En það bar til um þessar mundir, að boð barst frá heilabúi mínu, að setja skyldi myndband á YouTube sem væri einungis ljósmynd af Agnari Hanssyni, fyrrverandi forstjóra Sparisjóðabankans, og undir væri spilað lagið „Mmmbop“ með hljómsveitinni Hanson. Ég hafði ákveðna ljósmynd af Agnari í huga. Ljósmyndin og lagið eiga tvennt sameiginlegt; ósvikinn hressleika og nafnið Han(s)son. Ef þið skiljið ekki neitt þá get ég því miður ekki gert meira til að útskýra þennan gjörning nema að vísa á myndbandið. Ég hafði (og hef) svo sem enga trú á því að nokkrum þætti þetta fyndið nema mér og nokkrum vinum mínum í það mesta.
Forstjóri fjármálafyrirtækis og tölvuleikjaspilari í hjáverkum
Myndbandið fékk að vera óáreitt á internetinu þangað til mér bárust skilaboð frá téðum Agnari þar sem óskað var skýringa. Ég veitti þær. Af einhverjum ástæðum áttu þessi samskipti sér stað á spjallforritinu Google Hangouts. Agnar samþykkti útskýringar mínar. Spjallinu lauk en það fékk sinn sess í lista yfir gömul spjöll, sem ég hafði fyrir augunum af og til. Um daginn rak ég augun í þetta spjall aftur og tók þá eftir því að Agnar var búinn að skipta um nafn. Núna hét hann „Promethean Knight“ og við nafnið var mynd af framtíðarvélmenni sem leit út eins og sögupersóna í Alien-kvikmyndunum. Leitarvélarrannsóknir mínar leiddu í ljós að þetta vélmenni er persóna í tölvuleiknum Halo, sem er skotleikur framleiddur fyrir Xbox-leikjatölvuna. Nú veit ég ekki hvort einhverjum þyki Hanson-myndbandið áhugavert en mér þótti áhugavert að Agnar Hansson, fyrrverandi forstjóri fjármálafyrirtækis, skyldi afhjúpast sem tölvuleikjaáhugamaður. Ekki bjóst ég við því. Þetta stríddi gegn hugmyndum mínum um Agnar Hansson sem fjölskyldumann sem horfir á Die Hard á kvöldin og fer á gæsaveiðar um helgar.
„Það býst enginn við því að hin háalvarlega ríkisstofnun Ríkiskaup sé létt og skemmtileg, en þegar Facebook-síða þeirra er skoðuð má draga þá ályktun að þar haldi 37 ára gömul húsmóðir á Blandinu á penna.“
Nú er rétt að minna á hið fornkveðna, að það að útskýra brandara er líkt og að kryfja frosk; skilningur á innihaldinu eykst en ómögulegt er að framkvæma krufninguna án þess að drepa froskinn. Og svo vil ég taka fram að fólk sem setur sig á háan hest með því að útskýra hvað er fyndið og hvað ekki fer stundum ofsalega í taugarnar á mér. Fjúkket. Þá er það frá. Í anda þess sjónarmiðs að fyrirvarar geti réttlætt allt ætla ég nú að útskýra brandara og segja ykkur hvað er fyndið og hvað ekki.
Mis misklukkuð kímnigáfa stjórnsýslunnar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er svolítið að reyna að vera Agnar Hansson alþýðunnar þegar kemur að þátttöku hennar í félagsmiðlum á internetinu. Löggan spilar með þær væntingar sem fólk hefur um hana. Það er búist við því að löggan sé alvarleg af því að hún þarf að fylgja lögunum. Þess vegna birtir hún grínmyndir og -myndbönd og uppsker vinsældir fyrir. Þetta er þekkt aðferðafræði í heimi grínsins. Ríkiskaup eru annað dæmi. Það býst enginn við því að hin háalvarlega ríkisstofnun Ríkiskaup sé létt og skemmtileg, en þegar Facebook-síða þeirra er skoðuð má draga þá ályktun að þar haldi 37 ára gömul húsmóðir á Blandinu á penna.
„Það er vitaskuld fagnaðarefni að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skuli ekki taka sig alltof alvarlega og ég styð það heils hugar, en mér finnst sprellið hennar ekki kitla hláturtaugarnar.“
Það er þó ekki nóg að spila með væntingar til að vera fyndinn. Það þarf að glæða grínið ákveðnum blæbrigðum til að það komist til skila. Blessunarlega er ekki hægt að koma því í orð með góðu móti hvað þarf til að grínið verði gott. Grínið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fer fyrir ofan garð og neðan af því að þessi blæbrigði vantar. Afhjúpun Agnars Hanssonar sem Halo-spilara er hins vegar fyndin, kannski af því að hún er óviljandi. Svo finnast mér Ríkiskaup fyndin af því að þau hafa þessi blæbrigði sem lögregluna skortir. Ríkiskaup leyfa sér að varpa ásjónu valdsins af sér, en löggan ekki. Löggan stígur ekki grínskrefið til fulls. Hún stígur aldrei út fyrir mörk hins krúttlega og vel þokkaða, út á svið hins absúrda og óskiljanlega, eins og Ríkiskaup gera.
Það er vitaskuld fagnaðarefni að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skuli ekki taka sig alltof alvarlega og ég styð það heils hugar, en mér finnst sprellið hennar ekki kitla hláturtaugarnar. En hvað veit ég? Ég er maðurinn sem brestur í hlátur hvenær sem hann sér Bristol-töfluna um klínískar skilgreiningar á þéttleika hægða.