„Ég skal viðurkenna það að ég hlakkaði til þegar ég fór að sofa í gærkvöldi og vaknaði kátur í morgun,“ sagði Sigmundur Davíð í tilefni skuldaleiðréttingardagsins sem væntanlega verður rauður dagur héðan í frá. Í myrkvuðu húsi í Garðabænum hefur kveðið við annan tón þar sem Bjarni Benediktsson hefur staðið glaseygður og grábaugaður fyrir framan baðherbergisspegilinn og sagt við sjálfan sig: „Sama hvað gerist á morgun þá ertu ennþá flottur strákur,“ og hnyklað svo brjóstvöðvana á sér máttleysislega því til ósannfærðar staðfestingar.
Á meðan á ofæfða blaðamannafundinum stóð hefur hann svo síendurtekið þessa möntru í hausnum á sér á meðan hann horfði á vel varasalvaðar varir forsætisáðherrans hreyfast hljóðlaust á milli þess sem hann velti fyrir sér hvort það væri einhver leið til þess að aftengja vitund sína líkamanum á meðan á þessum skrípaleik stóð.
Samt stendur stærsti stjórnmálaflokkur Íslands þögull í farþegasætinu og horfir á þennan gjörning fara fram, hugmyndafræðilega holur að innan eins og tilfinningalega tómi feðraveldisúthverfapabbinn sem hann er
Hann hlýtur nefnilega að skammast sín. Alveg eins og allur Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að skammast sín. Eins glötuð og hún oft er þá er hann nefnilega flokkur hugmyndafræði sem gengur út á frelsi – og jafnframt ábyrgð einstaklingsins í samfélaginu – sem samræmist illa þeim gjörningi að láta opinberu fé rigna yfir fólk eins og rappari á strípiklúbbi í lélegu tónlistarmyndbandi frá tíunda áratugnum. Samt stendur stærsti stjórnmálaflokkur Íslands þögull í farþegasætinu og horfir á þennan gjörning fara fram, hugmyndafræðilega holur að innan eins og tilfinningalega tómi feðraveldisúthverfapabbinn sem hann er – hafði eitt sinn drauma og væntingar um einhverja Ayn Randíska hetjuparadís en horfir nú dauðeygður á sjónvarpið til að deyfa í burtu magapínuna af öllu stoltinu sem hann hefur þurft að gleypa. Ætli það sé ekki eins gott að hann megi ekki versla sér bjór í hverfisbúðinni því að annars mundi hann líklega drekka sig í svefn á hverju kvöldi.
Siðblindur fær sýn!
En það voru ekki bara titrandi efrivarir í Hörpunni heldur líka uppi í Efstaleiti þar sem Gísli Freyr Valdórsson var leiðasti maður í sjónvarpi síðan forstjóri British Petroleum baðst afsökunar á því að hafa hellt 800 milljón lítrum af olíu niður í Mexíkóflóa. Auðmjúkur baðst hann afsökunar á því að hafa dregið þennan lygamyllustein á eftir sér í tæpt ár og þarna loksins kominn á siðferðislega endastöð. Ég hefði ekki trúað þessu hefði ég ekki séð þetta með mínum eigin augum – eins og að horfa á sjónvarpsútsendingu frá kraftaverkastund með Benny Hinn – siðblindur fær sýn!
Hann virtist reyndar ekki muna mörg atriði málsins, né eftir neinum samtölum við fólk og í raun gat hann ekki fært atburðarrásina í nein orð – nema þá einföldu staðreynd að sökin var hans og samviskan leyfði honum ekki að halda þessum lygavef gangandi.
Vinir hans og velgjörðarmenn úr Sjálfstæðisflokknum keppast svo um að senda honum heillaóskir og koma í orð aðdáun sinni á þeim gríðarlega persónulega styrk sem hann sýndi með því að ljúga stanslaust í tíu mánuði, dylgja um hælisleitendur, benda á aldraðar skúringakonur og játa svo þegar óyggjandi sönnunargögn lágu loksins fyrir.
Vinir hans og velgjörðarmenn úr Sjálfstæðisflokknum keppast svo um að senda honum heillaóskir og koma í orð aðdáun sinni á þeim gríðarlega persónulega styrk sem hann sýndi með því að ljúga stanslaust í tíu mánuði, dylgja um hælisleitendur, benda á aldraðar skúringakonur og játa svo þegar óyggjandi sönnunargögn lágu loksins fyrir. „Öll él stytti upp um síðir Gísli minn...You’ll be back!” peppar pólstjarna íslenskrar siðvitundar, Tryggvi Þór Herbertsson. Svo sendir Fíladelfíusöfnuðurinn líka heillakveðjur.
Helen Keller-málsvörnin
Þrátt fyrir allt þetta ber innanríkisráðherra enn fyrir sig Helen Keller-málsvörnina og vill meina að hvorki augu, eyru né önnur af hennar skynfærum hafi verið virk síðastliðið tæpa árið og að hún geti ekki borið ábyrgð á afglöpum ófaglegs og pólitískt ráðins aðstoðarmanns. Hún mun sitja sem fastast þangað til hún verður borin út enda búin að segja af sér nógu mörgum embættum.
En núna þegar þeir eru búnir að framkvæma stóra Einars Mikaels-töfrabragðið sitt og breyta 80 milljörðum í tilgangslaust kjaftæði þá hlýtur kæruleysislyfið fljótlega að renna af fólki
Í þessu blóðbaði stendur Framsóknarflokkurinn einhvern veginn eftir sem sigurvegari í stríði hentistefnunnar gegn hugmyndafræði. En núna þegar þeir eru búnir að framkvæma stóra Einars Mikaels-töfrabragðið sitt og breyta 80 milljörðum í tilgangslaust kjaftæði þá hlýtur kæruleysislyfið fljótlega að renna af fólki og það þarf að undirbúa næsta útspil til að halda sýningunni gangandi í rúmlega tvö ár til viðbótar. Nú þegar er byrjað að berja þann uppstoppaða hest sem er Reykjavíkurflugvöllur og er þá líklegt að næst verði gripið í gamla slagara eins og pervertískan áhuga á skipulagsmálum í Sogamýrinni, fjölmenningarfóbíu og sturlaðan ótta við erlent grænmeti.
Annars er ekkert nýtt í því að lygarar haldi áfram að ljúga. Það er samt ágætt að hafa í huga að stærsta ástæðan fyrir því að lygarnar komast stundum upp er að frekir blaðamenn fá óþolandi þráhyggju fyrir að afhjúpa þær. Hefðu þeir Jón Bjarki og Jóhann Páll ekki haldið áfram að hamra á þessu máli í nærri heilt ár þá hefði líklega enginn fellt nein tár í Efstaleitinu. Það er ekki sjálfgefið á tímum þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur varla við að snúa við dómum yfir íslenskum blaðamönnum sem Hæstarétti fannst vera of hortugir. Stundum er ekki nóg að kveikja bara á kerti úti í glugga og vona að siðlausu svikararnir skammist sín. Stundum er allt í lagi að gelta smá og rífa kjaft.
Góða fólkið hefur mælt.
Hanna Birna segðu af þér.
Parklife!