Áramótin eru tími upprifjana og uppgjörs – þá hugsar fólk hlýlega hvert til annars og góðu stundanna sem það átti saman á liðnu ári og þeirra sem vænta má á því nýja, er þakklátt fyrir vini sína og það sem það hefur og fullt af tilhlökkun andspænis nýjum áskorunum. Þetta segir að minnsta kosti allt merkisfólkið í nýársávörpunum sínum og svo stendur þetta í pistlum á sjálfshjálparvefsíðum sem ég les ekki.
Sjálfur fyllist ég örvæntingu við áramót og felli tár, einblíni á ósigrana og allt það sem ég afrekaði ekki (frekar en árin á undan), bý mér til ræktarplan sem ég svík í viku tvö og lofa mér í hálfum hljóðum í huganum að breytast í bestu mögulegu útgáfuna af sjálfum mér, nema bara ekki alveg strax og helst án þess að fórna nema brotabroti af lastalífinu.
Í þetta sinn ætla ég að prófa nýja remedíu fyrir sálarheillina: að gera upp árið með eftirfarandi lista, og hafa svo hugfast eins lengi og ég get að ég vann að minnsta kosti ekkert á honum:
Afsökunarbeiðni ársins
Hér eru margir til kallaðir; Geir H. Haarde gekk svipugöng í sjónvarpsþættinum Hæpinu út af gömlum ummælum um litað fólk, Björn Bragi húðstrýkti sig að minnsta kosti tvisvar út af sprelli um Austurríkismenn og nasisma og Icelandair Hótel tóku svokallaðan Apartheid-kokteil úr sölu á Slippbarnum.
Þeim sem fær vinninginn hefur líka orðið hált á hinu rasíska grínsvelli, en hann hefur þó ekki séð ástæðu til að biðjast afsökunar á því. Hann þurfti hins vegar að biðjast forláts á því að hafa skrifað heilt Reykjavíkurbréf tileinkað umboðsmanni Alþingis, sem byggði allt á þvælu sem hann fékk senda í tölvupósti frá kverúlanti sem vildi svo til að var alnafni umboðsmannsins. Afsökunarbeiðni ársins á ritstjóri Morgunblaðsins.
Loforð ársins
Þegar Framsóknarflokkurinn lofaði 100.000.000 (hundrað milljón) nýjum íbúðum í Reykjavík í Facebook-færslu. Það er í sjálfu sér ekkert mikið galnara en „leiðréttingin“.
Bíll ársins
Jeppinn sem forstjóri Strætó keypti fyrir sjálfan sig, eyðilagði svo í laxveiðiá og skilaði að lokum ásamt starfsmannaskírteininu sínu með loforði um að hann mundi borga tjónið kom sterklega til greina. Það sama má segja um nýju ráðherrabílana og farskjótann sem hálfnakti maðurinn steypti um koll í kjallaranum á Höfðatorgi, varð „viral“ og skaut Vísi.is þannig á topp íslensku vefmælinganna í eina viku.
Nafnbótina „Bíll ársins“ hlýtur samt Land Cruiser-jeppi formanns ASÍ, sem fyrir þremur árum sá ástæðu til að senda frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann ætti sko alls engan Land Cruiser, heldur væri hann „Nissan Patrol-maður“. Í ár átti hann sannarlega Land Cruiser, lagði honum auk þess í fatlaðrastæði og þrætti svo fyrir það að hafa yfirleitt lagt honum.
Lukkudýr ársins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, íklæddur treyju kanadíska hokkíliðsins Edmonton Oilers á stóra skjánum í rjáfri Rexall-hallarinnar.
Fyrirtæki ársins
Mjólkursamsalan er enn að selja mér mjólk og hefði þess vegna átt að vinna, ef ekki væri fyrir fyrirtæki ársins og allra ára; IKEA, sem kom ítrekað við sögu í fréttum á árinu. Forsætisráðherra hélt því fram, í óskiljanlegri þingræðu, að fleiri Bandaríkjamenn tengdu Ísland við IKEA en hvalveiðar. IKEA kynnti til sögunnar nýjar Billy-hillur sem er ekki hægt að samnýta með þeim gömlu, upp komst að IKEA héldi svartan lista yfir sérstaklega óþekk Boltalandsbörn, maður var skallaður í andlitið í IKEA og síðast en ekki síst þá sætti IKEA gagnrýni fyrir að hækka verðið á Sprengidagssaltkjötinu sínu úr túkalli í tæpar þúsund krónur. Ástæðan? Árið áður höfðu sumir borðað svo mikið að þeir ældu um alla búð. Allt þetta stóð sænska stálið af sér.
