Í staðinn fyrir að krossa okkur á innsoginu á meðan við teljum jeppaauglýsingar í dagblöðunum og pelsklæddar konur í Kringlunni, hvernig væri að prófa svolítið nýtt? Hvernig væri að láta uppsveifluna, sem nú er komin í gang, ekki reita okkur til reiði heldur taka á henni af vandvirkni í þetta sinn. Hvernig væri að reyna að koma í veg fyrir að þetta verði eins og síðast. Að biðja þá sem bíða með glóandi gullstangir, tilbúnar í bræðslu og eyðslu, að halda stillingu sinni.
Tökum nýja góðærinu með ró, verum yfirveguð og dönnuð, skínum skærar í þetta sinn. Ég legg til að í þessu góðæri, vandvirka góðærinu ef ég má, verði lögð áhersla á smekklegheit, frumleika, kúltúr, og síðast en svo aldeilis ekki síst: Sjálfsvirðinguna. Grundvallaratriðið er: Hvernig verður hægt að koma á sem mest elegant hátt undan óhjákvæmilegu hruni. Þið vitið. Við erum ekki að fara að taka þátt í neinu helvítis djammi þannig að við getum ekki horfst í augu hvert við annað daginn eftir. Ónei, það verður enginn subbulegur þynnkumórall í þessu góðæri. Þetta verður lekker veisla með litlu víni, ekkert alkóhóllaust alveg en þið vitið, settlegt og virðulegt.
Fyrsta verkefnið er að átta sig á því hvernig hægt er að gera þetta minna plebbalegt en síðast. Það er byrjað að glitta í góðærið hér og hvar og því miður er stefnan, sem það virðist vera að taka, hrottaleg: Bearnaise gosbrunnar, hvítbólstraðir leðurveggir og instagram af makkarónu og kampóglasi í Saga Lounge?! Í alvörunni talað krakkar? Höfum við EKKERT lært? Við getum ekki leyft okkur að silast inn á þessa kunnuglegu og glötuðu hallærisbraut. Ekki aftur. Ekki meir.
Mundi það til dæmis myrða lifur að keyra smá metnað og dýpt í gang í þetta sinn? Bara smá? Áður en þetta fer allt í sama ruglið og síðast og ekki er hægt að bakka út. Síðast var bara svona „eitthvað” gert og svo var ekki hægt að koma neinu af þessu djönki, sem fólk hafði sankað að sér, í verð því það var allt svo ljótt og glatað. Í ljósi þessa, nú þegar peningarnir eru byrjaðir að rúlla aftur inn á færibandi, hefur aldrei verið mikilvægara að koma einmitt fram við þá af smekkvísi og eyða þeim fallega. Hvernig væri til dæmis að auðkýfingarnir okkar ættleiddu fallegan orangúta í Amazonfrumskógi í staðinn fyrir að spandera í ávaxtaskúlptúr af fjölskyldunni á stórafmælum. Ókei, ef það þarf endilega að eyða þessum peningum í hluti, þá plís reynið að gera það með stæl, svo aðrir þurfi ekki að þjást yfir þeim ólekkerheitum og hnakkastælum og uppaviðbjóði sem grasseraði hér í síðasta góðæri.
Elton John og Tinu Turner verður ekki boðið í þetta sinn. Gefið dansandi pandabjörnunum frí og leyfið fermingarveislugestum frekar að handfjatla gamlar rostungstennur sem víkingar versluðu með og fundust á Snæfellsnesi hér um árið. Ef markmiðið er að hressa upp á innbúið til hvers að rusla einhverri design klukku upp á vegg þegar svo auðveldlega er hægt að gera sér gömlu kirkjuklukkurnar úr sveitinni, þar sem forfeðurnir fæddust og dóu, að góðu? Hægt er að hengja klukkurnar upp í forstofunni og hala svo í reipið einu sinni á dag eða oftar þegar maður vill safna nágrönnunum saman til að vekja athygli á sér eða koma með tilkynningar. Þetta er svo miklu fágaðra, svo ég tali nú ekki um þjóðlegra, en þegar starfsfólk Range Rover umboðsins myndar heiðursvörð þegar tekið er á móti nýjasta módelinu.
