Stundum líður mér eins og ég sé bara nýjasti farþeginn í farartækinu sem er þessi líkami minn. Kolvetnistvífætlingur af tegund mannapa sem er 198cm á hæð rauðhærður með krullur og kallaður Bragi Páll. Ég sé minningar mínar eins og dofnaðar ljósmyndir úr bók sem ég held ég hafi lesið einusinni. Eins og þær tilheyri öðru tilverustigi. Ég upplifi mjög litla tenginu við gamlar sögur sem sagðar eru af mér. Þetta gætu alveg eins verið sögur af annarri manneskju frá öðru landi. Það eina er að ég hef heyrt þær svo oft, og þær innihalda persónu sem ber sama nafn og ég. Þetta var ekki ég. Núna er ég einhver annar. Ég er enginn stofn. Ég er trjágrein. Ekki línuleg manneskja. Ég er í tætlum.
***
Heimurinn þar sem til er gott og vont, svarthvítt fólk er heimur einfaldrar ímyndunar. Þetta er allt grátt. Misgrátt. Þú heldur kannski að þú sért frábærlega góð manneskja, og þú ert það, en á nákvæmlega sama tíma alls ekki. Þér finnst þú kannski vera vonlaus og gagnslaus og ert bara að velta því fyrir þér hvernig sé skilvirkast að drepa þig, en einnig það er misskilningur. Aðeins upplifun. Við erum öll grá. Þú ert frábær og vonlaus, en sjálfsmynd þín hefur nánast engin áhrif á upplifun annara. Þú ert fullkomin vera en samtímis alls ekki sú sem þú telur þig vera.
Við erum gjörðir okkar. Hvort sem þú telur þig gallalausan dýrling eða réttdræpan aumingja. Skiptir ekki máli. Það eina sem skiptir máli eru gjörðir. Við erum orðin sem koma út úr munninum á okkur. Hlutirnir sem hendurnar á okkur gera. Allt og sumt. Sjálfsmynd þín kemur ekki inn í þetta. Mér finnst ég frábær þjóðfélagsþegn, góður við dýr og börn. En ef það er stöðugt vesen á mér - hvort sem ég er á galeiðunni að setja hnefann á mér í andlitið á grunlausu fólki eða að nota völd mín til að mismuna fólki eftir stéttum eða með háværar neikvæðar skoðanir á minnihlutahópum, þá getum við verið sammála um að líklega er upplifunin af hinum góða mér ekki í samræmi við raunveruleikann.
Ég heyrði einu sinni eldri mann tala um að í mörg ár upplifði hann sig aftengdan öðru fólki. Öðrumegin var hann. Hinumegin allir aðrir. Svo sagði hann að lífið hefði smám saman gerst, og að hann hefði fengið að sjá samhengið. Í öllu. Að enginn væri ótengdur öðrum, sama hvað gerist. Svo sagði hann þessa fallegu setningu. Mörg andlit á einum. Það er eitt að átta sig á því að við séum öll ein heild, að allt líf sé eitt, en að lifa í þeirri upplifun, það hlýtur að vera himnaríki. Að fá að taka á móti hverjum degi vitandi að við erum öll bara mörg andlit á einum. Dásamlegt.
Svo virðist vera að mjög sérstakar aðstæður, t.d. það að alast upp í öfgafullum vellystingum, geti valdið því að sumt fólk verður ófært um að tengjast upplifunum annarra. Að í svo langan tíma hafir þú séð heiminn með mun dýrari gleraugum en allir aðrir, og að það brengli sýn þína á þá sem lifa öðruvísi en þú. Skekki hana.
Kannski fer þér að finnast bara allt í góðu að þú hafir það mun betra en flestir. Kannski ferðu að sækjast eftir völdum, og notar þau svo til þess að tryggja það að þú og þínir munið nú örugglega ekki líða skort á næstunni. Kannski verður brenglunin svo mikil að þér finnst þú einfaldlega eiga rétt á stærstu sneiðinni. (En þú bara mátt ekki segja það ;)) Áður en þú veist af ertu svo farinn að skamma þá sem raunverulega hafa það verra en þú. Fyrir það eitt að vilja líka sneið. Firrtur. Farinn að þjóna einungis þínum eigin sjálfselsku hagsmunum. Til í að segja hvað sem er til þess að verja þá. Jafnvel á kostnað sannleikans.
***
Réttlæti er samkomulag. Handahófskennt. Tilraun til að strauja blóðið úr.
Réttlæti er sveigjanlegt. Breytilegt. Vogaskálar sem við reynum blindandi að jafna út í myrkri. Réttlæti er kennd. Sem kemur eftirá. Fljótandi.
Réttlæti er eitthvað sem ég veit ekki alveg hvað er en ég veit ég er að horfa á eitthvað annað.
***
Allar upplifanir eru jafn réttháar. Engin upplifun sannari en önnur. Svo getum við reynt að hafa áhrif á upplifanir fólks með því að blanda okkur inn í þær á einhvern hátt. Okkur finnst kannski á okkur brotið og bendum á það. Þá segir e.t.v. fólkið sem er að brjóta á okkur að ekkert brot sé að eiga sér stað. Það fólk á hugsanlega hagsmuna að gæta og segir því að öll neikvæð umræða sé bara niðurrif og áróður orsakað af annarlegum hvötum.
Það er stöðugt verið að segja okkur hvernig við eigum að upplifa heiminn. Persónulega hef ég haft mest gaman að því að taka engu trúanlegu nema því sem ég get sannreynt sjálfur. Ef ég sé óréttlæti þá segi ég SVINDL. Og ef við sjáum saddasta fólkið skera stærstu sneiðina handa sér og sínum ættum við kannski að biðja þau að hlusta á garnagaulið í okkur hinum.
***
Ég elska að vera til. Ég hlakka til að fá að upplifa alla þá hluti sem þessi blanda af skrokk og heila með þessar skoðanir og skilyrðingu mun ganga í gegnum. Ég er alveg sáttur við að vera farþegi í eigin líkama. Fylgjast með okkur öllum lifa okkar fullkomnu lífum í takt við teningana sem alheimurinn hefur kastað.
Ég hef oft upplifað mig sem manneskju sem þegir þegar hún sér óréttlæti. Kannski vegna þess að ég hef ekki viljað blanda mér í deilur sem ég hef ekki vit á. Kannski út af leti. Ég veit það ekki. Þessi misserin virðist ég hinsvegar vera manneskja sem lætur í sér heyra þegar hún sér eitthvað brotið. Og akkúrat núna er mjög margt brotið. Og ef þú ert að upplifa eitthvað svipað þá þarft þú líka að láta í þér heyra. Það eina sem óréttlætið þarf til að blómstra er að vera vökvað með aðgerðarleysi.
***
Við erum ekki fasti. Við erum trjágreinar. Vöxum saman.