„Vá, hvað höfundar áramótaskaupsins hafa úr miklu að moða í ár,“ gæti einhver hugsað. Ég dauðvorkenni þessum hópi sem enn er ekki búið að setja saman. Margir aðrir eru nefnilega í kapphlaupi við tímann að finna grín- eða kaldhæðnisvinkil á samtímann í rauntíma á þeim netvettvangi sem þeir hafa kosið sér. Ég er búin að hafa þennan pistil, sem á að vera beittur, relevant og fyndinn, yfir mér í heila viku. En, það er búið að skrifa um allt eða segja alla brandarana á öðrum vettvangi.
Í fyrradag hugsaði ég: Já, perukakan! Ó, mig langaði svo að skrifa um perukökuna. It’s been done og það á allan mögulegan hátt - það er meira að segja búið að birta uppskriftir að perukökum. Eina sem mér datt í hug er að Sigmundur veit meira en við - hann veit að allt er að klárast. Fyrst lúxuskjúllinn, svo nautakjötið, svo restin af kjúklingnum, svo svínið OG BEIKONIÐ og svo lambið. Brátt fer fólk að vera sammála mér um að hrossakjöt sé geggjað, af því að það verður að sætta sig við að það er það eina sem er eftir.
Ok. Förum persónulegu leiðina. Verkfallsaðgerðir komu lítið við mig fyrr en í gær þegar fréttir bárust af því að kjúklingurinn væri að klárast, og það á KFC. Ég var viðþolslaus í vinnunni, Twitter og Facebook píptu á mig í símanum með endalausum skilaboðum um að KFC-endir væri í nánd. Um leið og síðasti viðskiptavinurinn sagði bless var ég sest upp á vélfákinn minn og lagði líf mitt í hættu akandi Sæbrautina á háannatíma (á 50 km/klst) til að geta fengið mér gullhúðaða englavængi, mögulega í síðasta sinn. Halldór Högurður bendir á að dýralæknar séu með þessu að stuðla að heilbrigðu mataræði landans. Á sama tíma hugsar kona til allra nýopnuðu hamborgarastaðanna með ameríska þemanu og það fyndnasta sem mér datt í hug með það sem ekki var búið að skrifa áður var: Hvað segir Sigga Kling við því að nautið sé að klárast og það í hápunkti nautsmerkisins? Ég veit, mjög langsótt og beinlínis fáránlegt.
140-slaga skopið er ekki skrifað með breiðan hóp að leiðarljósi. Það er mun auðveldara að grínast hratt um málefni líðandi stundar, fyrir vini, kunningja og vinnufélaga sem eru með á svipuðum nótum og sá sem skrifar, já eða til að augljóslega trölla þá sem eru á öndverðum meiði. Seinni tíma skop gæti þurft að verja einhverjum tíma í upprifjun, sem gerir grínið stirt. Samtímagríni leyfist að vera mistækt - Spaugstofan var misjöfn en það voru líka vikurnar sem hún tók saman. Grínklukkan tifar, og það er mögulega búið að skrifa það sem þér datt í hug.
Tilfinningin að vera síðust með brandarann skelfir mig. Síðastliðið laugardagskvöld var ég að horfa á Alla leið uppi í sumó í stopulu netsambandi. Grínklukkan tifaði, og ég var ekki með. Eina sem ég vildi leggja til málana var: Kommon. Hættið að láta eins og júróvisjón sé bara keppni í tónlist. Þetta er keppni í skemmtiatriði í sjónvarpi sem pakkað er inn í þriggja mínútna popplag. Ég gat ekki komið þessu frá mér á grínaðan hátt því ég var með fráhvarfsskjálfta sem endaði í því að ég var sjóðandi brjáluð að vera bara ekki fengin í settið.
Er eitthvað grín sem á að fjalla um samtímann, en er samt sýnt eftir nokkra mánuði, að fara að toppa #gerðiþaðekki-lagið sem birtist á Nútímanum?
Nei, ég held ekki.
Á einhvern undarlegan dystópíuhátt held ég að það að mótmæla beitt á netinu og skrifa beitt geri afar lítið, nema styrkja bubbluna í kringum mann í trúnni að við séum betri, klárari, beittari, fyndnari og mannúðlegri en hinir. Bilið milli hópana breikkar, og það er nákvæmlega það sem vonda fólkið vill. Sundra og drottna. Er Gylfi Æjjjjjjis að fara að lesa alla málefnalegu pistlana um að allir eigi að hafa mannréttindi til að elska? Ég efast um að hann hafi tíma í það. Hann setur fram hommagrínstatusa og sammálakórinn dýrkar það og hann er bara sáttur í sínu. Er orkunni þá ekki betur varið í að fræða og ræða þetta heima við komandi kynslóðir og nota hann sem dæmið um tilfinningablindu risaeðluna?
Það er allt í volli og vollið kemur við okkur flest. Auðvitað hefði ég átt að fara í 1. maí-göngu, en mér fannst einhvernveginn bara nóg að pósta link á einhverja grein. Ég er ömurleg. Ég fór ekki í fyrsta maí-göngu því ég þurfti að komast í Smáralind þegar hún opnaði kl. 13 til að kaupa skraut fyrir óvænt babyshowerpartý sem byrjaði kl. 14 þennan dag. 10 vinkonustig, 0 róttæknistig.
Þau sem gert er grín að eða eru gagnrýnd geta vel sleppt því að opna internetið nokkra tíma eftir axarsköftin. Margir eru með aðstoðarmenn sem geta falið fyrir þeim þessa gagnrýni eða haldið þeim uppteknum í klukkutíma því þá er kominn nýr heitur pistill eða nýtt netgrín.
Hluti þjóðfélagsins er í verkfalli og þó það sé verið að græða á daginn þá eru grillsteikurnar búnar. Vonandi verður þetta til þess að grænmetisbændur fá sama afsláttinn og stóriðjan. Dýralæknar hafa þá á óvæntan hátt lagað skyndibitafíkn landans cold turkey og leyst það mál. Takk fyrir það.
Þegar upp er staðið fer grínið út í tómið og góða grínið týnist í síbyljunni. Höldum samt áfram, þó þeir sem eigi að taka grínið og gagnrýnina inn á sig séu búnir að loka tölvunni og séu frammi að fá sér köku.