Ég sá skrípamynd í snjallsímanum mínum á fréttaveitunni á Facebook með þessum orðum: Hvar ætlarðu að horfa á símann þinn um helgina? Ég var einmitt í skemmtilegu margmenni, skrunandi í gegnum símann þegar ég sá myndina. Ég kastaði frá mér símanum og vissi upp á mig sökina en greip í hann aftur ómeðvitað tíu mínútum síðar og hélt áfram að skrolla.
Saaaambandi, ég verð að ná sambandi
„Að vera í sambandi við annað fólk er mér lífsnauðsyn,“ sungu Stuðmenn á sínum tíma. Ég tengi við þetta textabrot. Ég er ekki skráð á já.is út af alls konar prinsippástæðum, þannig að mikið af vinnutengdum upplýsingum kemur í gegnum tölvupósta og samfélagsmiðla. Skrunfingur eru í góðri þjálfun en notkunin snýst þó ekki um þetta samband eða samskipti nema að litlu leyti. Ég vil aðallega láta klappa (fyrir) mér. Ég hef talið mér trú um að lækfjöldi sé að hækka í mér einhver félagsfærnihlutabréf. Í raunheimi er þessu öfugt farið. Því meira sem er að gerast í símanum, þeim mun minni samskipti á ég við vini mína sem ég er fýsískt nálægt þá stundina – sem ég var að enda við að pósta instagrammynd af og monta mig af því að eiga fallegustu og bestu vini í heimi.
Enn einn snjallfallinn
Einn þeirra fékk sér snjallsíma um daginn og kættumst við hin í hópnum þegar hann smellti inn þessu á bók bókanna: „Var að fá snjallsíma. Hvað geri ég næst? (fyrir utan að hætta að tala við vini mína þegar ég sit með þeim til borðs, obviously).“ Við hlökkuðum til að sjá fyndni hans ná nýjum hæðum með snjallsímamyndavél að vopni. Hann stendur sig með miklum sóma (hahaha – ritvinnsluforritið leiðrétti sóma í síma), nema að hann er ekki orðinn eins snjallóþolandi og við hin. Hann heldur ennþá fast í hefðina að grínast við fólkið sem hann er að hanga með þá stundina. Ég vona að hann haldi í þessa hefð sem lengst.
Læk
Þrír samfélagsmiðla-/snjalltækjaspádómar hræða mig. Í 1984 er talað um að tungumálið sé að rýrna – og brátt skorti orð til að tjá blæbrigði. Í heimi þar sem „like“ þýðir allt frá „það besta sem ég hef á ævinni séð“ til „ég votta þér innilega samúð mína“ hringir þetta viðvörunarbjöllum. Nánast allt í LoveStar er óhugguleg lesning, sérstaklega í ljósi þess að hún er gefin út árið 2002. Í kvikmyndinni Wally, fara öll samskipti hinna almennu borgara fram með skjáforriti, þeir nenna ekki einu sinni að snúa höfðinu í átt að þeim sem situr við hliðina á þeim. Ég hef spjallað við sambýliskonu mína í tölvunni – þó að hún sé í næsta herbergi.
Tvær konur
„Ég hélt þú værir hressari í alvörunni,“ sagði maður við mig einu sinni, „þú ert nefnilega svo fyndin á feisbúkk“. Ég vissi ekki hvort þetta væri hrós til handa internet-Margréti eða diss á lifandi Margréti. Líklega bæði, því þær eru langt í frá sama manneskjan. Internet-Margrét svífur á milli danstíma og búningapartía og er mun beinni í baki og brosmildari en hin. Hún tekur myndir í stofunni sinni og myllumerkir þær húsinu sínu. Lifandi Margrét nennir lítið að taka til heima hjá sér (nema rétt til að ryðja veginn fyrir myndatökur) og er hljóðlát innan um fólk sem hún þekkir ekki. Í slökun er andlitið alvarlegt og fær ólíklegustu menn til að segja eigandanum að brosa, sem færi internet-Margréti til að twitta um #everydaysexism.
Síbyljan
Tökum síðustu helgi sem dæmi. Á föstudagskvöld fór ég í grillpartí. Ég stóð ekki við grillið, en smellti í mynd af mér við grillið, með spaðann á lofti. Á laugardagskvöld héldum við vinirnir búningajúrópartí. Af myndunum að dæma er ég manna hressust í ofsalega fínum búning. Í alvörunni sat ég sveitt við tölvuna í partíinu á meðan á keppninni stóð, klædd, greidd og förðuð sem Silvía Nótt að passa mig að slá í gegn á internetinu kastandi myllumerkjum hingað og þangað í stað þess að kasta konfettí yfir vini mína. Upplýsingaflæðið frá hverjum og einum er líka orðið svo svakalegt. Ef afkomendur mínir fara nú að kynna sér frumkvöðulinn og langalangömmu sína Margréti Mokk finna þeir tæplega gull í síbyljunni sem ég hef sent frá mér. Ég átti í engum vandræðum með að finna frábærar myndir af og viðtöl við ömmu mína á tímarit.is – „Margrét í Bangsa velur ungu og sexí mennina“ (Pressan, 20. janúar 1994, blaðsíða B 19) er mögulega það besta sem ég hef séð. Afkomendur mínir munu helst finna statusa þar sem ég auglýsi eftir samferðafólki á KFC rétt fyrir hádegi á laugardögum og sunnudögum en munu ef til vill hoppa yfir fréttir um fyrsta og eina íslenska sirkusinn, viðtöl um stórbrotin dansnámskeið og karaokepartí – og missa algjörlega af þessu Kjaftæðisgulli hér.
Að lokum er gott að hafa í huga þegar skrollað er í gegnum filterað líf sjálfs sín og annara: Hamingjan er úr plasti ef hún er spiluð á fullu blasti.
Auglýsing
Kjaftæðið birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.