Ég er búinn að bíða spenntur eftir því að allt fari til fjandans hérna síðan við byrjuðum að brenna vörubretti fyrir utan Þjóðleikhússkjallarann fyrir fimm árum. Einhvers staðar á leiðinni þaðan gleymdum við líklega af hverju við vorum svona reið því að kjaftæðið er síst minna núna en þá. Reyndar virðist kjaftæðið vera komið heilan hring því það á að fara að grafa Hvalfjarðargöngin aftur svo að það sé örugglega hægt að rukka okkur í tuttugu ár í viðbót fyrir þann lúxus að þurfa ekki að rekast á Kristján Loftsson í vegasjoppunni við hvalstöðina þar sem hann er í óða önn að mala síðasta hvalinn ofan í bjórflösku.
Við nennum varla að tuða lengur yfir því að íslenskir ráðamenn séu of miklir aumingjar til að reka hornin í mannréttindabrot valdasjúkra stórþjóða. Borgarstjórinn einn lætur í sér heyra á meðan forsetinn tekur brosandi í hlébarðatemjandi KGB-krumlurnar á Pútín, enda finnst honum ekki að blanda eigi saman íþróttum og pólitík. Það að flokka mannréttindi sem pólitík er reyndar merkileg afstaða út af fyrir sig.
Fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra er búinn að rífast svo mikið um sjálfan sig í kommentakerfi DV að hann er orðinn virkur í athugasemdum og formaður Samfylkingarinnar er með sjónvarpsþátt í niðurníddu verksmiðjuhúsnæði niðri við höfn. Menntakerfið okkar er svo lélegt að það er ennþá verið að notast við sömu kennslubækurnar og Geir Haarde las 1958 þar sem blökkumenn eru kallaðir negrar og brúnir menn malajar – sem er svo fordómafullt að ég veit ekki einu sinni hvað það þýðir. Lífsleikni Gillz er langsamlega vinsælasta kvikmynd landsins þrátt fyrir að 365 hafi reynt að brenna allar negatífurnar og unglingar eru orðnir svo lélegir að þeir drekka ekki lengur brennivín heldur teyga Actavis-hóstasaft og reykja salvíu.
Það eru yfir hundrað auglýsingastofur og markaðsfyrirtæki skráð í Reykjavík. Það vinna líklega fleiri hjá markaðsfyrirtækjum en í heilbrigðisgeiranum; samt er heitasta varan á Íslandi Lakk/Rís Draumur; Ríssúkkulaði sem er búið að klessa saman við Draum, eins og eitthvert markaðsþróunarlegt andleysisbílslys. Stærsti verkalýðsleiðtogi landsins biðlar til vinnuflotans að kvitta undir ömurlega kjarasamninga því að það þurfi að ná þjóðarsátt um að halda áfram að vera ógeðslega blönk á meðan Pétur Guðmundsson og Eykt reisa tvo nýja tólf milljarða króna turna í Borgartúninu þrátt fyrir að hafa skuldað 44 milljarða árið 2010 sem bara einhvern veginn hurfu inn í einhverja afskriftarmóðu.
Samt erum við bara að tala um mann í Grindavík að handverka sig, eins og enginn hafi gert það áður.
Mikael Torfason er búinn að öskra á mig þrjá sunnudaga í röð en samt er Gísli Marteinn harðasti einstaklingurinn í íslensku sjónvarpi – þótt það hafi líklega hjálpað honum að forsætisráðherrann er með viðlíka sjónvarpsþokka og uppblásinn Richard Nixon þótt hann hafi verið betur púðraður. Svo eru það Samtök atvinnulífsins sem tuða mest yfir hægristjórninni. Fyrir hvern í veröldinni er þessi stjórn þá?
Steypan endurtekur sig dag eftir dag og við látum hana yfir okkur ganga því að fyrir framan nefið á okkur hangir gulrót sem boðar bjartari tíð rétt handan við hornið. Vorið er eiginlega komið, orlofið er greitt út eftir þrjá mánuði, HM í fótbolta er í sumar, skuldaniðurfellingarnar hljóta að detta inn fljótlega og það eru bara þrjú ár í kosningar. Við stöndum í þeirri meiningu að ef tíminn líði hljótum við að vera að færast áfram í átt að einhverju þegar við erum í raun bara öll ofan í sama feninu af klósettvatni – syndandi í hringi á eftir gulrótinni. Og þegar betur er að gáð er gulrótin engin gulrót heldur rúgbrauðsbiti í bandi og fyrir aftan þig stendur tíminn eins og danskur dýragarðsvörður sem bíður eilíft færis að skjóta þig í hnakkann, búta þig niður og kasta þér í ljónagryfjuna.