að hugsa um þetta, og að ég hafi hvort eð er borðað Nestlé KitKat í gær sem ógildi allar aðrar tilraunir mínar til að verða betri maður.
Þessi aðgerð Reykjavíkurborgar, þótt hún muni ekki ein og sér neyða Benjamin Netanyahu og Mahmoud Abbas til að sauma vinabönd hvor á annan, er í það minnsta einhverskonar lifandi afstaða.
Þessi aðgerð Reykjavíkurborgar, þótt hún muni ekki ein og sér neyða Benjamin Netanyahu og Mahmoud Abbas til að sauma vinabönd hvor á annan, er í það minnsta einhverskonar lifandi afstaða; tilraun til þess að færa pólitík í verk. Einhverjir hafa barmað sér yfir því að með þessu sé Reykjavík að marka sér eigin utanríkisstefnu eins og eitthvað borgríki en einhvern veginn er minna pælt í hinni pólitísku afstöðu sem felst í því að gera ekki neitt og halda áfram að kjósa handahófskennt með eigin seðlaveski. Að gera er jafn sterk afstaða og að gera ekki.
Erum við ekki flest eitthvað að ströggla í áttina að því að verða örlítið betri útgáfur af okkur sjálfum? Samtakamáttur þorra íslensku þjóðarinnar í kring um hamfarirnar sem halda áfram að elta sýrlensku þjóðina þvert yfir Evrópu hefur verið aðdáunarverður – það er vonandi að við fáum að sýna það í verki fljótlega áður en að fleiri drukkna í bjúrókratísku feni nefnda, ráða og ráðuneyta. Skoðanir eru einskis virði ef maður gerir ekkert við þær annað en að hafa þær.
Á morgun munu flestir vakna og taka fimmtíu slæmar ákvarðanir og svona fjórar góðar. Ekki láta litla Kjartaninn í hausnum á þér segja þér að þessar fjórar litlu, ágætu ákvarðanir skipti engu máli – því þá erum við fokked.