Talandi um samgöngumáta: Forðumst einsleitan jeppaflota eins og síðast. En hvernig á þá að komast um? gæti einhver spurt. Jú, hví ekki að koma sér upp hestastóði? Reyna að ríða á milli staða hér í borginni? Eins og fína fólkið í sveitunum ferðaðist á milli bæja? Æða með gusti inn á svæðið hvar sem maður kemur? Þetta er líka gott fyrir fólk sem hræðist ekki athyglina. Hvernig er hægt að baða sig í meiri ljóma og dýrð en að mæta á Gosa frá Fagrahóli í vinnuna, jafnvel með kaskeiti úr Geysi?
Þegar huga skal að lóðinni væri síðan ágætt að byggja ekki einhvern letilegan pall og klístraðan heitan pott. Allt almennilegt fólk reisir sér auðvitað minnismerki. Minnismerkið yrði til heiðurs forfeðrunum sem voru sjómenn. Hægt yrði að halda hátíðarstund í garðinum einu sinni í mánuði þar sem heimilisfólk vottaði þeim, sem rökuðu inn auðinum sem það býr við í dag, virðingu sína. Og gleymum ekki formæðrunum í eitt augnablik. Við tökum hinn íslenska konudag lengra og látum sauma skotthúfur á fjölskyldumeðlimi unga sem aldna. Með alvöru silfurhólkum og öllu tilheyrandi. Í þessum múnderingum væri hægt að spranga um bæinn á 17. júní. Það yrði nú aðeins meiri stíll yfir því en varningnum frá London sem liðið verslaði sér á milli tónleika með Stuðmönnum hérna um árið. Í nýja góðærinu verður ekkert: „Beint í búðirnar eftir Albert Hall”. Ónei.
Talandi um útlönd: Það kemur ekki til greina að menga móður jörð með því að ferðast til útlanda tvisvar í mánuði. Við ætlum ekki að láta nappa okkur aftur í næsta hruni sem algjöra fábjána. Þegar verið er að brenna jólatréð á Austurvelli jólin 2019 verður ekki hægt að gúggla neinn Íslending svolgrandi í sig lífselixír úr heilagri laug í Jórdaníu með gullflögum ofan á. Ó nei. Það er miklu smekklegra að geta sagst með stolti hafa varið góðærinu heima í garðinum að róta í moldinni að rækta eitthvað. (Note to self: Muna að reka þjónustuliðið út úr myndarammanum þegar tekin er selfie í garðinum fyrir samfélagsmiðlana. Netið gleymir engu.)
Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um að skilja eitthvað eftir sig. Eins og til dæmis sjálfsvirðinguna. Ef afla á sér vinsælda í góðærinu er ekki sigurstranglegt að draga vini og kunningja með í kúlulán eða eitthvert álíka loftlaust rugl. Alvöru auðugir vinir mæta með heimabakað brauð á tröppurnar þegar samferðafólk þeirra fær kvef. Þið vitið. Smá sveitafílingur eins og í gamla daga þegar fólk kunni og gat. Í samheldnum dal þar sem óðalsbóndinn gaf fátæklingum ókeypis meðöl og mat. Vera til staðar andlega líka, hugga sorgmædda með ábúðarfullum svip. Eins og Lísibet í Dalalífi. Hún var auðug en gerði vel við sitt fólk, sendi barnaföt á bæi þegar konur lögðust á sæng. Það er öllu ríku fólki hollt að finna sig í svona hlutum. Win win fyrir alla. Reynum að skilja eitthvað meira eftir okkur en Range Rover og blóðnasir þegar allt fer norður og niður. Því það er lögmál börnin góð. Allt sem fer upp fer á endanum niður. Góð(æris) stundir.