Viðskipti ársins
Norsku vélbyssurnar sem við tímdum ekki að borga fyrir toppa það þegar 40 „kettlinga“ tilboð í ónýtan Subaru var lagt fram fyrir mína hönd og annarra á Facebook-síðunni Braski og bralli á kojufylleríi í Berlín. Fimmtán ára strákurinn sem tók því kostaboði er enn að bíða eftir peningunum sínum.
Vigdís Hauksdóttir ársins
Einnig nefndar:
- Vigdís Hauksdóttir sem vildi selja Rás 2.
- Vigdís Hauksdóttir sem sagði að það væri hungursneyð í Evrópu og að Malta væri ekki sjálfstætt ríki.
- Vigdís Hauksdóttir sem hvatti fyrirtæki til að hætta að auglýsa í Kvennablaðinu.
- Vigdís Hauksdóttir sem gekk með vatnsfötu á höfðinu yfir Austurvöll til stuðnings þróunarsamvinnu eftir að hafa, ein þingmanna, greitt atkvæði gegn áætlun um þátttöku Íslands í þróunarsamvinnu.
- Vigdís Hauksdóttir sem sagði skýrslu Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður Íslands við ESB varla standast gæðakröfur Háskóla Íslands.
Sigurvegarinn: Vigdís Hauksdóttir sem kvartaði undan því að starfsmenn Alþingis ávörpuðu hana.
Vonbrigði ársins
Íslenskir glæpamenn sem senda uppstilltar hópmyndir af sér úti í móa hver til annars og reyna karatespörk í punginn á hver öðrum fyrir framan börn við undirleik lagsins Sweat með Inner Circle.
Orðuveiting ársins
Orðan sem Sigmundur Davíð fékk fyrir að mæta (eða mæta ekki) í vinnuna vakti athygli, en orðuveiting ársins hefur ekki enn átt sér stað. Það má hins vegar gera ráð fyrir því að eini opinberi starfsmaðurinn sem kallaði beinlínis eftir því að fá orðu fyrir störf sín fái ósk sína uppfyllta á nýársdag; þáverandi aðstoðarkona utanríkisráðherra, sem tísti eftirfarandi af fundi á Balí: „Hér sit ég að ræða gjaldeyrishöft, verðtryggingu og skuldaleiðréttingu við Belga, Dana, Mauritusbúa og Indónesíumann #FML #ishouldgetamedal.“
Afsögn ársins
Þetta var gjöfult af-/uppsagnaár. Hanna Birna, Gísli Freyr, Jón Gnarr, Stefán Eiríksson, Halla Sigrún, stjórnarformaður FME, Ólafur Stephensen og Simmi Vill hjá Subway hefðu öll verið vel að titlinum komin, en það er bara einn sigurvegari, og sá er Óskar Bergsson, af augljósum ástæðum.
Dauður hestur ársins
Umræðan um kirkjuferðir grunnskólabarna rétt mer umræðuna um fyrirkomulag á smásölu áfengis og hestana tólf sem raunverulega drápust í Bessastaðatjörn fyrir jólin.
Maður ársins
Íslenska stelpan sem hitti tvífara Hughs Hefner í Playboy-partíi kom til álita, sem og Þórðargleðiandlagið Snæbjörn Steingrímsson og maðurinn sem var útnefndur neikvæðasti maður Reykjanesbæjar í þorraannál og brást við með því að flytja úr bænum. Titilinn „Maður ársins 2014“ hlýtur hins vegar Sigurjón Jónsson, varabæjarfulltrúinn í Kópavogi, sem varð brjálaður yfir að hafa ekki verið boðið á Justin Timberlake-tónleika í Kórnum eins og aðalbæjarfulltrúum og vændi kollega sína um spillingu um leið og honum varð ljóst að hann fengi ekki miða sjálfur. Megi hann vera sem mest í fréttum á árinu 2015.