Gunnar Bragi var næstum sloppinn fyrir horn. Það var enginn að pæla í honum lengur. Hann hafði tíst til stuðnings Palestínumönnum og sett mildilega ofan í við Pútín þrátt fyrir að það hafi ábyggilega illa samrýmst norðurslóðaáætlunum helsta bakhjarls Framsóknarflokksins. Var Gunnar Bragi kannski allur að braggast? Var hann jafnvel farinn að rifja upp austantjaldskaflana í grunnskólalandafræðinni? Ætlaði hann að reka af sér slyðruorðið fyrir fullt og fast? Það lá við að maður hefði trú á því.
Svo skipaði hann tvo sendiherra.
Það hallærislegasta var ekki að þeir væru pólitískt skipaðir. Það var í takti við annað að hverfa sex ár aftur í tímann í þeim málum – nokkrum mánuðum aftur fyrir hrun. Auk þess eru mennirnir sem fengu vegtylluna þetta sinnið eflaust frambærilegustu sendiherrar, tala einhver nauðsynleg tungumál, eru góðir við börnin sín, hressir eftir einn drykk, geta sagt snyrtilega brandara og fara vel í móttökum. Að minnsta kosti annar þeirra er meira að segja söngelskur og gæti raulað sig blíðlega inn í hugi og hjörtu harðsoðnustu diplómata í Washington. Eitt „Give Peace a Chance“ frá honum á tröppunum fyrir utan Capitol Hill og Ísraelsmenn geta gleymt því að fá fleiri fríar áfyllingar á vopnabúrið sitt úr þeirri áttinni. Það versta við að akkúrat þessir karlpólitíkusar á miðjum aldri skuli hafa verið skipaðir er líklega að það gerði Björn Val Gíslason leiðan. Það er sorglegt.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_08_07/1[/embed]
Kannski seinna
Nei, það hallærislegasta er þessi tilvitnun úr Fréttatímanum í síðustu viku: „Það er alveg hárrétt, að þetta lítur ekki vel út. Við erum meðvituð um að við þurfum að laga þetta, ekki bara í sendiherrastöðum heldur þurfum við að auka almennt hlut kvenna í hærri stöðum í utanríkisþjónustunni og ráðuneytinu. Ég hef sem betur fer tæp þrjú ár í viðbót til þess. Þótt ég hafi bara skipað karla í þetta skipti er ekki þar með sagt að það verði þannig.“
Og: „Þetta hljómar ef til vill eins og klisja en sendiherrastörf kalla oft á tíðum á vinnutíma sem er allan sólarhringinn og gera kröfu á flutningsskyldu milli landa. Það gæti verið að konur sækist síður eftir þessum störfum.“
Einmitt það.
Gunnar Bragi hefði alveg viljað bæta hlut kvenna í utanríkisþjónustunni. Hann veit alveg að það er þörf á því. Hann bara gerði það ekki. Ekki núna. Kannski seinna. Ef þær eru þá til í það.
Þetta svar afhjúpar ekki vondan hug utanríkisráðherrans. Það afhjúpar ekki glópsku hans (og þó). Þetta svar afhjúpar aðallega það að Gunnar Bragi Sveinsson er valdalaus ráðherra. Hann skipaði ekki þessa sendiherra – nema þá að forminu til. Ákvörðunin var annarra, ekki hans, vegna þess að svona talar ekki maður sem tekur sína eigin sjálfstæðu, yfirveguðu ákvörðun, stendur við hana og ver hana. Svona talar maður sem fékk afhent plagg með nöfnum og skilaði málinu í höfn, án þess að svo mikið sem depla auga eða leiða hugann að því hvort þetta mundi kannski allt líta dálítið ankannalega út. Hann er minna ráðherra og meira bréfsendill. Sendilherra.
Það skiptir í raun engu máli hver afhenti ordruna, hvort það var flokksformaðurinn, formaður samstarfsflokksins, Davíð eða Guðni eða óformlegur bakherbergissamráðsvettvangur allra flokka nema anarkistanna í Pírötum sem enginn nennir að hafa með af því að þeir mundu leka öllum fundargerðunum beint á deildu.net. Það er í raun engin leið að vita það nema bara að leita uppi „ha? haarde og árni þór? uu...ok, er ekki annar þeirra kommúnisti og hinn í málaferlum við okkur? lol, en fine by me – reynum að grafa þetta rétt fyrir versló“-SMSið af Vodafone.is þegar næsti tyrkneski hakkari sýnir okkur hvað við kunnum lítið á tölvur.
Skipunin gæti allt eins hafa komið af himnum ofan – það sem máli skiptir er að Gunnar Bragi framfylgdi henni eins og skagfirskur Móses með fangið fullt af líparíttöflum á leið niður af Tindastóli. Og er þá ljóst að þar fer maður sem ræður engu öðru en hvar hann fer í klippingu.
Hugmyndir
En þá vitum við það líka; Gunnar Bragi Sveinsson tekur við tillögum að sendiherrum eins og hann sé þjarki – eins konar utanríkisráðherraforrit sem maður matar á upplýsingum og treystir að skili tilætlaðri niðurstöðu – og þess vegna eru hér að lokum nokkrar uppástungur að sendiherraefnum:
Hanna Birna Kristjánsdóttir: Byrjum á því augljósasta. Hanna Birna er í klandri og vill ekki víkja á meðan ráðuneyti hennar sætir lögreglurannsókn af því að þá tapar hún stríðinu sem hún er búin að ákveða að hún sé í við DV, eins og Páll Vilhjálmsson (af öllum mönnum) benti réttilega á, undir röngum formerkjum þó. Ráðherra á hins vegar ekki að vera í stríði þótt honum finnist að sér sótt og þess vegna væri snjallast að senda Hönnu bara burt í kælingu. London væri tilvalinn áfangastaður; hún gæti tekið Gísla Frey Valdórsson með sér og athugað hvort hann fengi ekki pólitískt hæli hjá ekvadorskum kollega hennar eins og aðrir lekaliðar sem geta ekki um frjálst höfuð strokið.
Sveinn Andri Sveinsson: Mundi leysa forvígismenn Viðreisnar undan þeirri kvöð að þurfa að finna sæti neðarlega á lista fyrir stofnmeðlim sem er nú þegar á svarta listanum í Boltalandi (að því gefnu að Viðreisn fari nokkurn tíma í framboð). Gefið honum lausa kvöldstund með blekpenna, einn blýstífan gin og tónik og bréfsefni merkt utanríkisþjónustunni og lítið svo í hina áttina af gömlum vana.
Davíð Oddsson: Nýja-Delí væri fín, þar er vísast fullt af Vikrömum sem er hægt að ruglast á og kalla þá svo múlatta þegar þeir gera athugasemd.
Marta María: Eins og kollegi hennar í liðnum hér að ofan er Marta smarta vel verseruð í kokkteilboðafræðum og er búin einstökum hæfileikum til að laga sig að framandi aðstæðum.
Náunginn sem vill ekki Barnahús í götuna sína: Það þarf að leysa þetta mál hratt og það er best að gera það með því að flytja þann mann bara úr augsýn.
Þetta var ókeypis, Gunnar. Nú er bara að sjá hvort þetta ratar ekki beina leið í Stjórnartíðindi.