Ég verð að viðurkenna það, að ég brosti út í annað þegar Heiðar Guðjónsson útskýrði um daginn af hverju hann tók út miðjunafnið sitt. Hann var uppnefndur mávurinn. Fyrstu viðbrögðin mín voru „kommon maður - þetta var bara grín,” en bara-grínið getur sært og setið eftir. Og stundum byrjar alvarlegt einelti sem góðlátlegt grín.
Þó margir haldi að eftirnafn mitt sé borið fram Maaaaaak, þá er það borið fram Mokk. Aa verður o-hljóð, eins og í Kaaber, Waage og Haarde. Mokk rímar við alls konar, smokk og fokk og framsæknustu skólalóðarskáldin rímuðu það við tott. Þetta var ekkert í gaggó neitt, ónei, þessi suddaorð fuku á skólalóðinni í Ísakskóla. En þetta var nú bara góðlátlegt grín hjá einhverjum eldri strákum (8 ára, ég var 6 ára) sem stundum var leyst sem að strákar verði nú alltaf bara strákar (ok hversu ömurleg er sú lína samt?). Sem betur fer hafði ég heilan ættboga sem lent hafði í sömu stríðninni, svo ég gat huggað mig við að þetta væri í það minnsta ófrumlegt.
Versta stríðnin, eða útilokunin, kom síðan í sjötta bekk. Ný stúlka byrjaði í bekknum en hafði víst gengið áður í Austurbæjarskólann. Henni líkaði eitthvað illa við það hversu vel ég og æskuvinkona hennar náðum saman og hóf einhvers konar baktjaldamakk og stofnaði haturshóp sem beindist gegn mér. Mér skilst samt að þau hafi nú bara hist reglulega og spilað en þetta hafði samt áhrif á mig. Eftir sjötta bekk fór ég í sumarbúðir í Bandaríkjunum og fékk að sjá að heimurinn væri stærri en Austurbæjarskólinn svo þessi óvild beit ekki svo mikið á mig þarna í upphafi. En þetta hélt áfram út grunnskólann.
Þá fóru að koma sms-skeyti úr hennar númeri þar sem hótað var ofbeldi á borð við að stinga umferðarkeilu upp í rassgatið á mér.
Í áttunda bekk fengum við svo mörg GSM-síma í fermingargjöf. Þá fóru að koma sms-skeyti úr hennar númeri þar sem hótað var ofbeldi á borð við að stinga umferðarkeilu upp í rassgatið á mér. Skilaboðin voru skrifuð á ensku, kannski til að vera töff eða eitthvað. Ég ætlaði alltaf að sýna foreldrum og kennurum skilaboðin, en svo var símanum mínum stolið í búningsklefanum í balletinum. Svo hélt þetta áfram og ýmislegt var skrifað um mig á veggina í skólanum. Ég skrifaði einu sinni smá um hana á vegg í dönskustofunni, með yfirstrikunarpenna sem náðist af með munnvatni. Ég svitnaði allan tímann sem ég skrifaði það. Og strokaði svo út.
En talandi um balletinn. Það sem ég var þakklát fyrir þennan ballet. Þó ég hafi á svipuðum tíma fattað að ég ætti kannski ekki framtíð fyrir mér á þessum vettvangi, þá sótti ég í þetta í gaggó. Balletinn var tómstund sem ekki var bundin við hverfi, eins og margt tómstundarstarf, svo þar var annar mórall „í bekknum” en í Austó. Ég átti marga vini þar - en - nema hvað - ég var alltaf að stríða einni stelpunni þar. Þá fannst mér það rosalega léttvægt, en ég er nýbúin að átta mig á að ég lagði hana í einelti. Og af hverju? Af því að mér leið svo illa í skólanum mínum út af einni beyglu. Kannski leið þeirri sem var með þetta hatarafélag illa annars staðar og tók það út svona. En ég hefði átt að vera betri manneskja en að varpa þessu yfir á hina stúlkuna.
Fyrirgefðu, nafna mín. Ég skammast mín ógurlega.